Frelsi í gjaldeyrismálum
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. --- Hæstv. forseti --- vildi ég sagt hafa af gefnu tilefni, a.m.k. af tilefni dagsins og þeirra orða sem hér hafa fallið. Ég tel að sú till. til þál. sem hér er til umræðu sé ein sú merkasta sem við ræðum á þessu yfirstandandi þingi og vil þakka 1. flm., hv. 1. þm. Suðurl., fyrir að hafa haft frumkvæði um það að flytja hana hér inn á þingið. Þessi tillaga byggir á landsfundarályktun Sjálfstfl. og ályktun þingflokks sjálfstæðismanna frá því í fyrrasumar, en báðar þær ályktanir grundvallast á þeirri meginstefnu Sjálfstfl. að færa efnahags- og fjármálalíf þjóðarinnar til þess horfs sem bestan árangur hefur gefið í þeim löndum sem við þekkjum til.
    Fyrri hluti tillögunnar snýr að því að gefa gjaldeyrisviðskiptin frjáls og síðari hlutinn snýr að því að hæstv. ríkisstjórn er falið að falla frá sérstökum fyrirvara sem gerður var af Íslands hálfu við efnahagsáætlun Norðurlanda 1989--1992.
    Það var athyglisvert að hlusta á hæstv. viðskrh. lýsa því yfir hér áðan að hann teldi að þeir fyrirvarar sem þá voru gerðir af hálfu hæstv. fjmrh., og mér er kunnugt um að þeir hafa oft verið notaðir í umræðum á vegum Norðurlandaráðs, til að mynda af hv. 2. þm. Austurl. sem tekið hefur þátt í starfi Norðurlandaráðs og sífellt í umræðum bent á að Íslendingar hafi gert þennan fyrirvara. Þá er verið að vitna til þess fyrirvara sem hæstv. fjmrh. gerði á sínum tíma og hefur ekki fengist til að lýsa yfir að úr gildi sé fallinn. Nú kemur hæstv. viðskrh. og segir að þeir fyrirvarar sem þá voru gerðir séu úreltir og af máli hans mátti skilja að þeir væru ekki í gildi nú. Til þess að skera úr um þetta langar mig til að spyrja hæstv. forsrh., sem hér er staddur: Telur hæstv. forsrh. að þeir fyrirvarar sem hæstv. fjmrh. gerði á sínum tíma séu í gildi eða er það rétt sem mátti skilja af máli hæstv.
viðskrh. að þeir væru úr gildi fallnir? Þetta hefur auðvitað gífurlega þýðingu fyrir áframhaldandi umræðu um þetta mál.
    Fyrir skömmu ritaði hæstv. viðskrh. grein í Morgunblaðið og sagði þar m.a., með leyfi forseta: ,,Því er stundum haldið fram að sérstök lögmál gildi um íslenskt efnahagslíf og reynsla annarra ríkja á mörgum sviðum efnahagsmála eigi ekki við hér á landi. Þetta er hættuleg bábilja. Hér á landi gilda sömu meginreglur og annars staðar.`` Aftur og aftur hefur hæstv. viðskrh. lýst því yfir að hann telji að Íslendingar eigi að feta sömu braut og aðrar lýðræðisþjóðir hafa gert á vesturhveli jarðar, ekki síst í Vestur-Evrópu að undanförnu. Samt sem áður virðist verða minna úr framkvæmdum en ætla mætti ef skoðanir hæstv. ráðherra fengju að ráða. Þetta kemur mjög skýrt fram í því viðtali sem hv. 1. þm. Suðurl. gerði hér að umtalsefni, bæði er varðar sjónarmið fyrrv. aðstoðarmanns ráðherra gagnvart samstarfsmönnum hans í núv. hæstv. ríkisstjórn og ekki síður þegar fyrrv. aðstoðarmaður hæstv. ráðherra lýsir því yfir að um langan tíma hafi legið í

ráðuneytinu tilbúin reglugerðardrög sem einfalt væri að skrifa undir og setja í gildi og full ástæða væri til í þessum málum að eiga samstarf við aðra aðila en þá sem hæstv. ráðherra á nú í formlegu stjórnarsamstarfi við. Þessi sjónarmið hæstv. ráðherra sem aftur og aftur birtast í orðum hans eru góðra gjalda verð en sú tillaga sem hér er flutt er flutt vegna þess að ýmsum þykir að nokkuð skorti á að þeim sé fylgt eftir.
    Mig langar, hæstv. forseti, í framhaldi af þessu að spyrja hæstv. ráðherra að örfáum atriðum sem snerta íslenska bankakerfið. Hæstv. ráðherra hefur margoft sagt að hann hafi unnið stórkostlegt starf til þess að undirbúa bankakerfið undir það frelsi sem við megum eiga von á næstunni. Hann hefur haldið því fram að hann hafi nánast gert kraftaverk í þeim efnum. Síðan hefur hann lýst sínum skoðunum. Þar á meðal hefur hann sagt að hann telji að breyta ætti ríkisviðskiptabönkunum í hlutafélög. Hann hefur tækifæri til að vinna að því á yfirstandandi þingi. Um það hefur verið flutt frv. En það er annað sem mig langar til þess að víkja að og það er það að hinn 1. febr., ef ég man rétt eða síðustu daga janúarmánaðar, var skipuð nefnd, samstarfsnefnd viðskrn. og bankanna. Sú nefnd átti að skila áliti í lok febrúarmánaðar, en skilaði áfangaskýrslu í síðari hluta marsmánaðar. Þar voru gerðar ýmsar tillögur um það hvernig breyta ætti starfsemi íslenska bankakerfisins til þess að undirbúa það undir frekari samkeppni en ekki síður til þess að koma í veg fyrir slæmar afleiðingar þess að vaxtamunur hefur minnkað á undanförnum missirum, og einkum og sér í lagi undanförnum vikum og mánuðum, eftir að bankarnir samþykktu, að tilmælum aðila vinnumarkaðarins, að lækka vextina verulega vegna þeirra samninga sem gerðir voru að tilhlutan aðila vinnumarkaðarins. Í niðurstöðum þessa hóps er m.a. fjallað um skatta vegna gjaldeyrisviðskipta, þar er fjallað um breytingar á bindiskyldureglum, þar er fjallað um breytingar vegna afskriftareiknings útlána, lífeyrisskuldbindingar og fleira í þeim dúr, en öll þessi atriði mundu hafa veruleg áhrif til þess að styrkja bankakerfið og undirbúa það betur undir það að fást við þá auknu samkeppni sem búast má við á næstunni. Mig langar til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort búast megi við
niðurstöðu á næstunni í þessu máli, en það skiptir bankakerfið verulega miklu máli.
    Ég ætla ekki, hæstv. forseti, að fara mörgum fleiri orðum um þetta. Tíminn er reyndar runninn út en ég óska eftir því að viðkomandi hæstv. ráðherrar fái tækifæri til að taka til máls nú í dag og svara þeim fyrirspurnum sem til þeirra hefur verið beint.