Raforkuver
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Það frv. sem við nú ræðum er flutt til þess að greiða fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar í landinu. Því ber að fagna þessu frv. og fagna því að það er komið fram og að ástæða skuli vera til þess að leggja það fram nú.
    Þetta frv. leggur til, eins og hæstv. iðnrh. tók fram, í fyrsta lagi að í lög nr. 60/1981, um raforkuver, verði bætt heimildum fyrir tvær virkjanir, þ.e. stækkun Búrfellsvirkjunar í um 300 mw. og stækkun Kröfluvirkjunar í allt að 60 mw. Í öðru lagi leggur frv. til að sérstök heimild verði veitt til að reisa og reka jarðgufuvirkjun til raforkuframleiðslu að Nesjavöllum með allt að 38 mw. afli. Og í þriðja lagi er lagt til að 2. gr. laga nr. 60/1981, um raforkuver, verði umorðuð í heild. Í stað þess að Alþingi ákveði röð einstakra framkvæmda með þingsályktun er lagt til að framkvæmdarvaldinu verði settar almennar reglur um röð framkvæmda sem ráðist af væntanlegri orkunýtingu.
    Þetta eru meginatriði frv. og hæstv. ráðherra hefur lýst þeim ítarlega. Ég ætla mér ekki að fjölyrða frekar um meginatriði þessa frv. né heldur ætla ég að ræða sérstaklega um forsendurnar fyrir því, þ.e. byggingu nýs álvers, en hæstv. ráðherra skýrði skilmerkilega þau atriði í ræðu sinni áðan. Ég mun eiga þess kost í iðnn. sem fær málið til umfjöllunar að athuga málið í heild af gaumgæfni eins og ég veit að nefndin mun gera því hér er um slíkt mál að ræða að það þarf ítarlegrar athugunar við.
    En við 1. umr. vildi ég aðeins minnast á nokkur atriði í frv. sjálfu. Er þá fyrst til að taka 3. gr. frv. Þar er gert ráð fyrir að Alþingi ákveði ekki röð einstakra framkvæmda í virkjunarmálum eins og verið hefur, heldur verði það vald fært í hendur framkvæmdarvaldinu. Hér er um atriði að ræða sem við getum ekki látið fara fram hjá okkur því að það er mjög þýðingarmikið. Það er
pólitísk ákvörðun hver röð virkjunarframkvæmda verður. Ég held að Alþingi þurfi mjög að athuga þetta áður en það samþykkir að láta af hendi það vald sem felst í röðun virkjunarframkvæmda, láta það í hendur framkvæmdarvaldinu eða iðnrh. á hverjum tíma.
    Auk þess er það um 3. gr. að segja að mér þykir orðalagið nokkuð ófullkomið. Það segir í greininni, og það kemur eiginlega eins og skollinn úr sauðarleggnum: ,,Áður en iðnaðarráðherra ákveður röð framkvæmda skulu liggja fyrir greinargerðir frá Landsvirkjun`` o.s.frv. Áður en iðnaðarráðherra ákveður röð framkvæmda. En það segir ekkert í greininni að iðnrh. eigi að ráða röð framkvæmda. Þetta er annað orðalag og óeðlilegt ef við berum þetta saman við ákvæði gildandi laga, þ.e. í 2. gr. laga um raforkuver nr. 60/1981. Þar er farið öðruvísi að. Þar er sagt beint hver hefur þetta vald. Þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Tillögur um framkvæmdir við nýjar vatnsaflsvirkjanir og virkjunaráfanga, þar á meðal um framkvæmdaröð, skulu lagðar fyrir Alþingi til

samþykktar.`` Hér er gengið beint til verks og tekið skýrt fram hvar þetta vald liggur, en það er ekkert ákvæði um það að eftir að Alþingi hafi ákveðið þetta skuli annað koma á eftir. Ég vek athygli á þessu.
    Í þriðja lagi vek ég athygli á, í sambandi við 3. gr. frv. um þetta atriði sem ég var að ræða, að í ákvæðum til bráðabirgða nr. I er gert ráð fyrir að Alþingi samþykki röð virkjunarframkvæmda eins og þar segir. Ef útfærð væri hugsunin um að Alþingi afsali sér þessu valdi í hendur framkvæmdarvaldsins virðist manni að það hefði legið næst að stíga skrefið til fulls og gera ráð fyrir því að ráðherra hefði þetta vald um þær framkvæmdir sem bráðabirgðaákvæðið fjallar um. Ég bendi á þetta ósamræmi. En ég er ekki að deila á þetta bráðabirgðaákvæði því að í raun og sannleika tel ég að það eigi að standa. En hins vegar er eðlilegt a.m.k. að við tökum til gaumgæfilegrar athugunar hvort ekki eigi að breyta 3. gr. frv. í þá veru að það verði Alþingi sjálft sem ákveður röð framkvæmda en ekki ráðherra.
    Ég vil aðeins með örfáum orðum víkja að 4. gr. Það er kannski ekki stórvægilegt en ég kann ekki við það orðalag sem þar er að finna. Þar er talað um stækkaða Búrfellsvirkjun, stækkaða Hrauneyjafossvirkjun og stækkaða Sigölduvirkjun, stækkaða Búrfellsvirkjun með allt að 310 mw. afli og stækkaða Hrauneyjafossvirkjun með allt að 280 mw. afli, stækkaða Sigölduvirkjun með allt að 200 mw. afli. Mér sýnist að það þurfi ekki að setja þetta ,,stækkaða`` því að það gefur auga leið að það er um stækkaða virkjun að ræða. Búrfellsvirkjun á að stækka úr 210 mw. í 310, Hrauneyjafossvirkjun úr 210 í 280 og Sigölduvirkjun úr 150 í 200 og Kröfluvirkjun úr 30 í 60. Við getum hugsað okkur, ef ætti að stækka þessar virkjanir enn þá meira, að þá ætti í næstu löggjöf að standa: Stækkuð stækkuð Búrfellsvirkjun eða enn stækkuð Búrfellsvirkjun. Þetta er gjörsamlega óþarfi því að það segir allt
þegar talað er um að virkjunin sé allt að ákveðnu mw. afli. Ég sagði að þetta væri ekki mikið atriði. En það er formsatriði. Ég nefni þetta hér af því að ég rak augun í þetta við fyrsta yfirlestur frv.
    Þá er það um 2. gr. frv. að þar er iðnrh. heimilt að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til þess að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum með allt að 38 mw. afli eins og þar stendur. Ég er ekki að setja út á þetta og tel raunar sjálfsagt að veitt sé heimild til að reisa þessa virkjun. Það orkar ekki tvímælis að það er nauðsynleg og þörf framkvæmd. En þetta ákvæði vekur til umhugsunar um það að það skuli þurfa samkvæmt núgildandi lögum sérstaka heimild Alþingis til þess að reisa og reka orkuver næstum því hvað lítil sem þau eru. Ég held að þetta sé óeðlilegt og það sé spurning hvort einmitt þetta ástand hafi ekki dregið úr þeirri þróun sem er eðlileg, að jafnframt stórvirkjunum sé lögð áhersla á smávirkjanir eftir því sem aðilar finnast til þess að stofna og reka slík fyrirtæki ef rekstrargrundvöllur er fyrir hendi.
    Í þessu sambandi er rétt að vitna til þess sem segir

í orkulögum um þetta atriði til þess að sýna fram á hvað þetta ástand er í raun og veru óeðlilegt. Í 7. gr. orkulaga segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Til að reisa og reka raforkuver stærra en 2000 kílówatta þarf leyfi Alþingis. Til þess að reisa og reka raforkuver, 200--2000 kílówatta, þarf leyfi ráðherra orkumála.``
    Ég vek athygli á því og beini því til hæstv. ráðherra að fullkomin ástæða er til og raunar nauðsynlegt að breyta þessum ákvæðum. Og fyrst í þessu frv. sem við nú ræðum er verið að leita sérstakra heimilda til að reisa smávirkjun er spurningin hvort ekki hefði farið eins vel á því að gera tillögu í þessu frv. um breytingu á orkulögunum eins og um breytingu á hinum lögunum sem hér er um að ræða samkvæmt frv. Ég vil þó taka fram að það er auðvitað matsatriði hvar á að setja stærðarmörkin á virkjunum sem ekki þurfi að leita heimildar Alþingis til og ég vil ekki fullyrða það hér að þessi virkjun á Nesjavöllum sé innan þeirra takmarkana sem eðlilegt væri að miða við í þessu efni. Ég vek athygli á þessu atriði af því tilefni að hér í frv. er ekki einungis leitað heimilda til að reisa stórvirkjanir heldur þessa Nesjavallavirkjun, af þessari stærðargráðu sem tilgreind er.
    Ég sagði áðan að ég ætlaði ekki núna að ræða ítarlega og almennt um forsendurnar fyrir frv., um undirbúning að byggingu álvers eða önnur þau mikilvægu atriði sem hæstv. ráðherra vék hér að í sinni ræðu, en til þess mun gefast tækifæri síðar.