Frelsi í gjaldeyrismálum
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Með þeirri tillögu sem hér liggur fyrir, en flm. hennar eru allir þingmenn Sjálfstfl., með einum aukamanni að vísu, er vissulega hreyft merku máli, máli sem núv. ríkisstjórn hefur á sinni verkefnaskrá og er staðráðin í að koma vel á veg á kjörtímabilinu. Málið er mikilvægt af því að samkeppnisstaða fyrirtækja ræðst í ríkum mæli af því hversu greiðan aðgang þau eiga að fjármagni og á hvaða kjörum. Og einnig af því að okkar þjóðarbúskapur er í ríkum mæli háður útflutningi, framleiðslu og þjónustu og því verða útflutningsgreinarnar að hafa jafngreiðan aðgang að fjármagni með ekki lakari kjörum en keppinautar þeirra á erlendum markaði. Sama gildir að sjálfsögðu um samkeppnisstöðu innlendra fyrirtækja gagnvart erlendum fyrirtækjum á okkar eigin heimamarkaði.
    Vegna orða hv. 1. flm., 1. þm. Suðurl., vil ég segja að ekki ríkir nein óvissa um það hvert Ísland er að stefna í þessum efnum. En það voru orðin sem hann vakti hér áðan. Ísland stefnir í frjálsræðisátt. Tímasetningar í málinu ráðast hins vegar af ýmsum tímabundnum ástæðum, m.a. gangi samningaviðræðna um Evrópuviðskiptabandalögin sem eru í mótun, eins og þingmönnum er vel kunnugt. Til þess að lýsa stefnu ríkisstjórnarinnar í málinu langar mig að vitna fyrst í málefnasamning ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 28. sept. 1988, en þar sagði að stjórnin mundi vinna að því ,,að búa íslenskt atvinnulíf undir þær breytingar sem verða á viðskiptaháttum og efnahagsstjórn í Evrópubandalaginu á næstu árum. Sérstaklega verði unnið að því að laga íslenskt efnahagslíf að hinum nýju aðstæðum og tryggja viðskiptaaðstöðu íslenskrar atvinnustarfsemi án aðildar að bandalaginu.``
    Ég rifja einnig upp samþykkt ríkisstjórnarinnar frá 6. febr. 1989, en þar sagði m.a., með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ríkisstjórnin mun á næstunni kynna ákveðnar tillögur um samruna lánastofnana hér á landi og áætlun um aðlögun íslenska lánamarkaðarins að breyttum aðstæðum í umheiminum. Í þessu felst m.a. að íslensku atvinnulífi verði tryggð sambærileg aðstaða á fjármagnsmarkaði og er í helstu viðskiptalöndum. Markmiðið er að stuðla að lækkun fjármagnskostnaðar fjölskyldna og fyrirtækja með aukinni samkeppni og hagræðingu í bankakerfinu og nánari tengslum innlends lánamarkaðar við fjármagnsmarkaði í nágrannalöndunum. Heimildir íslenskra fyrirtækja til þess að taka lán erlendis með ríkisábyrgð eða ábyrgð banka og sjóða í eigu ríkisins verði takmarkaðar en hins vegar verði heimildir fyrirtækja til að taka erlend lán á eigin ábyrgð rýmkaðar. Á næstu missirum verða reglur um fjármagnshreyfingar og viðskipti með fjármálaþjónustu milli Íslands og annarra landa mótaðar á grundvelli tillagna norrænu ráðherranefndarinnar um efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992. Ríkisstjórnin leggur áherslu á að búa íslenska bankakerfið undir

þær breytingar sem fylgja munu sameinuðum fjármagnsmarkaði Evrópu, m.a. með því að auka hagkvæmni þess þannig að það geti staðist samkeppni við erlenda banka hvað varðar vaxtamun, tryggingar o.fl. Í framhaldi af því verður m.a. kannað hvort heimila megi viðurkenndum erlendum bönkum starfsemi hér á landi.``
    Og loks, virðulegi forseti, vitna ég, með leyfi forseta, í málefnasamning ríkisstjórnar Steingríms Hermannssonar frá 10. sept. sl. en þar segir:
    ,,Íslenski fjármagnsmarkaðurinn verður aðlagaður breyttum aðstæðum í Evrópu, m.a. með því að rýmka heimildir innlendra aðila til að eiga viðskipti við erlenda banka án ríkisábyrgðar og njóta fjármagnsþjónustu þannig að innlendar lánastofnanir fái aðhald. Markmið þessarar aðlögunar er að lækka fjármagnskostnað fjölskyldna og fyrirtækja, enda verður þess vandlega gætt að ekki skapist óstöðugleiki á innlendum fjármagns- og gjaldeyrismörkuðum.``
    Þetta er skýr lýsing á stefnu í frjálsræðisátt og það er eðlilegt að spurt sé hvað gert hafi verið til að uppfylla þessi fyrirheit.
    Í fyrsta lagi þurfti að styrkja íslenska bankakerfið svo það gæti staðist samkeppni öflugra erlendra banka, sem reyndar hafa þegar stóra markaðshlutdeild hér á landi á tilteknum sviðum í gegnum innlenda milligönguaðila. Þetta vill oft gleymast þegar menn ræða skilyrðin á fjármagnsmarkaðnum. Ég taldi þar forgangsatriði að vinna að sameiningu bankanna í færri og sterkari stofnanir. Eins og kunnugt er náðust í fyrravor samningar um sameiningu fjögurra hlutafélagsbanka í einn öflugan banka sem varð svo að veruleika um síðustu áramót. Þá er nú unnið að sameiningu fimmta hlutafélagsbankans við ríkisbanka og að lokinni þeirri sameiningu hefur bönkunum fækkað úr sjö í þrjá. Það má að vísu segja að með slíkri sameiningu sé nokkuð dregið úr samkeppni bankastofnana og vissulega getur verið hætta á því. Ég minni þó á að bankarnir búa við verulega samkeppni við sparisjóðina, við verðbréfasjóði og ríkissjóð um innlánin. Þess vegna er mjög mikilvægt að aukin erlend samkeppni veiti þeim aðhald varðandi þjónustu og útlán. En átakið er þó aðeins hálfnað. Það er eftir að setja nýja almenna löggjöf um fjárfestingarlánasjóðina sem hér hafa þróast án þess að höfð væri fyrir augum heildarmynd af fjármagnsmarkaðnum.
    Þá kem ég að þeim reglum sem hér gilda um gjaldeyrismál. Frá því ég tók við embætti viðskrh. hef ég tvívegis staðið að rýmkun og einföldun þeirra reglna. Segja má að varast þurfi tvær meginhættur við að gefa gjaldeyrisviðskiptin algerlega frjáls. Það er í fyrsta lagi að varnaraðgerðir séu undirbúnar gegn öflugum skammtímasveiflum í eftirspurn eftir gjaldeyri og í öðru lagi að búa svo um hnúta að frelsið veiti ekki auðveld tækifæri til að draga fé undan skattlagningu. Að hvoru tveggja þurfum við að hyggja og við þurfum e.t.v. að koma okkur upp nýjum stjórntækjum til þess að mæta skammtímasveiflum í gjaldeyriseftirspurn þegar frelsi er komið á og ganga

tryggilega frá því að með því séu ekki opnaðar leiðir til skattundandráttar.
    Eins og áformað er með innri markað Evrópubandalagsríkjanna er nú unnið skipulega að því að afnema höft á fjármagnshreyfingum milli ríkja bandalagsins. Þar er að því stefnt að fullt frelsi sé komið á í meginatriðum um mitt þetta ár. Ég bendi þó á að Spánn, Portúgal, Írland og Grikkland hafa þar viðbótarfresti á ýmsum sviðum. Hjá EFTA-ríkjunum er einnig unnið að afnámi hafta á þessum sviðum og má segja að Sviss, Austurríki og Svíþjóð hafi þegar afnumið þau að langmestu leyti. Finnland kemur þar næst í röð og loks Noregur, en Íslendingar reka lestina, eins og ég held að óhætt sé að segja.
    Ég vil leyfa mér að benda á að ekkert er óeðlilegt við þessa stöðu mála hér. Nágrannaríkin hafa þróaðri fjármagnsmarkað en við, stærra hagkerfi og fjölbreyttara atvinnulíf. Við vinnum nú að skipulegum breytingum á gjaldeyrisreglunum og í viðskrn. og Seðlabanka er unnið að gerð nýrrar reglugerðar um gjaldeyris- og innflutningsmál. Er þar miðað við að gildandi reglur verði stokkaðar upp að öllu leyti, samin ný reglugerð frá grunni og henni skipað í greinar í samræmi við flokkun OECD-ríkjanna á gjaldeyrisviðskiptum. Þá hef ég mælt fyrir um það að í reglugerðinni verði gert ráð fyrir því að þessar reglur breytist í frjálsræðisátt í tímasettum áföngum. Þessir áfangar munu m.a. ráðast, eins og ég nefndi í upphafi máls míns, af viðræðum okkar við Evrópubandalagsríkin í hópi EFTA-ríkja og einir sér. Hér er um mikið og vandasamt verk að ræða sem ég tel að muni þó brátt sjá fyrir endann á.
    Heimild fyrir starfsemi fjármálafyrirtækja frá OECD-ríkjunum, sem líka er nefnd í greinargerð með þáltill., er svo annað mál. Slíkar breytingar, slíkar heimildir er auðvitað ekki unnt að veita nema með lagabreytingum þótt í ályktuninni eða tillögunni virðist gengið út frá öðru. Ég hyggst kynna tillögur um slíkar lagabreytingar á næsta hausti.
    Virðulegi forseti. Ég vona að ég fái umburðarlyndi að ljúka ræðu minni sem tekur fáeinar mínútur enn. Það er von að menn spyrji: Hvers vegna er þessi þáltill. flutt? Ef jafnveigamikil breyting á reglum um gjaldeyrisviðskipti væri bara einfalt pennastrik, hvers vegna framkvæmdu ráðherrar Sjálfstfl., sem ýmsir hafa setið á stóli viðskrh., ekki breytinguna tafarlaust þegar þeir höfðu aðstöðu til þess? Það er von að spurt sé, ekki síst vegna orða hv. 1. þm. Suðurl., 1. flm. þegar hann spyr hvort hugur fylgi máli.
    Nei, mér virðist þessi tillaga e.t.v. flutt af öðru tilefni. Drög að þessari nýju reglugerð um gjaldeyrismál hafa verið til umsagnar hjá nokkrum aðilum og er nú verið að vinna úr þeim umsögnum. Mér þykir ekki ólíklegt að sjálfstæðismenn ýmsir hafi haft af þessu pata og koma nú fram með tillögu til þess að eignast hlut í þeirri breytingu sem fram undan er. Mætti kannski spyrja hvort þeir sjái eftir aðgerðarleysi sínu þegar þeir sátu í ráðherrastól og vilji nú reyna að breiða yfir það. Ég tel þessa þáltill. ekki nauðsynlega þótt hún sé jákvæð. Málið er þarft

en það er í góðum höndum. Það er langeðlilegast að vísa slíkri tillögu til ríkisstjórnarinnar.
    Í síðari hluta tillögunnar er lagt til að ríkisstjórninni verði falið að falla frá sérstökum fyrirvörum sem flm. telja að gerðir hafi verið af Íslands hálfu við efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992. Ég vil leyfa mér að benda á, og vísa til þeirrar samþykktar frá 6. febr. 1989 sem ég las upp áðan og staðfestingu hennar með stefnuyfirlýsingu stjórnarinnar frá 10. sept. 1989, að þá hafi efnislega verið fallið frá þeim fyrirvara. Sú samþykkt fylgir í öllum greinum sömu meginstefnu og efnahagsáætlunin norræna. Mér finnst erfitt að skilja þá áherslu sem flm. leggja á það að hæstv. fjmrh. lét gera fyrirvara við drög að efnahagsáætluninni. Það gerðu reyndar embættismenn hans, enda hafði hann ekki fylgst með gerð hennar í smáatriðum og taldi þörf á nánari athugun á málinu. Mér finnst nú eiginlega réttara að hrósa hæstv. fjmrh. fyrir það að vilja ekki flana að hlutunum á sínum tíma. En það er liðin tíð og málið mikið þróað síðan.
    Efnahagsáætlun Norðurlanda er vissulega hið merkasta plagg, en það sem skiptir okkur mestu máli er að framkvæma breytingar á gildandi reglum án þess að það valdi hér kollsteypu. Þótt við kunnum að vera eitthvað á eftir öðrum Norðurlöndum í tímasetningum, þá munum við ná þeim á endanum, því skjaldbakan kemst þangað líka.
    Í grg. með tillögunni er þess getið að Danir hafi með öllu gefið fjármagnshreyfingar yfir sín landamæri frjáls í október 1988. Ég vil nú minna
á að fjármagnsmarkaður hafði staðið í aldir í því landi áður en nokkur fjármagnsmarkaður varð til hjá okkur sem hægt er að nefna því nafni. Og þótt Kristján konungur IV., á þeim tíma konungur Danmerkur og Íslands, hafi byggt kauphöll fyrir verðbréf í Kaupmannahöfn á sinni tíð erum við enn ekki komnir svo langt í okkar málum.
    Í grg. með tillögunni er líka minnst á hinn almenna fyrirvara okkar með samþykkt OECD um frelsi í fjármagnsflutningum. Það er ábending sem er alveg á sínum stað. Fyrir um það bil ári áttu fulltrúar viðskrn. og Seðlabanka fund með starfsmönnum OECD um þetta efni. Gerðu þeir síðan skýrslu um þau skref sem stíga þarf til þess að fella niður þennan almenna fyrirvara en taka e.t.v. upp fyrirvara um einstök atriði samþykktarinnar í hans stað. Það verður framhald á þeirri vinnu og ég geri ráð fyrir því að starfsmenn viðskrn. muni hitta fulltrúa OECD að máli í vor vegna þess. Okkar niðurstaða er sú að hér sé um alltímafrekt verk að ræða sem ekki sé rétt að skipa framarlega í forgangsröð verkefna meðan á ráðuneytinu hvílir mikið starf vegna yfirstandandi viðræðna fulltrúa EFTA-ríkja og Evrópubandalagsins, m.a. um málefni fjármagnsmarkaðarins. Það er ekkert því til fyrirstöðu að Íslendingar færi sínar gjaldeyrisreglur í frjálsræðisátt framar því sem hinn almenni fyrirvari gefur til kynna og er nægilegt að snúa sér að breytingum á okkar afstöðu í OECD þegar tími gefst til þess og, og það er mikilvægast,

eftir að hafa breytt okkar gjaldeyrisreglum. Þá verður það líka sannarlega gert.