Ferðamálastefna
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Einar Kr. Guðfinnsson:
    Virðulegur forseti. Hér er til umræðu till. til þál. um ferðamálastefnu sem byggir á gífurlega viðurhlutamiklu verki sem sérstök nefnd hefur unnið að upp á síðkastið og birtist okkur hér í þessum plöggum sem fyrir okkur liggja. Eru þau á allan hátt mjög fróðleg aflestrar og greinargóð, svona sem handbók með upplýsingum um ferðamál almennt á Íslandi til lengri og skemmri tíma litið. Það er ljóst af starfi nefndarinnar að hún hefur leitað mjög víða fanga, aflað sér upplýsinga mjög víða að og kannað þessi mál í víðu samhengi eins og vera ber. Enda er hér um að ræða atvinnugrein sem, enda þótt hún sé ekki mjög gömul, hefur verið vaxandi og er orðin mjög þýðingarmikil bæði í þjóðarbúskap okkar og eins fyrir einstök héruð og sveitarfélög og mun á næstunni, ef allt gengur fram sem horfir, verða enn þá þýðingarmeiri fyrir landið í heild og einstök héruð og sveitarfélög.
    Ég vek athygli á því að það kemur fram í gögnum nefndarinnar að hún mun hafa átt viðræður við eitthvað á annað hundrað manns um þessi mál. Það segir kannski nokkra sögu um það að nefndin hefur af mikilli samviskusemi reynt að leita víða fanga og tekið á þessu máli í víðu samhengi. Enda hygg ég raunar að ferðamálin séu dálítið sérstök að því leyti að þau eru ekki bara venjuleg atvinnugrein, atvinnugrein í vexti, heldur er hér um að ræða grein sem kemur inn á verkefni í byggðamálum og umhverfismálum og fleira sem nefna mætti og fram hefur komið í ræðum fyrri hv. ræðumanna sem hér hafa talað.
    Það er ljóst að ferðamálin eru nú orðin einn af þýðingarmestu þáttum útflutnings okkar. Um það bil 10% af útflutningstekjum af vöru og þjónustu koma frá þessari atvinnugrein. Ef við höfum það í huga að ekki eru nema 40 ár síðan farið var með skipulegum hætti að efna til ferða útlendinga, skipulegra ferða útlendinga til Íslands, þá er auðvitað alveg ljóst að hér er um að ræða ævintýralegan vöxt á mjög skömmum tíma. Það er talið að á síðasta ári hafi um
131 þús. útlendingar gist Ísland og er það ekki lítill árangur þegar litið er til þess sem ég nefndi, að greinin er ung að árum.
    Ég tel sérstaka ástæðu til að leggja á það áherslu að ferðaþjónusta sem atvinnugrein er útflutningsgrein. Hún lýtur þess vegna flestum þeim lögmálum sem útflutningsgreinar okkar lúta, sjávarútvegur eða iðnaður, svo ég taki dæmi, og starfsskilyrði sjávarútvegs og starfsskilyrði iðnaðar eru því með einum eða öðrum hætti líka starfsskilyrði ferðaþjónustunnar. Við skulum minnast þess að þegar litið er til undangenginna ára og viðurkennt það sem allir sjá, að starfsskilyrði útflutningsgreinanna hafa verið ákaflega bágborin, þá liggur í augum uppi að rekstrarskilyrði ferðaþjónustunnar sem atvinnugreinar hafa verið mjög rýr. Með öðrum orðum, þrátt fyrir að mikið hafi verið talað um þýðingu þess að efla ferðaþjónustu, þrátt fyrir að þetta sé nú ekki í fyrsta

skipti sem menn hafa sest niður við það verkefni að reyna að móta ferðamálastefnu, þá hefur það nú einu sinni verið þannig að efnahagslegar aðstæður í okkar þjóðfélagi, verðbólga, viðskiptahalli, hátt vöruverð o.s.frv., allt þetta hefur gert atvinnugreininni sjálfri mjög erfitt um vik. Þess vegna er auðvitað þýðingarlaust að tala um að móta einhverja ferðamálastefnu nema það liggi fyrir af hálfu þeirrar ríkisstjórnar sem situr hverju sinni hver stefna þeirrar stjórnar er gagnvart útflutningsgreinunum í heild sinni. Af þeirri einföldu ástæðu sem ég hef þegar komið inn á, að ferðaþjónustan er í eðli sínu útflutningsgrein.
    Þetta er m.a. rakið í þeim fylgiskjölum sem hér hafa verið til umræðu í sérstökum kafla þar sem fjallað er um raungengisþróunina á síðasta ári og dregið saman á hvern hátt þetta snertir rekstrarskilyrði ferðaþjónustunnar. Ég vil aðeins leyfa mér að víkja að þessum kafla sem er á bls. 35, með leyfi virðulegs forseta. Þar segir svo:
    ,,Þar sem kostnaður ferðaþjónustu er að stórum hluta launakostnaður, þá gefur samanburður á launaþróun hér og í samkeppnislöndunum vísbendingu um þróun samkeppnisstöðu innlendra aðila. Hækki til að mynda laun meira hér á landi en í helstu samkeppnislöndum á ákveðnu tímabili, mælt í sömu mynt, þá hefur samkeppnisstaða hérlendra aðila versnað. Gengisskráning krónunnar er því afar þýðingarmikið atriði. Á þeim tímum þegar gengi krónunnar er haldið föstu og verð á erlendum gjaldmiðlum breytist ekki af okkar völdum, en laun hækka hlutfallslega meira hér en í samkeppnislöndunum, þá er samkeppnisstaða aðila sem flytja út ferðaþjónustu (þ.e. flytja inn ferðamenn) að versna. Krónutöluhækkun launa er meiri hér en í samkeppnislöndunum og róðurinn þyngist því hlutfallslega fyrir innlenda aðila. Þetta á t.d. við um árin 1986--88. Á hinn bóginn batnar staða þessara aðila á tímum þegar gengið breytist umfram muninn á innlendum og erlendum launabreytingum, þ.e. laun í samkeppnislöndunum hækka meira í krónum talið en laun hér á landi. Þróunin á síðasta ári var með þessum hætti.``
    Hér er auðvitað komið að þessu þýðingarmikla atriði sem snertir ferðaþjónustuna, útflutningsgreinina ferðaþjónustu, jafnt og aðrar útflutningsgreinar. Þetta tel ég að sé sérstaklega þýðingarmikið að
undirstrika hér og nú vegna þess að mjög hefur örlað á því í almennum þjóðfélagslegum umræðum að menn hafa ekki viljað hafa skilning á þessu atriði, skilning á því hvílík grundvallarstærð það er fyrir útflutningsgreinarnar hver raungengisþróunin er. Þeir sem tala digurbarkalegast í þessum efnum ættu að hafa það í huga að vilji menn byggja upp þennan vaxtarsprota í íslensku atvinnulífi sem ferðaþjónustan er verða menn a.m.k. að hafa þessa hluti alveg á hreinu. Efnahagsstefna sem ekki hefur þetta að leiðarljósi er þess vegna ekki efnahagsstefna sem getur verið í samræmi við einhverja ferðamálastefnu sem við kunnum að móta á hverjum tíma heldur hið gagnstæða. Þess vegna er allt tal um mótun

ferðamálastefnu sem hégómi einn nema þetta verði haft að leiðarljósi.
    Ferðamálaráð hefur haft þýðingarmiklu hlutverki að gegna og þess vegna er auðvitað nauðsynlegt að vekja á því athygli að á undanförnum árum hefur
tekjustofn þess sem er tekjur af vörusölu Fríhafnarinnar verið gegndarlaust skertur. Það er ástæða til að fagna því að í þessari till. til þál. er sérstaklega um þetta mál fjallað og lögð á það áhersla að þessu verði snúið við. Ég vek athygli á að skerðingin á síðasta ári á mörkuðum tekjustofni Ferðamálaráðs var hvorki meira né minna en 72%.
    Margt er það í þessum tillögum sem segja má að sé óljóst en þó er það alveg deginum ljósara að þessi nefnd, sem hér er að fjalla um ferðamálastefnuna, hefur alveg tekið af öll tvímæli um það að þennan tekjustofn verði Ferðamálaráð að fá að fullu og er það vissulega íhugunar- og umhugsunarefni fyrir stjórnvöld í náinni framtíð.
    Ég verð því miður, virðulegi forseti, að stytta mjög mál mitt, tíminn er búinn, en ástæða hefði verið til að fjalla um þessi mál mun ítarlegar. Ég kaus að fjalla ekki um þetta mál mjög sértækt vegna þess að ég bjóst við, sem raunin varð á, að um þessi mál yrði fjallað ítarlega hér í öðrum ræðum. Ég vildi hins vegar leyfa mér að vekja athygli á hinum eðlilegu tengslum ferðaþjónustunnar sem útflutningsgreinar við aðrar útflutningsgreinar í landinu og það tel ég lykilatriði þegar þessi mál eru rædd.