Tekjuskattur og eignarskattur
Laugardaginn 21. apríl 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Páll Pétursson):
    Herra forseti. Á þskj. 925 er prentað frv. til laga um breytingu á lögum nr. 71/1981, um tekjuskatt og eignarskatt, með síðari breytingum. Þetta frv. er flutt af fjh.- og viðskn. og í því er lagt til að gerðar verði nokkrar breytingar varðandi skattfrádrátt vegna fjárfestingar manna í hlutafélögum.
    Í desember sl. voru gerðar breytingar á framangreindum lögum varðandi frádráttarheimildir vegna fjárfestingar í hlutafélögum þar sem t.d. hámarksfrádráttur vegna fjárfestingar í hlutafélögum var hækkaður umfram verðlag. Þær breytingar sem gerðar voru í desember höfðu veruleg áhrif á viðskipti með hlutabréf og varð mikil aukning á sölu hlutabréfa í lok síðasta árs.
    Á því samdráttarskeiði, sem atvinnulíf landsmanna gekk í gegnum á síðustu tveimur árum, hefur komið í ljós hversu veikburða og skuldug íslensk fyrirtæki eru. Þessi rýra eiginfjárstaða íslenskra fyrirtækja gerir þau vanhæfari til að þola tímabundin áföll. Erfiðleikarnir undanfarin tvö ár höfðu því mikil gjaldþrot í för með sér. Með þessu frv. eru lagðar til breytingar sem eiga að veita almenningi frekari skattalega hvatningu til að fjárfesta í hlutabréfum. Auk þess er um að ræða breytingu sem á að ýta undir skráningu og viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands.
    Ég ætla að fjalla lítillega um efni einstakra greina frv. Samkvæmt 1. gr. frv. er lagt til að söluhagnaður af hlutabréfum í tilteknum fyrirtækjum verði skattfrjáls ef hann er ekki yfir 300 þús. kr. eftir fjögurra ára eignarhaldstíma. Heimilt verður að miða skattfrjálsar arðgreiðslur við allt að
15% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs í stað 10% samkvæmt núgildandi lögum. Hjá fyrirtækjum verður úthlutaður arður frádráttarbær upp að 15% af nafnverði hlutabréfs í stað 10% samkvæmt núgildandi lögum. Lagaákvæðum er breytt í því skyni að auðvelda viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands.
    Lagt er til að söluhagnaður af hlutabréfum verði skattfrjáls upp að tilteknu marki og að uppfylltum ákveðnum skilyrðum. Gert er ráð fyrir því að söluhagnaður af sölu á hlutabréfum, sem er ekki hærri en 300 þús. kr. hjá hverjum manni, verði skattfrjáls enda hafi viðkomandi maður átt hlutabréfin í full fjögur ár. Hér er einungis um að ræða söluhagnað af sölu á hlutabréfum í félögum sem ríkisskattstjóri hefur á söluári veitt staðfestingu um að uppfyllt séu skilyrði III. kafla laga nr. 9/1984, um frádrátt frá skattskyldum tekjum vegna fjárfestingar í atvinnurekstri, með síðari breytingum. Sem dæmi um framangreind skilyrði er að um sé að ræða hlutafélag með hlutafé a.m.k. að fjárhæð 12 millj. kr. (miðað við árslok 1988), hluthafar séu a.m.k. 25 og að engar hömlur séu lagðar á viðskipti með hlutafé félagsins og ársreikningar þess séu öllum aðgengilegir. Þessi grein tekur aðeins til söluhagnaðar af sölu á hlutabréfum sem keypt eru á árinu 1990 eða síðar.

    Sú breyting sem hér er gerð þótti eðlileg þar sem í dag eru arðstekjur, sem nema allt að 115 þús. kr., skattfrjálsar. Á fjögurra ára tímabili getur einstaklingur því fengið 460 þús. kr. í skattfrjálsar tekjur af hlutabréfaeign ef viðkomandi hlutafélag greiðir arð. Af hlutafélgum sem skila hagnaði en greiða ekki arð birtist hagnaðurinn gagnvart hluthöfunum í því að hlutabréfin hækka í verði. Því þykir eðlilegt að visst samræmi sé í skattfrelsi arðs og söluhagnaðar af hlutabréfum.
    Ekki þótti þó rétt að þakið yrði full 460 þús. kr. þar sem hlutabréf geta hækkað í verði af öðrum sökum en þeim að hlutafélög greiða ekki arð þrátt fyrir hagnað og sumir geta notið skattfrelsis bæði á arði og söluhagnaði. Hér er því stigið mjög verulegt skref til að ýta undir fjárfestingu í hlutabréfum og til að hvetja eigendur þeirra til að halda í þau í einhvern lágmarkstíma.
    Í 2. gr. frv. er lagt til að arður, sem greiddur er einstaklingum, verði skattfrjáls að hámarki 15% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs eða hlutar í stað 10% samkvæmt núgildandi lögum. Samkvæmt þessu verður einstaklingum heimilt að draga frá tekjum sínum, sem ekki eru tengdar atvinnurekstri eða sjálfstæðri starfsemi, fenginn arð að hámarki 15% af nafnverði hvers einstaks hlutabréfs, þó að hámarki 115 þús. kr. hjá einstaklingi og 230 þús. kr. hjá hjónum.
    Samkvæmt 3. gr. frv. er lagt til að heimilt verði að draga frá tekjum tapaða hlutafjáreign sem vegna greiðsluerfiðleika hlutafélags var tekin sem gagngjald fyrir viðskiptakröfu sem viðkomandi átti á hendur hlutafélaginu. Með þessu er verið að auðvelda fyrirtækjum, sem eiga viðskiptakröfur á hlutafélög sem eiga í greiðsluerfiðleikum, að taka þátt í fjárhagslegri endurskipulagningu viðkomandi hlutafélaga með því að breyta viðskiptaskuld í hlutabréf. Samkvæmt núgildandi lögum er fyrirtækjum heimilt að draga frá tekjum sínum tap á útistandandi viðskiptaskuldum á því tekjuári sem skuld er sannanlega töpuð. Þetta hefur haft það í för með sér að tregðu hefur gætt hjá fyrirtækjum að breyta viðskiptaskuld í hlutafé þar sem ekki hefur verið hægt að draga frá
tekjum fyrirtækisins hlutafé sem tapast hefur og það hefur eignast með þessum hætti.
    Í 4. gr. frv. er lagt til að samræmi verði á milli skattfrelsis á útgreiddum arði hjá einstaklingi, sbr. 2. gr. frv., og félagsins sem greiðir hann út. Samkvæmt þessu er lagt til að félaginu verði heimilað að draga frá tekjum sínum fjárhæð þá sem það greiðir eða úthlutar í arð, þó að hámarki 15% af nafnverði hlutafjár í stað 10% eins og lögin kveða á um.
    Samkvæmt 5. gr. frv. er lagt til að ekki þurfi að telja hlutabréf til eignar á kaupþingsverði þótt þau séu skráð á opinberu kaupþingi. Núgildandi lög eru talin koma í veg fyrir viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands. Tilgangurinn með þessari breytingu er að örva viðskipti með hlutabréf á Verðbréfaþingi Íslands og gera þau samkeppnisfær. Með þessu tekst vonandi að koma viðskipum með hlutabréf af stað á Verðbréfaþingi Íslands. Sú lausn

sem hér er fundin á þessu máli er þó ekki líkleg til þess að standast til frambúðar þar sem eðlilegast er að hlutabréf, jafnt sem aðrar eignir, séu metin í samræmi við raunverulegt verðgildi, einnig í skattalegu tilliti. Hins vegar þarf að taka eignarskattsmat hlutabréfa til endurskoðunar í heild. M.a. þarf að skoða hvort hægt sé að finna aðra leið til þess að uppskrifa hlutafjáreign en að gefa út jöfnunarhlutabréf. Á meðan er eðlilegt að sú tilhögun sem hér er lögð til verði höfð á þessu máli.
    Í 6. gr. er lagt til að hámarksfjárhæð skattfrjáls söluhagnaðar af sölu hlutabréfa samkvæmt 1. gr. frv. breytist með sama hætti og fleiri fjárhæðir laga nr. 75/1981. Samkvæmt þessari grein mun fjárhæðin breytast í samræmi við skattvísitölu sem ákveðin er í fjárlögum.
    Lokagrein frv., þ.e. 7. gr. þess, þarfnast ekki skýringa þar sem hún fjallar um gildistöku frv. Samkvæmt þeirri grein öðlast lögin strax gildi og koma til framkvæmda við álagningu opinberra gjalda á árinu 1991 vegna tekna og eigna á árinu 1990.
    Þær breytingar sem hér eru lagðar til munu engin áhrif hafa á tekjur ríkissjóðs á þessu ári. Í hvaða mæli þær munu koma til með að lækka tekjur ríkissjóðs í framtíðinni er hins vegar erfitt að segja til um. Að öllum líkindum hafa þau lítil áhrif þar sem á móti lægri skattlagningu á hlutafjáreign koma aukin viðskipti með hlutafé og sterkari eiginfjárstaða fyrirtækja. Sú breyting sem hér er lögð til varðandi hámark skattfrjáls úthlutaðs arðs mun ekki hafa mikið tekjutap í för með sér fyrir ríkissjóð þar sem upphæðarþak hjá einstaklingum er óbreytt og þau eru ekki mörg, íslensku fyrirtækin í dag, sem hafa efni á því að greiða 15% arð.
    Herra forseti. Ég tel ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um það frv. sem hér er til umræðu. Þetta frv. er flutt af fjh.- og viðskn. deildarinnar. Nefndin er einhuga um málið og því tel ég ekki ástæðu til þess að fjalla frekar um það í fjh.- og viðskn. og legg því ekki til að því sé vísað til nefndarinnar. Frv. er flutt í framhaldi af frv. sem hv. 1. þm. Reykv. og fleiri fluttu fyrr í vetur um sama efni og var til meðferðar í fjh.- og viðskn.