Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson :
    Frú forseti. Það er rétt, vegna þeirra ummæla sem hafa fallið úr forsetastóli, að vekja athygli á því að umræða þessi um þingsköp hófst vegna athugasemda um afgreiðslu eins tiltekins máls úr þingnefnd en ekki vegna umkvörtunar um það hversu mörg mál hefðu verið afgreidd eða samþykkt hér í þinginu. Það er aukaatriði sem kemur í sjálfu sér ekki við þeirri þingskapaumræðu sem hér hófst. Auðvitað er það svo að á hverju þingi er aldrei hægt að afgreiða öll mál sem fyrir það eru lögð, þau eru fleiri en svo. Jafnan kemur til eitthvert mat á því, pólitískt mat, hvaða mál eru endanlega borin undir atkvæði. Þó þingsköp geri ráð fyrir þeirri meginreglu að farið skuli eftir töluröð þskj. er það jafnan svo að frá því þarf að víkja og grundvöllur þeirra undantekninga hlýtur að vera pólitískt mat.
    Hér var vakin athygli á því að þáltill. sem borin er fram annað árið í röð og vísað var til hv. utanrmn. í byrjun febrúar hefur ekki verið afgreidd. Svo háttar til um þessa tillögu að hæstv. utanrrh. hefur lýst því yfir opinberlega að hann telji eðlilegt, eða sjái a.m.k. ekkert athugavert við að Alþingi samþykki tillöguna. Sú alvarlega staðreynd hefur verið upplýst hér að hv. utanrmn. hafi ekki getað afgreitt málið vegna þess að upplýsingar sem hv. nefnd hefur óskað eftir hafi ekki borist frá utanrrn. Þetta er mjög alvarleg ásökun í garð utanrrn., ekki síst í ljósi þess að fyrir liggur að hæstv. ráðherra hefur greint frá því opinberlega að hann telji eðlilegt að till. verði samþykkt. Þess vegna er nauðsynlegt að fram komi skýrar yfirlýsingar hér og nú varðandi þetta mál. Ég óska í fyrsta lagi eftir því að hæstv. utanrrh. staðfesti fyrri yfirlýsingar sínar um þetta efni, að hann gefi þinginu yfirlýsingar um að það dragist ekki út þennan dag að hv. utanrmn. fái umbeðnar upplýsingar. Hann staðfesti það hér að séu þær þess eðlis að þær séu ekki bundnar trúnaði þá fái nefndin þær upplýsingar strax í dag. Og ég óska eftir
því að ef jákvæð svör fást við þessu af hálfu hæstv. ráðherra, sem ég fastlega geri ráð fyrir, þá komi hv. formaður utanrmn. hér aftur í ræðustólinn og staðfesti að hann muni beita sér fyrir því að till. verði afgreidd úr nefnd án tafar, að fengnum þessum upplýsingum, þannig að Alþingi geti tekið afstöðu til tillögunnar. Þetta tvennt, þessar yfirlýsingar annars vegar frá hæstv. utanrrh. og hins vegar frá hv. formanni utanrmn., er nauðsynlegt að fá fram hér við þessa umræðu.