Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Matthías Á. Mathiesen:
    Frú forseti. Hér fara fram umræður um þingsköp sem eru talandi tákn um það með hvaða hætti þinghaldið er hjá okkur á þessu þingi. Hér er vikið að afgreiðslu frá nefndum. Hægt er að telja þann tíma í mánuðum sem liðinn er frá því frv. er vísað til nefndar og það er ekki enn farið að taka það til afgreiðslu í viðkomandi nefnd. Samkvæmt starfsáætlun Alþingis eru ekki ýkja margir dagar eftir af þinghaldi, það mun sennilega vera hægt að telja þá á fingrum sér, a.m.k. hefur ekkert annað verið gefið upp.
    Hér er spurst fyrir um skýrslu ráðherra sem beðið var um fyrir tveimur mánuðum síðan. Ráðherrann kemur og vísar til greinargerðar sem fylgir frv. sem hann hefur flutt. Ekki er um það að ræða að skýrslan sem beðið var um fyrir tveimur mánuðum síðan hafi séð dagsins ljós. Ég vil nú spyrja hæstv. ráðherra, á hann von á því að skýrslan komi áður en þingi lýkur samkvæmt starfsáætlun þingsins? Hann sagði að hún mundi sjá dagsins ljós eftir örfáa daga en það eru ekki nema örfáir dagar þangað til þingi á að ljúka.
    Síðan er það upplýst, og það er gott að hæstv. utanrrh. fór ekki til útlanda á fund svo hann getur svarað hér og nú, að beðið hafi verið um upplýsingar frá utanrrn. varðandi það nefndarmál sem hér er þingskapaumræða um. Og það er upplýst eftir tvo mánuði að utanrrn. hefur ekki haft aðstöðu til þess að svara eða gefa þær upplýsingar sem spurt var um. Þá vil ég spyrja hæstv. ráðherra hvort hann telji að þetta séu vinnubrögð sem ráðuneyti eigi að sýna Alþingi þegar beðið er um upplýsingar hjá nefnd og legið er á þeim. Það má vel vera að ráðuneytið geti ekki gefið upplýsingarnar, þá er bara að láta vita af því. Það getur vel verið að upplýsingarnar séu með þeim hætti að þar sé eitthvað sem einhverjum aðila er ekki að skapi, en það verður þá að koma fram. Þessi vinnubrögð eru með allt öðrum hætti en a.m.k. mér var talin trú um af fulltrúum þeirra flokka sem í ríkisstjórn sitja í dag, sumum hverjum, að menn
ættu að haga sér þegar þeir væru í ríkisstjórn og væru að sinna störfum þar. Menn reyndu að mínum dómi að gera þessa hluti með þeim hætti að svona vinnubrögð væru ekki viðhöfð á Alþingi.
    Þessu til viðbótar má benda á að umboðsmaður Alþingis hefur kvartað yfir því að Stjórnarráðið sinni ekki upplýsingaskyldu sinni, að þeir sem leita til Stjórnarráðsins fái ekki svör. Ríkisendurskoðun, við erum sammála um að breyta lögum um Ríkisendurskoðun, styrkja hana. Til hvers? Til þess að þegar Ríkisendurskoðun kemur með sína gagnrýni standi ráðherrar hér upp og segi: Þetta er bara tóm vitleysa, það er ekkert að marka Ríkisendurskoðun. Henni er ekkert ætlað að segja okkur fyrir verkum eða dæma um það sem við höfum verið að gera. Ekki má gleyma því sem hér var sagt um ríkislögmann. Af því hann hafði skoðun á málum sem ekki passaði ráðherrum, ja, þá var bara lagt til að leggja það embætti niður svo ekki væri verið að gagnrýna lögfræðileg atriði í sambandi við framkvæmd ráðherra

á ýmsum málum.
    Ég vildi draga þetta hér saman einfaldlega til þess að við gerðum okkur grein fyrir því að þau vinnubrögð sem eru viðhöfð eru ekki virðingu Alþingis samboðin. Við eigum að breyta þessu, það er okkar að gera það og ég trúi því að þingmenn séu þeirrar skoðunar og þá verða þeir og ráðherrarnir líka að sinna þessum málum.