Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegur forseti. Ég þakka hv. atvmn. Sþ. fyrir afgreiðslu þessa máls og samstarf við mig vegna þeirra breytinga sem lagt er til að gerðar verði á tillögunni.
    Breytingarnar sem gerðar hafa verið á tillögunni við umfjöllun í nefndinni koma til móts við þau sjónarmið sem fram komu í sumum umsagnanna um að betur þyrfti að skilgreina hugtakið hópferð og að í einstaka tilfellum gæti reynst erfitt að hafa alls engan sveigjanleika hvað varðar ráðningu leiðsögumanna. Að öðru leyti var efni allra umsagnanna jákvætt. Ég er sammála þessum brtt. og tel mikilvægt og fagna því að samstaða skyldi takast með öllum nefndarmönnum um afgreiðslu málsins.
    Leiðsögumenn gegna lykilhlutverki í ferðaþjónustunni og því skiptir miklu máli að einungis þeir sem vel þekkja til náttúru, sögu og staðhátta landsins fylgi erlendum gestum okkar sem hingað koma. Í vetur hefur spunnist þó nokkur umræða um ferðamál og virðast allir sammála um að það skipti meginmáli að við Íslendingar getum skipulagt þessa nýju og lofandi atvinnugrein á okkar eigin forsendum, miðað við okkar eigin aðstæður. Til þess að svo megi verða er nauðsynlegt að við mótum okkur stefnu og svo vel vill til að á dagskrá þessa fundar er einmitt þáltill. um mótun ferðamálastefnu og fylgir tillögunni mjög ítarleg greinargerð og upplýsingar um flesta þætti ferðamála. Sú tillaga er þó reyndar trúlega aðeins lögð fram til kynningar á þessu þingi en efni þeirrar tillögu sem hér er til afgreiðslu er afar mikilvægur hlekkur í keðjunni og mun væntanlega koma til framkvæmda fyrir háannatíma ferðaþjónustunnar á næsta ári.
    Með því að styrkja stöðu íslenskra leiðsögumanna ættum við að geta tryggt góða og örugga umgengni við viðkvæma náttúru landsins og að erlendir ferðamenn fái alltaf áreiðanlegar upplýsingar um land og þjóð frá fólki sem auk menntunar sinnar hefur reynslu af því að búa í þessu landi.