Húsnæðisstofnun ríkisins
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég gat um það við 2. umr. þessa máls að það sem hv. 2. þm. Norðurl. e. spurði um þá, sem voru húsaleigubætur, væri ekki inni í því frv. sem við höfum hér til umræðu. Einungis var um að ræða að þetta var hluti af öðrum tillögum sem nefndin, sem samdi frv., sendi frá sér og lagði til mín í skýrsluformi ásamt því frv. sem hér er til umræðu. Skýrslu nefndarinnar um félagslega húsnæðiskerfið var dreift hér til allra þingmanna þegar málið var fyrst lagt fram á Alþingi þar sem m.a. koma fram hugmyndir nefndarinnar um tilhögun á húsaleigubótum og húsaleigumiðlun. Við 1. umr. málsins benti ég hv. þm. á skýrsluna þar sem þessar tillögur er að finna. Þar er mjög ítarlega rakið hvernig húsnæðisbótum er háttað á Norðurlöndum og þar koma einnig fram hugmyndir nefndarinnar um húsaleigubætur sem voru kynntar í ríkisstjórninni á sínum tíma þegar frv. var þar lagt fram. Ég tel rétt að lesa hér tillögurnar sem koma fram frá nefndinni sem eru hennar hugmyndir um húsaleigubætur en í skýrslunni segir svo orðrétt, með leyfi forseta:
    ,,Nefndin leggur til að komið verði á sérstökum húsaleigubótum til kostnaðarlækkunar á leigukostnaði hjá tekjulágum leigjendum. Bæturnar verði greiddar á þriggja mánaða fresti á grundvelli umsókna. Til grundvallar ákvörðunar um húsaleigubætur verði upplýsingar um tekjur, fjölskyldustærð og húsaleigu, samkvæmt staðfestum leigusamningi. Bæturnar falla niður nái þær aðeins 10% húsaleigunnar og miðast við ákveðið mark. Húsaleigubætur reiknast út frá 80% leigunnar en 20% eru sjálfsábyrgð leigjenda. Einnig skal miðað við leiguíbúðir sem eru 130 fermetrar eða minni. Fjmrn. sjái um útreikning húsaleigubótanna í samvinnu við félmrn. og Húsnæðisstofnun ríkisins. Fjmrn. annast greiðslu bótanna.
    Markmiðið með húsaleigubótum er fyrst og fremst að jafna aðstöðu leigjenda og annarra þjóðfélagsþegna. Þeim er einnig ætlað að auðvelda þeim að leigja
sem það kjósa og gera leiguíbúðir vænlegan kost. Þeim er ætlað að koma þeim til góða sem á þurfa að halda, sem nú njóta lítillar sem engrar fyrirgreiðslu í húsnæðismálum. Tilgangurinn er einnig að beina þeim, sem ráða ekki við húsnæðiskaup, inn í leiguíbúðir og gera þeim kleift að leigja. Nefndin leggur til að húsaleigubæturnar verði tekjutengdar, hafi ákveðið hámark og miðist við fjölskyldustærð. Einhleypingar eiga einnig rétt á húsaleigubótum uppfylli þeir sett skilyrði. Nefndin telur eðlilegt að hafa hliðsjón af fyrirkomulagi vaxtabóta sem tekið verður upp á næsta ári. Eðli málsins samkvæmt má miða hámarksfjárhæðir húsaleigubótanna við samsvarandi hámark vaxtabóta. Þannig yrðu húsaleigubæturnar ávallt bundnar ákveðnu hámarki sem fylgir breytingum á lánskjaravísitölu hverju sinni. Ef höfð er hliðsjón af hámarki vaxtabóta yrðu hámarksbætur, miðað við verðlag í desember 1989, sem hér segir: 107 þús. fyrir einstaklinga, 140 þús. fyrir einstætt foreldri og 170 þús. fyrir hjón. Nefndin leggur til að bæturnar verði einnig bundnar

við að leiguíbúðir séu innan ákveðinna stærðarmarka, 130 fermetrar. Tekjutenging húsaleigubótanna gæti tekið mið af tekjumörkum sem giltu um rétt manna til að kaupa félagslega íbúð í kaupleigu- eða verkamannabústaðakerfinu. Þeir leigjendur sem eru innan tekju- og stærðarmarka fengju þannig hámarkshúsaleigubætur en bæturnar minnki síðan með hækkandi launum.``
    Ég hef hér lýst hugmyndum nefndarinnar sem nokkuð fjallaði um þetta mál. Þessar tillögur voru lagðar fyrir ríkisstjórnina jafnhliða því frv. sem hér er til umræðu. Þar var fallist á mína tillögu, að vísa þessu til frekari umfjöllunar í fjmrn. og að við úrvinnslu fjmrn. í þessu máli yrði höfð hliðsjón af þeim tillögum sem hér eru lagðar fram. Væntanlega verður, eins og ég sagði í máli mínu við 2. umr., frv. lagt fram um það á næsta þingi.