Óafgreidd þingmál
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Hreggviður Jónsson:
    Hæstv. forseti. Þó að hér hafi farið fram mikil umræða um þingsköp um fjölda mála og afgreiðslu þeirra, þá dylst mér ekki að auðvitað fer það eftir þeim meiri hluta hverju sinni sem ræður hvort mál eru afgreidd eður ei. Ég geri ekki ráð fyrir því að þau mál sem ég hef lagt fram, hvort sem það eru þáltill. eða lagafrv., séu afgreidd nema fyrir því sé pólitískur meiri hluti þó að ég telji þau mál sem ég hef lagt fram góð. Maður getur því ekki ætlast til þess að öll mál séu afgreidd. Hitt er annað mál, og það vil ég ræða hér, hve lengi það getur dregist að svara fyrirspurnum.
    Ég er hér með fyrirspurn sem er 18. mál þingsins. Henni hefur ekki verið svarað í sex og hálfan mánuð. Það hefur verið beðið í sex og hálfan mánuð eftir svari frá hæstv. hagstofuráðherra. Að vísu er nú kominn annar maður í sæti hæstv. hagstofuráðherra sem hefði kannski getað svarað fyrir þetta. Auk þess er ég með tvær aðrar fyrirspurnir sem hafa beðið í um tvo mánuði og ekki er komið svar við enn þá.
    Ég tel í þessu sambandi að mjög nauðsynlegt sé að ráðherrar svari skjótt og vel því sem er beint til þeirra. Þar að auki hefur þetta orðið til þess að ég hef beðið með að leggja fram frv. til laga um þau málefni sem ég hef spurt um sem byggjast á upplýsingum sem maður þarf að hafa undir höndum til þess að geta unnið mál með þeim hætti að boðlegt sé Alþingi Íslendinga. Þess vegna hlýtur það að vera krafa að fyrirspurnum sé svarað með nokkuð skjótum hætti og maður þurfi ekki að bíða eins og í þessu tilfelli í sex og hálfan mánuð eftir svari.