Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Utanríkisráðherra (Jón Baldvin Hannibalsson):
    Virðulegi forseti. Umræðan snýst um þáltill. sem varðar heimild til forkönnunar vegna varaflugvallar. Um það mál hef ég þetta að segja:
    Þetta mál hefur verið á dagskrá hér á hinu háa Alþingi hvað eftir annað. Rækilega hefur verið upplýst af hálfu ráðherra og ráðuneytis um afstöðu ráðherrans og ráðuneytisins til málsins. Ráðuneytið liggur ekki á neinum gögnum í þessu máli. Mér er kunnugt um að óskað hefur verið eftir slíkum gögnum almennt séð en af minni hálfu er því einu til að svara að mér er ekki kunnugt um hvaða gögn það ættu endilega að vera. Eins og allur þingheimur veit og rætt hefur verið hér á hinu háa Alþingi fer fram endurskoðun á langtímaáætlun Mannvirkjasjóðs. Þeirri könnun er ekki lokið, þannig að ekki liggja fyrir nein gögn í utanrrn. sem unnt er að afhenda af þeim sökum vegna þessa máls. Mér er ekki ljóst nákvæmlega eftir hvaða gögnum er verið að slægjast. Ég tel því ekki tilefni til þess að gagnrýna utanrrn. fyrir að liggja á gögnum nema þá sé gerð grein fyrir því nákvæmlega hvaða gögn um er beðið. Mér er ekki kunnugt um það hver þau eru.