Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Forseti (Guðrún Helgadóttir):
    Vegna þeirrar umræðu sem nú fer fram vill forseti upplýsa að sjaldan eða aldrei hafa jafnmörg mál fengið afgreiðslu og á þessu þingi, þar á meðal frá hæstv. ráðherrum. Nú er staðan sú, þegar líður að þinglokum, að einungis 13 fsp. bíða skriflegs svars og einungis 19 munnlegum fsp. er ósvarað og margar þeirra eru alveg nýjar þannig að ekki hefði einu sinni verið unnt að svara þeim fyrr en nú. Fyrir Sþ. liggja óræddar innan við tíu þáltill., ef ég man rétt, ég hef ekki haft tíma til að taka þetta nákvæmlega saman --- þær munu vera nánar tiltekið 16, svo að öllu sé til skila haldið og eru þá nokkrar alveg nýjar. Ég hygg að sjaldan eða aldrei hafi svo mörg mál hlotið afgreiðslu.
    Varðandi störf í nefndum hafa fleiri þáltill. verið afgreiddar út úr þinginu það sem af er liðið þingi en oft áður. Síðast nú fyrir stundu voru afgreiddar fjórar þáltill. og margar tillögur eru væntanlegar úr nefnd á næstu dögum. Ég held því að hér sé ekkert óvenjulegt á ferðinni. Starfsmaður skrifstofu sýnir mér nú að þáltill. frá þingmönnum sem samþykktar hafa verið eru þrettán en fjórum vísað til ríkisstjórnarinnar. Af þingmannafrv. eru tvö orðin að lögum, fimm frv. frá nefndum eru orðin að lögum og fimm þingmannafrv. hefur þegar verið vísað til ríkisstjórnarinnar. Ein vantrauststillaga hefur verið felld. Ég vil upplýsa að ég hygg að hér hafi fleiri þingmannamál verið afgreidd nú en oft áður. Þetta vildi ég aðeins segja til upplýsingar.