Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Þegar málið var hér til 2. umr. óskaði ég eftir því að hæstv. fjmrh. yrði viðstaddur umræðuna af þeim sökum að ég hafði gert fyrirspurn um það hvað liði tillögum um húsaleigubætur og leigumiðlanir. Á þeim tíma sem sú umræða stóð yfir var það sagt hér að hæstv. fjmrh. væri í ræðustól og gerði ég ekki athugasemdir við það. Ég þykist vita að hæstv. félmrh. hafi kynnt sér hvernig það mál stæði hjá fjmrh. í dag úr því að hæstv. fjmrh. er hér ekki viðlátinn og geti gefið upplýsingar um þá fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. félmrh. sl. laugardag. Þá kom fram hjá hæstv. félmrh. að þetta mál væri hýst í fjmrn. Jafnframt lét hæstv. félmrh. þess getið að það hefði farið eins fyrir þessum tillögum um húsaleigubæturnar í félmrn. og Celiu í New York, að tillögurnar hafi horfið út í veður og vind. Nú geri ég að sjálfsögðu ekki athugasemdir við það þó hæstv. fjmrh. sé ekki viðlátinn þar sem ég þykist vita að hæstv. félmrh. hafi aflað þeirra upplýsinga sem ég bað um hér þegar málið var til 2. umr. Ég vildi ítreka þá fyrirspurn sem ég beindi til hæstv. ráðherra um það hvernig þetta mál stæði og hvaða hugmyndir væru uppi hjá stjórnarmeirihlutanum eða ríkisstjórninni um það hvernig húsaleigubótum og leigumiðlunum yrði fyrir komið.
    Ég vil í annan stað rifja upp að ég bar fram fyrirspurn til hæstv. félmrh. um það hvort hann hefði áhyggjur af fjárhagslegri stöðu Byggingarsjóðs
ríkisins og Byggingarsjóðs verkamanna. Í ræðu sinni gerði hæstv. félmrh. ítarlega grein fyrir sjónarmiðum sínum varðandi Byggingarsjóð ríkisins en vék hins vegar ekki að fjárhagsstöðu Byggingarsjóðs verkamanna né þeim áætlunum sem ríkisstjórnin hefur gert um fjárhagsafkomu þess sjóðs með hliðsjón af þeim tillögum og því frv. sem hér liggur fyrir.
    Af þessum sökum vil ég ítreka fyrirspurn mína varðandi húsaleigubætur og leigumiðlanir. En ég hlýt, herra forseti, ef í ljós kemur að hæstv. félmrh. hefur af einhverjum ókunnum ástæðum ekki unnist tími til að setja sig inn í málið, að fara fram á það að umræðunni verði frestað til morguns, ella verði hæstv. fjmrh. kvaddur hingað á fundinn til að svara þeirri eðlilegu fyrirspurn sem ég bar fram við 2. umr. málsins. Ég geri að sjálfsögðu ekki athugasemd við það að málið verði tekið út af dagskrá um hríð á meðan hæstv. fjmrh. væri á leiðinni hingað niður eftir til að svara eðlilegri fyrirspurn til þess að upplýsa frekar það mál sem hér liggur fyrir og til þess að gefa fyllri mynd af því hvernig ríkisstjórnin hyggst hrinda í framkvæmd þeim sameiginlegu tillögum sem ástæða hefur þótt til að tíunda lauslega í athugasemdum við þetta lagafrv.
    Ég vil jafnframt láta í ljós þá skoðun að sumt í þessu frv. er þannig orðað að síðar meir verður óhjákvæmilegt að kveða nánar á um einstök atriði og í sumum tilvikum falla úr gildi ákvæði sem hér eru. En auðvitað standa ekki efni til að koma slíkum leiðréttingum og nauðsynlegum lagfæringum á frv.

fram á meðan við sitjum uppi með þá ríkisstjórn sem nú er sem hefur ekki markmið né tilgang með sinni setu, heldur hugsar um það eitt að sitja og þruma í sínum stólum.