Raforkuver
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Það hafa lengi verið uppi skiptar skoðanir meðal Íslendinga um virkjun þeirra fallvatna sem eru hér á landi, ekki bara hvort ætti að beisla þau heldur líka hvernig og hver þeirra ætti að virkja. Um þessi mál hafa oft orðið deilur vegna sterkra og ólíkra skoðana. Deilurnar hafa staðið um það hvernig væri skynsamlegast og hagkvæmast að nýta þá orku sem beislanleg er og hvernig bæri að koma henni í verð og menn hafa sannarlega ekki verið á eitt sáttir um það hvort veita ætti erlendum aðilum aðgang að náttúruauðlindum og efnahagslífi Íslendinga eða hvort Íslendingar hefðu sjálfir bolmagn til að reka orkufrekan iðnað eða stóriðju til að nýta sér raforku í stórum stíl. Þó að stjórnmálaflokkar hafi sumir tekið afdráttarlausa stefnu í þessum efnum fer því fjarri að skoðanir almennings á þessum málum fari endilega eftir öðrum stjórnmálaskoðunum manna.
    Meginröksemd þeirra sem helst vilja virkja hefur verið sú að við yrðum að koma orku landsins í verð, okkur sé nauðsynlegt að nýta alla þá orku sem sífellt streymir óbeisluð til sjávar í fallvötnum landsins. Þá minni ég á það að sums staðar, t.d. í Noregi, er talað um lifandi vatn, og lifandi vatn fyrir þá sem ekki skilja er t.d. foss sem fellur fram af fjallsbrún óskertur og frjáls og hefur aldrei í pípu, stokk eða skurð komið. Ísland er einmitt auðugt af lifandi vatni og við skulum ekki gleyma því að það er afar dýrmæt eign, jafnvel þó að það sé ekki beislað. Við höfum einnig nýlega komist að því að Vatnajökull er talsvert miklu stærri en menn héldu þannig að við eigum talsverðan forða eftir til þess að nýta okkur þó síðar verði.
    Við skulum heldur ekki gleyma því þegar við tölum um beislanlegar eða nýtanlegar orkulindir að vindurinn æðir óbeislaður um loftið og hvergi hraðar eða meir á byggðu bóli en einmitt hér á Íslandi. Hann er sannarlega virkjanlegur. Sama má segja um sjávarföllin. Víða erlendis hefur sólin verið
nýtt til sömu hluta. En það er einnig annað sem við megum heldur ekki gleyma og það er að það er dýrt að nýta alla þessa orkugjafa. Það kostar afar mikið fé. Þess vegna getur það verið matsatriði hvort það borgar sig fyrir okkur Íslendinga að nýta fallvötnin einmitt á þann hátt að selja frá þeim raforku til stóriðju. Það er ekkert sjálfgefið að það sé hagkvæmt í raun og veru og hagkvæmast fyrir okkur þegar til lengri tíma er litið og það er undarlegt að þegar Íslendingar hafa beislað vatnsorkuna einmitt til þess að bjóða hana til sölu skuli þeir almennt hafa fengið fyrir hana verð sem hefur reynst vera talsvert undir því verði sem kostar að framleiða hana. Það geta ekki virst hagkvæm viðskipti.
    Mig langar að minna hv. þm. á það að upp úr 1960 þótti ýmsum að nú lægi Íslendingum mikið á og þeir þyrftu að hafa hraðan á ef tryggja ætti sölu á raforku úr fallvötnum landsins þar sem kjarnorkan yrði lausnarorð framtíðarinnar og hún mundi verða mun ódýrari en vatnsorka. Þess vegna var, þrátt fyrir mjög skiptar skoðanir manna og mikil átök, hygg ég,

hér á Alþingi, hrapað að því að gera orkusölusamning við fjölþjóðafyrirtækið Alusuisse árið 1966 einmitt til þess að missa nú ekki af lestinni eins og menn héldu að þeir væru að gera. Þetta óðagot, sem er auðvelt fyrir okkur að líta til baka og sjá, er e.t.v. skiljanlegt, mjög skiljanlegt, í ljósi þeirra aðstæðna sem þá ríktu. En það hefur síðan leitt til þess að við erum í raun enn að súpa seyðið af þeim samningum sem þá voru gerðir og það er svo komið nú að rúmur helmingur allra erlendra skulda okkar stafar af stórvirkjanaframkvæmdum, vegna stóriðju. Og ég vil minna hv. þm. á að sú kjarnorka sem menn trúðu að mundi leysa vandann hefur reynst bjóða meiri vanda heim en menn grunaði og nú eru uppi afar skiptar skoðanir um öryggi kjarnorkuvera. Við höfum síðan 1966 upplifað óhappið eða slysið í Tsjernóbíl. Í tengslum við það fréttum við af ýmsum öðrum hættulegum slysum sem orðið hafa í öðrum kjarnorkuverum og það er e.t.v. bara spurning um tíma hve lengi menn una við orkugjafa sem getur reynst jafnhættulegur. Þess vegna varpa ég fram spurningu til hæstv. iðnrh. því að hann hlýtur að hafa velt þessum málum mikið fyrir sér og örugglega vill hann ekki hrapa að því að virkja fallvötnin til hefðbundinnar stóriðju sem slæm reynsla hefur gefist af hér á landi ef hann eygir einhverja aðra möguleika sem eru vænlegri fyrir Íslendinga, jafnvel þegar til lengri tíma er litið.
    Hér var í eina tíð minnst á að hægt væri að virkja vatnsföll Íslendinga og framleiða úr þeim raforku til þess að flytja út, ekki endilega til að nýta hér á landi. Menn höfðu ævintýralega drauma um sæstreng sem gæti legið frá Íslandi og þannig gætum við flutt út raforku til annarra þjóða sem vantaði orkugjafa. Ég veit að þessar hugmyndir þóttu mjög ævintýralegar þegar þeim var fyrst hreyft, en mig langar að spyrja hæstv. iðnrh.: Hefur hann hugað eitthvað frekar að þessum kostum, hversu raunhæfir þeir eru nú? Og hefur hann unnið eitthvað frekar að þessum málum því að hann hlýtur einmitt að vera að hugsa til framtíðar líka.
    Ég ætla ekki að rekja nánar reynsluna af viðskiptum okkar við Alusuisse. Það hefur verið gert oft hér á Alþingi þegar þau mál hafa komið sérstaklega til
umræðu, en ég minni menn á að Íslendingar hafa staðið klofnir og tvístraðir í viðskiptum sínum við þennan fjölþjóðarisa. Þetta hefur fyrirtækið að sjálfsögðu nýtt sér til að leita styrks fyrir sjálft sig í samningum og það hefur orðið Íslendingum til mikils tjóns í fyrsta lagi að hafa lent í viðskiptum við fyrirtækið og síðan að hafa ekki borið gæfu til að standa saman um þau mál en gefið erlendum aðilum aðstöðu til að deila og drottna því að hér er auðvitað um mjög mikilvæga sameiginlega hagsmuni allra landsmanna að ræða.
    Sá skoðanaágreiningur sem hefur ríkt í stóriðjumálunum meðal þjóðarinnar á sér fulltrúa á Alþingi, en segja má að þar finnist í raun þrjár meginstefnur.

    Í fyrsta lagi er sú stefna sem hæstv. núv. iðnrh. túlkar og felst í því að byggja hér upp stóriðju með meiri hluta eða algerri eignaraðild erlendra aðila. Sú stefna hefur reyndar leitt til þess að íslenskt vatns- og vinnuafl hefur verið selt allt of lágu verði, sumir mundu vilja segja útsöluverði, úr landi og má segja að þar fari sjálfstæði þjóðarinnar fyrir lítið. En dæmi um slíkan rekstur hefur einmitt verið álbræðslan í Straumsvík.
    Í öðru lagi er sú stefna sem hv. þm. Alþb. hafa fylgt hingað til og felur í sér að hér skuli reka stóriðju en með meirihlutaeignaraðild Íslendinga. Það hefur reyndar sýnt sig að Íslendingar hafa ekki haft fjárhagslegt bolmagn til að standa undir slíkum fyrirtækjum sjálfir né höfum við fengið við nokkuð ráðið á þeim markaði þar sem stóriðjuframleiðsla er seld. Og nú virðast alþýðubandalagsmenn vera horfnir frá þessari stefnu, hafa skipt um og eru gengnir stefnu hæstv. iðnrh. á hönd.
    Í þriðja lagi er svo sú stefna sem kvennalistakonur hafa fylgt og felur í sér virkjanastefnu, því að við erum sannarlega fylgjandi því að virkja íslensk fallvötn í hófi, virkjanastefnu sem miðar að eigin þörfum Íslendinga og hafnar frekari stóriðju, bæði reyndar innlendri og erlendri. Ástæðurnar fyrir því að við höfum hafnað stóriðju hafa verið eftirfarandi og þær hafa í raun ekki breyst.
    Við höfum ekki viljað frekari stóriðju hér á landi vegna þess að hún hefur í raun þýtt aukin fjárhagsleg ítök erlendra aðila hér á landi, en slíkt getur haft alvarlegar afleiðingar fyrir efnahagslegt sjálfstæði þjóðarinnar. Stóriðja hefur nær alla tíð verið rekin hér með bókfærðu tapi þannig að erfitt er að sjá fjárhagslegan ávinning af slíkum atvinnurekstri. Stóriðja getur verið mengandi og náttúruspillandi og henni fylgir bæði byggðaleg og félagsleg röskun. Þessar ástæður eru þeim mun alvarlegri þar sem Íslendingar eru fámenn þjóð sem býr í viðkvæmu landi.
    Mig langar að ræða örlítið um mengunarhættuna því að það hefur komið fram ekki alls fyrir löngu hjá Hollustuvernd ríkisins að flúoríð- og rykmengun í útblásturslofti frá verksmiðjunni hefur mælst óviðunandi. Þessu hafa menn reynt að kippa í lag. Síðan höfum við mengun sem er öllu hættulegri og hefur reynst mun erfiðari viðureignar, og á hana minntist reyndar hæstv. iðnrh., en það er mengunin af brennisteinstvíildi. Það hefur verið álitið að hlutur álversins í þeirri brennisteinstvíildismengun sem finnst hér á landi sé u.þ.b. 25%. Mengun af þessu efni er verulegt vandamál í iðnríkjum víða um heim, og þetta er einn af drýgstu þáttunum til myndunar á súru regni sem þegar hefur valdið óheyrilegum skemmdum bæði á gróðri og lífríki víða í Evrópu eins og sést af skógum og líflausum vötnum.
    Þegar iðnaðarnefndir beggja þingdeilda fóru í heimsókn til Álversins ekki alls fyrir löngu áttum við einmitt viðræður við forsvarsmenn verksmiðjunnar sem eru enn að reyna að glíma við þennan vanda. Það þýðir ekki fyrir okkur

að ætla að okkur sé óhætt að hleypa þessu efni út í þetta síkvika andrúmsloft sem hér ríkir. Það er líka vandi að hleypa því út í hafið því að það er mengandi í báðum tilvikum. Þó að sagt sé að jarðvegurinn á Íslandi sé basískur og mætti sums staðar súrna ( Gripið fram í: Og vatnið, hið lifandi vatn.), hið lifandi vatn, já. Það er þó ekki þar með sagt að það sé tilbúið til að gleypa við meiri mengun en okkur hefur nú þegar tekist að koma í það. Og ég minni hæstv. iðnrh. og aðra hv. þm. á þá miklu mengun sem er í kringum landið okkar nú og við höfum ekki getað sinnt svo sæmilegt sé.
    Ég minni einnig á aðrar nýlegar tölur sem benda til þess að mengun hér á landi sé mun meiri en okkur grunar. Ég vil spyrja hæstv. iðnrh. hvaða ráðstafanir hafi í raun verið gerðar og hvaða kröfur hafi í raun verið gerðar um mengunarvarnir í því álveri sem hann langar til eða hefur í hyggju að reisa hér á landi.
    Ég ætla ekki að víkja fleiri orðum að mengunarmálunum. Þó vil ég benda mönnum á að ýmsar rannsóknir benda til þess að heilahrörnun hjá mönnum, sem verður á síðari hluta ævinnar, geti stafað að sumu leyti til af mengun með áli, t.d. í drykkjarvatni. Ellihrörnun virðist fara vaxandi meðal vestrænna þjóða. Nýlega urðu mjög harðar umræður í Bretlandi þegar það kom í ljós að neysluvatn í stórum hlutum landsins, sérstaklega á Lundúnasvæðinu öllu, var ótrúlega mikið mengað, m.a. af aluminíum sem a.m.k. í tilraunadýrum er vitað að veldur heilahrörnun.
    Eins og þetta frv. gefur glögglega til kynna fylgja auknar virkjunarframkvæmdir aukinni stóriðju, en vegna stóriðjusjónarmiðanna hefur einmitt hingað til verið farið allt of hratt í slíkar framkvæmdir eins og erlendar skuldir okkar sanna. Hæstv. ráðherra vék einmitt að skuldastöðunni sem hefur verið nokkuð ískyggileg. Hér segir í grein í DV frá því fyrr á þessu ári sem mig langar að vitna í, með leyfi forseta:
    ,,Ef skuldasöfnun íslensku þjóðarinnar heldur áfram til aldamóta með sama hraða og undanfarin 10 ár má búast við að erlendar skuldir verði orðnar um 86% af landsframleiðslu árið 2000. Þar með væru Íslendingar komnir í hóp allra skuldugustu þjóða í heimi. Þeir yrðu skuldugastir þeirra sem nú eru flokkaðir með iðnríkjum. Í fyrra voru erlendar skuldir rétt tæp 50% af landsframleiðslu. Þetta hlutfall hafði þá hækkað úr 31% 1980. Ástæðan fyrir því að þetta hlutfall mun hækka enn meira fram til aldamóta miðað við óbreytta skuldasöfnun er að fátt bendir til annars en hagvöxtur verði hér hærri en 1--2% á ári. Skuldirnar munu því hækka um 6,7% á ári eins og var á níunda áratugnum en landsframleiðslan rúmlega fjórum sinnum minna. Þó að álver verði byggt mun það ekki lækka þetta hlutfall. Talið er að álver eins og fyrirhugað er að byggja muni gefa hagvöxt upp á um 5% til frambúðar. Á móti kemur að Landsvirkjun þarf að taka um 40 milljarða að láni erlendis. Þegar þetta tvennt er sett inn í dæmið má búast við að hlutfall erlendra skulda af landsframleiðslu verði um 93% um aldamót.

    Skuldasöfnunin á níunda áratugnum var gífurleg. Í upphafi hans námu skuldir landsmanna um 1,2 millj. á hverja fjögurra manna fjölskyldu. Í lok hans voru skuldirnar orðnar um 2,3 millj. Skuldasöfnunin var því um 1,1 millj. á hverja fjölskyldu á 10 árum eða um 70 milljarðar. Þetta er enn átakanlegra fyrir það að þjóðin stóð ekki í neinum stórframkvæmdum á þessu tímabili.``
    Nú segir hæstv. iðnrh. okkur hins vegar frá því að aukin skuldasöfnun muni í raun tryggja lánstraust okkar þó að flestir leiði að því getum að verri skuldastaða okkar muni gera okkur erfiðara fyrir í framtíðinni með lánakjör á erlendum lánamarkaði. En hann heldur því fram að það muni auka traust á þjóðinni að henni hafi tekist að koma skuldum sínum upp í enn meiri hæðir en nú er.
    Sérhvert atvinnutækifæri í stóriðju er margfalt dýrara en á öðrum atvinnusviðum og auk þess eru störf þar mjög fá og eru það nú engar fréttir í raun fyrir hv. þingmenn. Störfunum fækkar reyndar sífellt vegna nýrrar tækni. Má ætla að af öllum þeim einstaklingum sem eiga eftir að koma út á vinnumarkaðinn fram til aldamóta séu í raun og veru mjög fáir sem muni vinna í álverum vegna þess hve störfin þar eru fá.
    Hæstv. ráðherra nefndi tölur um þann fjölda sem fengi vinnu við uppbyggingu bæði virkjana og þá væntanlega einnig álvers. Og ég verð að segja að ég undrast í raun. Ég undrast aðgerðir þessarar stjórnar þegar litið er á það hversu mikið kapp hæstv. ráðherrar hafa lagt á að ná niður þenslu og ná niður verðbólgu. Ég undrast að þeir skuli að því er virðist ekki hika við að mæta vaxandi atvinnuleysi sem vissulega er áhyggjuefni, og ég skil að þeir vilji bregðast við því, að þeir skuli ætla að horfast í augu við minnkandi hagvöxt á þennan hefðbundna hátt sem hefur gefið svo slæma raun í fortíðinni. Að þeir skuli í raun ekki treysta sér til þess að læra af reynslunni, að þeir skuli sýna sig bera að þvílíkri hugmyndafátækt í atvinnumálunum að þeir skuli ætla út í þessar framkvæmdir nú. Þeir hljóta að vita að þrátt fyrir aukinn hagvöxt muni þetta í raun valda mikilli þenslu í þjóðfélaginu, muni í raun gera það mjög erfitt að halda verðbólgunni í skefjum, muni í raun valda hálfgerðri sprengingu í atvinnulífinu um tíma og á ákaflega takmörkuðu svæði af landinu. Á sama tíma hefur hæstv. forsrh. skipað sérstaka nefnd til þess að búa til glæsilegri ímynd landsins sem friðsællar náttúruauðlindar, ómengaðrar náttúruauðlindar matvælaframleiðenda. Þá er á sama tíma lögð áhersla á það að auka hér stórkostlega við uppbyggingu stóriðju.
    Hæstv. iðnrh. talaði um að fyrirkomulagið á þessu samlagi yrði líkast því sem gerist við mjólkur- og rjómabú. Ég er ansi hrædd um það að þegar erlendu ferðamennirnir flýja lífvana vötnin í Evrópu, lauflausu skógana, einmitt í leit að ómengaðri náttúru, muni nú heldur betur glennast upp á þeim augun þegar þeir mæta álveri, risastóru álveri, sem getur fullt eins vel boðið okkur heim mengunarvanda sem er eitthvað í

líkingu við þann mengunarvanda sem hefur verið af því álveri sem hér er nú, sem er eitthvað í líkingu við þann mengunarvanda sem í raun blasir við okkur að reyna að hemja og draga úr hér á landi. Það eru ekki nema nokkrir dagar síðan við fréttum af tunnum með úrgangi sem höfðu verið grafnar niður að því er virtist án vitundar manna. Það hefur verið upplýst seinna að það mun víst hafa verið með vitund yfirvalda á Sauðárkróki að þessar tunnur voru grafnar niður við Steinullarverksmiðjuna. En í stað þess að gera átak í þessum málum er í raun verið að bæta á okkur vanda sem við eigum afar erfitt með að taka á.
    Á sunnudaginn var dagur jarðar. Þá áttum við öll að huga að því hvernig við getum farið sem best með jörðina okkar. Eru menn í raun sammála um að þetta sé
heppilegasti atvinnukosturinn fyrir Íslendinga í framtíðinni? Eru menn í raun sammála um að það sé þessi leið sem við eigum að fara, að það sé á þennan hátt sem við eigum að fjárfesta? Liggur ekki hugur manna til þess að reyna að varðveita og hlúa betur að þeirri náttúru landsins sem er hin raunverulega auðlind okkar. Að verða stóriðjuþjóð í matvælaframleiðslu, að nýta vel það góða hráefni sem við höfum á því sviði.
    Nei. Ég lýsi yfir vonbrigðum með skort á hugmyndaauðgi, með úrræðaleysi í atvinnumálum og ég undrast það hve menn eru orðnir fúsir að skipta um skoðun til að leita skammtímalausna við atvinnuleysi, til að leita skammtímalausna til að auka hagvöxt, því ég held að þessi lausn sé í raun ekkert annað en viðbrögð við þessum tveim nokkuð ógnvekjandi fyrirboðum sem ríkisstjórnin sér í náinni framtíð. Og mér finnst að hún hefði átt að leysa þessi mál á annan veg og okkur kvennalistakonum ( Gripið fram í: Öllum?), sex sem eru hér á þingi.
    Síðan minni ég á það og ég spyr hæstv. iðnrh. og reyndar fjmrh. líka: Ef þeir ætla þenslunni og verðbólgunni ekki að fara úr böndunum, sem hlýtur að vera nokkur hætta á vegna þeirrar atvinnusprengingar í efnahagslífinu sem hlýst af þessari hröðu og miklu uppbyggingu og þessari stóru fjárfestingu, hvernig ætla þeir að hemja hana? Ætla þeir að draga svona mikið úr fjárfestingum innan lands til jafnvægis? Ætla þeir til jafnvægis að draga svona mikið úr annarri atvinnuuppbyggingu, því að auðvitað er ekki hægt að gera allt í einu? Uppbyggingin verður bara á einum stað á landinu því að endanlega verður líklega bara einn staður valinn. Hvað á að gera í byggðastefnumálum annars staðar á landinu? Hvernig á að leysa þann vanda sem blasir við ótal byggðarlögum úti á landi sem hrópa á fjármagn, sem hrópa á þjónustu, sem hrópa á meiri uppbyggingu? Á fólkið allt að flytjast, þessi 2400 manns sem eiga að vinna við þessa uppbyggingu, á það allt að flytjast á þennan stað? Vilja menn meina að það hljótist ekki byggðaröskun og félagsleg röskun af slíku? ( EgJ: Hvaða stað?) Þann stað sem líklega verður fyrir valinu og það er áhugavert í sjálfu sér hver á að velja staðinn.
    Margir álíta stóriðju úreltan atvinnukost og ég

stend hér einmitt og horfi á hæstv. fjmrh. og man eftir grein sem hann skrifaði í dagblað um atvinnuuppbyggingu hinna smáu fyrirtækja. Það væri vænlegasti framtíðarkosturinn. Við það réðu menn. Það væri eðlilegt fyrir okkur Íslendinga að huga að uppbyggingu atvinnu með hinum smáu fyrirtækjum, ekki á þennan veg. En menn hafa látið leiða sig út í þessa lausn. Og ég held að þetta sé röng leið.
    Framsæknustu iðnaðarríki heims, og það veit hæstv. fjmrh. af því að hann minntist einmitt á það líka, eru að flytja þungaiðnað sinn úr landi, hvert sem betur getur. Þau sem geta það flytja hann annað. Ég er ekki að mæla því bót að hann verði fluttur annað, til fólks sem er varnarlausara, t.d. í þróunarríkjunum, alls ekki. Tilhneigingin er hins vegar sú af því að menn vilja ekki sjá þetta við sínar eigin bæjardyr. En þeir vilja fá afurðirnar og ég vil gjarnan spyrja ykkur: Hversu margir hv. þm. vita til hvers ál er notað í heiminum í dag? Halda menn að þetta séu aðallega steikarapönnur eða álpappír til eldhúsnota, til þess að grilla með? Til hvers er ál notað? Í hverju tökum við þátt? Vita menn að ál er notað t.d. í hergögn? Hve mikill hluti áls er notaður í hergögn? Til hvers viljum við nota orku fallvatnanna? Í hverju viljum við taka þátt? Viljum við nota hana til þess að framleiða matvæli handa heiminum eða viljum við nota hana í þungaiðnað? Viljum við nota hana í stóriðju? Þetta er spurning um grundvallaratriði.
    Vegna þess að ég var að tala um atvinnuuppbyggingu vil ég minna hv. ríkisstjórn og þingmenn á það að sú atvinnuuppbygging sem er í kringum stóriðju er ekki fyrir konur. Þessi hæstv. ríkisstjórn lofaði í málefnasamningi sínum að gera sérstakt átak í atvinnumálum kvenna. Og það var ekki að ástæðulausu að hún gerði það. Hún gerði það vegna þess að kröfurnar um það eru mjög miklar. Þær eru miklar vegna þess að af öllum þeim fjölda sem nú er atvinnulaus er yfirleitt stærsti hlutinn konur. Ég minni hv. 3. þm. Vesturl. á það að á Akranesi eru a.m.k. 150 manns sem ganga atvinnulausir og langstærstur hluti þeirra er konur.
    Þessi saga endurtekur sig víða úti á landi og hv. þm. vita allir að atvinnulíf landsmanna utan höfuðborgarsvæðisins er víðast hvar allt of einhæft. Sums staðar stendur og fellur byggðarlagið í raun og veru með einni atvinnugrein eða jafnvel einu fyrirtæki og þessi fábreytni í atvinnulífinu hefur orðið enn afdrifaríkari með breyttum þjóðfélagsháttum, ekki síst með aukinni þátttöku kvenna í störfum utan heimilis. Þess vegna er löngu, löngu tímabært að taka mið af þeirri staðreynd og þið vitið líka allir, hv. þm., að flest heimili þurfa tvær fyrirvinnur.
    Ég minni hv. þm. og hæstv. ríkisstjórn á sinn eigin málefnasamning. Ég minni hæstv. ríkisstjórn líka á tvær þáltill. sem hafa verið fluttar hér á þingi. Fyrstu flm. þeirra eru tvær Unnar. Önnur er Stefánsdóttir og hún flytur mál sitt með þingmönnum Framsfl. Þáltill. er svohljóðandi, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að gera sérstakt átak til að efla atvinnumöguleika kvenna í

dreifbýli.``
    Seinni tillagan er flutt af Unni Kristjánsdóttur með þingkonum Alþb. Hún hljóðar svo, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að skipa fjögurra manna nefnd til að gera tillögur til úrbóta á atvinnumöguleikum og starfsskilyrðum þeirra kvenna sem vinna við iðnað, landbúnað og sjávarútveg á landsbyggðinni. Félmrh.
skipi formann nefndarinnar en sjútvrh., iðnrh. og landbrh. skipi einn nefndarmann hver. Nefndin starfi á vegum félmrn. og skal skila áliti eigi síðar en í júní nk.``
    Þessar tillögur voru reyndar báðar fluttar á þinginu 1988.
    Það er ekki að ástæðulausu að þingkonur stjórnarflokka flytja þessi þingmál. Það er vegna þess að þær eru fulltrúar fólks sem finnur eldinn brenna á sér og það er sorglegt til þess að vita hversu lítið hæstv. ríkisstjórn hefur gert í þessum efnum. Nú alveg nýlega gerði hv. þm. Danfríður Skarphéðinsdóttir fyrirspurn um ágæta skýrslu sem hafði verið gerð og fjallaði um atvinnumál bændakvenna, og það hafði nánast ekkert verið gert í þeim efnum. Hæstv. félmrh. hafði lagt þessa skýrslu fram 16. des., hafði farið fram á 15 millj. kr. fjárveitingu, en fjárveitingavaldið sá sér ekki fært að verða við þeirri ósk. Og ég spyr hæstv. iðnrh.: Hvaða ráð hefur ríkisstjórnin undir rifi sínu til þess að mæta þörfum kvenna um aukna atvinnuuppbyggingu? Og ég gæti lesið hér úr ræðum sem hafa verið fluttar á þinginu í vetur um það hvað Norðurlandaþjóðirnar hafa gert til að halda konum í byggðarlögum jaðarbyggða vegna þess að þegar konurnar flytja burtu leggst byggðin af. Karlmennirnir una ekki kvenmannslausir lengur. Það er ósköp einfalt mál. Þeir missa fjölskyldur sínar og þeir vilja fylgja þeim. Og ef menn ætla að halda byggð í þessu landi verða þeir að gera eitthvað sem er úrræðabetra en að byggja annað álver á hefðbundinn hátt. Þvílíkt hugmyndaleysi.
    Ég bendi hæstv. iðnrh. á möguleika hátækniiðnaðar. Ég bendi honum á þáltill. sem hefur nýlega verið samþykkt á þessu þingi. Hún leiðir okkur í átt til nýrri tíma. Hún leiðir okkur í átt að atvinnu sem hentar okkur betur í þessu þjóðfélagi. Mig langar að lesa hana, með leyfi forseta:
    ,,Alþingi ályktar að fela ríkisstjórninni að kanna með hvaða hætti unnt er að nota nútíma tölvu- og fjarskiptatækni til að flytja verkefni á vegum ríkisstofnana og annarra aðila frá höfuðborgarsvæðinu til annarra landshluta.
    Sérstaklega verði kannaðir möguleikar á að nýta þessa tækni til þess að koma á laggirnar fjarvinnustofum í því skyni að fjölga störfum og auka fjölbreytni í atvinnulífi byggðarlaganna.``
    Þessi tillaga var flutt af þingkonum Kvennalistans og mælti Danfríður Skarphéðinsdóttir fyrir henni.
    Sem betur fer sá ríkisstjórnin, og hv. þm., að þetta er hið þarfasta mál. Þarna eru atvinnutækifæri. Þarna eru á ferðinni störf, réttara sagt því atvinnutækifæri er ljótt orð, sem bæði karlar og konur geta unnið. Þarna

eru á ferðinni störf sem hægt er að dreifa um landið.
    Og síðan bendi ég hæstv. iðnrh. á annan iðnað sem er mun lífvænlegri og hentar Íslandi og Íslendingum miklu betur en stóriðjuuppbygging og það er ferðamannaiðnaður. Ferðamannaiðnaðinn er hægt að byggja upp víða um landið þar sem byggð er þegar fyrir. Það er hægt að styrkja byggðina þar sem hún er þegar. Þá þarf ekki að flytja fólkið og þjappa því saman. Þá þarf ekki að skapa úlfúð á milli landshluta eins og verið er að gera núna þegar verið er að etja saman byggðarlögunum um það hvert verði sigurstranglegast í að hreppa þessa líka gjöf, þessa líka hermdargjöf.
    Ég var nýlega samferða forsvarsmönnum atvinnulífs í byggðarlagi hér á landinu sem voru einmitt að koma á fund vegna möguleika á því að þeir hrepptu álverið. Þeir voru ekki ýkja hamingjusamir yfir því, en þeir áttu í erfiðleikum með að mæta atvinnuleysinu sem þeir sáu í sínu byggðarlagi. Þeir undu því ekki vel að þurfa í raun og veru að horfast í augu við þennan möguleika, en frekar en atvinnuleysið kusu þeir þetta. En þetta er ekki góður kostur og aðrir eru ekki boðnir.
    Ég ætla ekki að lengja mál mitt frekar þó ég mundi vilja tala lengur vegna þess að þetta er afar mikið mál. Þetta mál fjallar um grundvallaratriði og þetta mál fjallar í raun um það hvernig við erum að binda okkur og börnin okkar í langri framtíð vegna þess að erlendu skuldirnar munu vaxa. Ég efast stórlega um að þær muni auka tiltrú annarra þjóða á okkur. Mér finnst þetta ekki vera góðir atvinnukostir og af öllum þessum ástæðum sem ég hef þegar talið getum við kvennalistakonur ekki stutt frv., fyrst og fremst vegna þess að tilgangur þess er að standa fyrir stórvirkjunum í þágu stóriðju sem við erum í raun og veru mótfallnar. Þess vegna kemur ekki til greina að styðja þetta mál. Og ég tek undir með hv. 4. þm. Vestf.: Mér finnst afar undarleg 3. gr. frv. Ef einhver á að ákveða forgangsröð eins og þessa, þá er það Alþingi. Slíkt vald á alls ekki að fela í hendur neinum iðnrh. og það á að vera samþykki fulltrúa þjóðarinnar sem ræður því hvað er virkjað og hvernig er
virkjað, í hvaða röð. Kvennalistakonur eru ekki mótfallnar því að virkja fallvötn landsins, en við viljum ekki gera það í þessum tilgangi og á þennan hátt.