Raforkuver
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mun nú með nokkrum orðum leitast við að svara þeim spurningum sem hv. 4. þm. Vestf. og hv. 6. þm. Reykv. beindu til mín hér í ræðum sínum áðan. Ég vík þá fyrst að því sem kom fram í máli hv. 4. þm. Vestf.
    Hann vék að því að hann teldi að í 2. gr. frv. væri e.t.v. ekki ástæða til að veita sérstaklega heimild með lögum vegna Hitaveitu Reykjavíkur að reisa jarðvarmavirkjun á Nesjavöllum með allt að því 38 mw. afli. E.t.v. væri nær að breyta ákvæðum orkulaga um stærð þeirra virkjana sem leita þyrfti lagaheimilda fyrir. Mér finnst nú að vísu skrefið giska stórt frá tveimur mw. upp í 38 mw., enda skildi ég hv. 4. þm. Vestf. þannig að hann væri ekki að gera þá tillögu að það yrði heimilt, án sérstakrar lagaákvörðunar eða ákvörðunar í iðnrn., að reisa svo stórar virkjanir. Ástæðan fyrir því að menn vilja binda leyfi til virkjana takmörkunum, eins og þeim sem felast í því að það verði annaðhvort ákveðið með lögum eða í ráðuneytinu, eru náttúrlega fyrst og fremst þær að virkjanir séu ákveðnar út frá hagkvæmni virkjananna en ekki út frá gjaldskrám þeim sem einstakar smáveitur eiga við að búa. Það eru víða dæmi um það að það gæti verið hagkvæmt fyrir litlar bæjarveitur og almenningsveitur að virkja gjaldskrár Rafmagnsveitna ríkisins eða Landsvirkjunar en það er hins vegar ekki lóðið í málinu. Lóðið er að sjálfsögðu að menn virki hagkvæmustu kostina frá sjónarmiði raforkukerfisins í heild og áskilja þarf, eins og gert er í 2. gr., að fyrir
liggi samningur um rekstur virkjananna sem hluta af raforkukerfi landsins. Þetta er hin efnislega ástæða fyrir þessum takmörkunum. Ég tel fullnægjandi ákvæði um þetta í 3. gr. þessa frv. og ég vík nú að henni, enda gerðu bæði hv. 4. þm. Vestf. og hv. 6. þm. Reykv. þá grein sérstaklega að umtalsefni.
    Ég tel að í þessari grein sé farið inn á þá hyggilegu braut að röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í orkumálum ráðist fyrst og fremst af væntanlegri nýtingu orkunnar og þess sé gætt að orkuöflunin sé sem hagkvæmust. Það er miklu eðlilegra að fela þetta verkefni virkjanafyrirtækjunum, orkufyrirtækjunum og ráðuneyti orkumála en að leita samþykkis þingsins hverju sinni. Samþykki þingsins og stefnumótun á að vera í almennari atriðum og fjárheimildum. Þetta er mín skoðun og henni er lýst hér í athugasemdum með þessari grein. Hins vegar tek ég fram að ég er að sjálfsögðu samþykkur því að vönduð athugun fari fram á málinu í hv. iðnn. þessarar deildar. Ég bendi á að það sem hv. 4. þm. Vestf. taldi að væri mótsögn milli 3. gr. og ákvæða til bráðabirgða veiki þær virkjanir sem menn telja nú rétt að ráðast í til þess að afla orku fyrir hið væntanlega nýja álver. Ég tel þvert á móti þetta vera eðlileg umþóttunarákvæði frá þeirri aðferð sem tíðkast hefur til hinnar sem koma skal. Þar með er alls ekki hægt að segja að Alþingi sé að afhenda hér þau tök, það vald sem þingið hefur haft á virkjanaröð og

virkjanaframkvæmdum vegna þess að hér er þá verið að ákveða í hvaða virkjanir verði ráðist næstu fimm árin og jafnvel reyndar lengur. Menn eiga að átta sig á því að hér þarf líka að líta á það sem er praktískt í málinu.
    Þá vík ég að því sem hv. 4. þm. Vestf. sagði um 4. gr. frv. en hann kunni ekki við orðalagið ,,stækkaða Búrfellsvirkjun`` o.s.frv. Ég er honum sammála um þetta. Orðalagið er ekki sérlega þekkilegt en ástæðan fyrir því að þessi orð eru notuð er einmitt lögfesting virkjana og lögfesting stærðarmarka þeirra, því oft er erfitt að skilgreina virkjanir nákvæmlega með einni tölu eins og afli í megawöttum. Orkumál eru náttúrlega miklu meira en megawött og milljarðar. Þetta er líka spurning um mannlegt hugvit til þess að nýta þau tæki, þá virkjanamöguleika og þær virkjanir sem fyrir eru í hinu samþætta orkukerfi. Þess vegna tel ég einmitt að rökin fyrir því að hverfa að því ráði sem tillaga er gerð hér um í 3. gr. séu styrkt af þeim umræðum sem hér hafa
orðið í deildinni um þetta og ég bið hv. iðnn. að huga að því þegar hún fjallar um þetta mál.
    Þá kem ég að orðum, spurningum, athugasemdum hv. 6. þm. Reykv. Hún lýsti því fyrst að lengi hefðu verið skiptar skoðanir um virkjunarmál á Íslandi. Það er sannarlega rétt en fáa hefur greint á um þá skoðun sem best var lýst í orðum orkuskáldsins Einars Benediktssonar í kvæði hans um Dettifoss. Ég ætla mér ekki að ég geti orðað það betur:

Hve mætti bæta lands og lýðs vors kjör
að leggja á bogastreng þinn kraftsins ör, ---
að nýta máttinn rétt í hrapsins hæðum,
svo hafin yrði í veldi fallsins skör.

    Þetta er líka lifandi vatn, virðulegi 6. þm. Reykv. Þetta er það sem málið snýst um, að breyta þessum draumi í veruleika. Það er náttúrlega þrautkannað mál að vænlegasti kosturinn til þess nú er einmitt hinn bjarti málmur, hinn ljósi málmur, málmur framtíðarinnar, álið. Og ég held að hv. þm. yrði margs fróður af því að kynna sér til hvers þessi gagnmerki málmur er notaður, eins og hún lýsti eftir hér í ræðu sinni áðan. Því það mun þá koma í ljós að þetta er geysimikið notað í daglegar vörur heimilanna, í umgjörð hversdagslífsins.
Þetta er til þess að gera samgöngutækin léttari, nýta orkuforða jarðar betur og sú samþjappaða orka sem vinnst úr okkar fossaskrúða og þjappað er saman í álið skilar sér margfalt aftur þegar búið er að gera bílana, járnbrautarvagnana, flugvélarnar og allt sem fólkið ferðast í léttara og sparneytnara.
    Þetta er hin sanna umhverfisverndarstefna og einkum af því að við getum leyst af hólmi úreltar, mengandi verksmiðjur í öðrum löndum. Við höfum nú tök á því að gera þetta betur en aðrar þjóðir. Við getum nú forðað jörðinni frá þeim hremmingum sem hljótast af óvandaðri framleiðslu á þessu mikilvæga efni. Þetta er málið. Það er sannarlega rétt hjá hv. þm. að kjarnorkan leysti ekki vandann. Þar hafa komið

upp vandamál. Þess vegna eru iðnaðarríkin að leita eftir kostum á stórum skömmtum af orku til þess að framleiða á hagkvæman hátt, án mengunar, þetta mikilvæga efni, álið, og önnur efni. En reyndar er það þannig að álið býður bestu kostina. Og það er einmitt þessi þróun sem hv. þm. lýsti svo vel sem gerir það fýsilegt, gerir það eftirsóknarvert og gerir okkur samkeppnisfær í þessu máli.
    Hv. þm. nefndi líka möguleikann á að selja orkuna beint til notenda í öðrum löndum með sæstreng. Það mál er í virkri athugun, m.a. með viðræðum við orkufyrirtæki í Evrópu og við orkuyfirvöld Evrópubandalagsins. Það er vissulega athyglisverður kostur en eingöngu við hliðina á orkunýtingu til iðnaðarframleiðslu því okkur er þörf á að dýpka okkar hagkerfi, að gefa því sterkari grundvöll, að fjölga möguleikum til starfa fyrir vinnandi hendur, bæði karla og kvenna, og ég kem að því hér á eftir.
    Hv. 6. þm. Reykv. taldi að uppi gætu verið þrjár meginstefnur í orku- og stóriðjumálum. Í fyrsta lagi uppbygging stóriðju sem að mestu væri í erlendri eign. Í öðru lagi stóriðja með innlendum meiri hluta og í þriðja lagi stefna atvinnuþróunar án stóriðju. Ég tel að þessir kostir rúmi alls ekki málið allt og ég vísa því á bug sem hv. þm., á sinn mjúka hátt, leyfði sér að lýsa, að stefnan sem fælist í fyrstu leiðinni fæli það í sér að íslenskt vatns- og vinnuafl væri selt langt undir verði og þá færi sjálfstæðið fyrir lítið og það væri sú stefna sem sá sem hér stendur fylgi. Þessu vísa ég harðlega á bug og mun aldrei standa að neinum samningum sem hafa það í för með sér að íslenskt vatnsafl og vinnuafl verði selt undir verði heldur þvert á móti stefnir þetta allt að því að breyta þessu afli í verðmæti. Hv. þm. skaust þar hrapallega og er alveg stórfurðulegt að hún leyfi sér að segja svona hluti. Reyndar fylgdi sú fullyrðing á eftir að stóriðja á Íslandi hefði alla tíð verið rekin með bókfærðu tapi. Þetta er afar einkennileg fullyrðing þegar þess er gætt að einmitt síðustu tvö árin hefur afkoma bæði Ísals og Íslenska járnblendifélagsins verið með allra besta móti, skilað góðum hagnaði og miklum tekjum í íslenskt þjóðarbú. En það er einmitt það sem gefur þessu máli nú loft undir væng.
    Þá kem ég að umhverfisáhrifum áliðju og annarrar stóriðju sem hv. 6. þm. Reykv. réttilega gerði hér að umtalsefni. Hún vék nokkuð að brennisteinstvíildismengun frá iðnaðarstarfsemi. Við höfum í því efni mjög ströng ákvæði í okkar hollustuverndarreglum og heilbrigðiskröfum. Það er að vonum og á að vera svo. Hins vegar tel ég að hlutfallsreikningur, eins og sá sem hv. þm. fór hér með, að af heildarútlosun á brennisteinstvíildi á Íslandi svaraði Ísalálverið fyrir fimmtung, ef ég man rétt að hún segði ( GA: Þetta er frá Hollustuvernd.) Já, en þetta er af mjög lágri heildarlosun þessa efnis út í andrúmsloftið miðað við það sem gerist í löndunum í kring og ekki sambærilegt við það sem þar er.
    Ég bendi líka á að náttúrleg losun á þessu efni við eldgos og jarðhræringar getur verið hér miklu stórfelldari, og súrt regn getur líka hlotist af eðlilegri

hegðun jarðarkringlunnar. Þetta er hlutur sem við, sem búum í eldfjallalandi, verðum að gera okkur rækilega ljóst. Þetta gefur okkur ekki leyfi til að láta þennan mengunarvald leika lausum hala, enda er enginn að hugsa um það, en við þurfum að skilja og þekkja okkar umhverfi, meta það rétt hvað hér er á ferðum og meta það rétt í samhengi við það sem fyrir er.
    Ég fullyrði að við undirbúning þess iðjuvers, sem við ræðum hér nú og bindum vonir við að verði að veruleika, hefur umhverfissjónarmiða verið gætt í miklu ríkari mæli og þau tekin miklu fastari tökum en fyrr hefði verið gert og til kvaddir ráðgjafar, bæði þeir sem ég nefndi frá Noregi og eins virt kanadískt ráðgjafarfyrirtæki, Admont Project Management, sem eru afar vel að sér um allar umhverfisverndarkröfur. Við höfum þar á undanförnum mánuðum látið gera ítarlegan samanburð á þeim kröfum um mengunarvarnir og vinnuvernd sem gerðar eru til álvera í öllum helstu iðnríkjum heims og af Alþjóðaheilbrigðismálastofnuninni, WHO. Þetta verk hefur ekki verið unnið fyrr en er svo sannarlega nauðsynlegt og ég hef, eins og kemur fram á 17. síðu í því skjali sem liggur hér fyrir hv. þingdeild, látið skipa sérstaka ráðgjafarnefnd í umhverfismálum og áhrifum stóriðju á náttúrulegt umhverfi einmitt til þess að við höfum hér viðleitni til þess að byggja upp í landinu sérfræðikunnáttu í þessu máli. Ég bind vonir við það að þessi nefnd, sem er
undir forustu borgarlæknis og hefur innan sinna vébanda lífeðlisfræðing, efnaverkfræðing, líffræðing, haffræðing og veðurfræðing, muni einmitt byggja upp þá sérfræði sem Íslendingar eiga og þurfa að hafa á þessu sviði. Þarna verður enginn steinn látinn óhreyfður til þess að þetta mál verði sem allra best undirbyggt.
    Ég vildi líka láta þess getið að Atlantsálsfyrirtækin sjálf eru afar áhugasöm um það að þetta verði vel og vandlega gert og eru þess vel meðvitandi að það hættir enginn svo miklu fé í fyrirtæki af þessu tagi á okkar tíð að hann hafi ekki fyrirhyggju til þess að mæta þeim kröfum sem nú eru gerðar og þeim sem fyrirsjáanlegar kunna að vera á þessu sviði. Þessu er margyfirlýst og hér er engin tilraun gerð til þess að sleppa billega frá umhverfishliðinni og verður ekki gert. Það er enginn áhugi á því, hvorki frá samstarfsaðilum okkar né að sjálfsögðu okkur sjálfum. Þetta veit ég að hv. 6. þm. Reykv. ber mjög fyrir brjósti og þar er ég henni alls hugar sammála. Þess verður líka gætt að þarna verði vandlega um alla hnúta búið.
    Ég bind vonir við það að þessi ráðgjafarnefnd og samstarf við innlend ráðgjafarfyrirtæki á þessu sviði geti gert Íslendinga frambærilega sem ráðgjafa í þessum efnum síðar. Það er eitt af því sem á að fylgja verkefnum eins og þessum en líka áminning um það að hugsjón hv. 6. þm. Reykv., sem ég vil ekki gera lítið úr, að Íslendingar eigi að stefna að því að byggja hér upp hugvitsiðnað. En hvers konar þjónustustarfsemi þarf að hafa hrygglengju í raunverulegri efnislegri framleiðslu eins og þeirri sem

Atlantsálsiðjuverið getur fært með sér. Þá getum við líka sinnt ýmsum öðrum verkefnum, þá getum við gert fjarvinnslu að skynsamlegum kosti. Við þurfum að hafa innihald í hlutunum, það nægir ekki að nefna umbúðirnar einar, þetta er málið. ( GA: Hvað með matinn?) Ég ætlaði einmitt að koma að því.
    Hv. þm. hafði orð á því að það væri skelfilegt að stofna ferðamannaiðnaðinum í hættu og matvælaiðnaðinum með því að hefja hér framleiðslu á ,,hinum ljósa málmi``. Ég vildi leyfa mér að benda á það að Sviss, sem er nú eitt eftirsóttasta ferðamannaland veraldar, bæði á sumri og vetri, hefur reyndar vínrækt líka, að í Dalnum, sem svo er nefndur, í Sviss þar sem eru álver og hafa verið í 100 ár er helsta vínrækt þeirra alveg við verksmiðjuvegginn hjá álverunum. Þar eru líka eftirsóttustu sumardvalarstaðirnar og skíðastaðirnir, m.a. þar sem heitir Montana Crans. Ég hef ekki orðið var við það að álið hafi fælt fólk frá því að koma á þessa staði. Reyndar er Ísland líka svo stórt land að það er nóg rúm fyrir þetta og hitt. Þetta er það sem við þurfum að gera okkur ljóst. Þetta er líka hlutur sem við þurfum að ganga vandlega frá. Álverin í Dalnum í Sviss nálægt Montana Crans og nálægt vínræktinni, sem telja að hafi ekki spillst af þeirra völdum, eru alls ekki eins fullkomin og það álver sem við erum að ræða. Ég fullyrði að við höfum hér óvenjulegt tækifæri til að sýna það og sanna að þetta geti vel farið saman og bendi líka á að það eru margir staðir sem geta tekið við áliðju og landið er einmitt ríkt af rými. Og ég furða mig á því að hv. 6. þm. Reykv., með sína vísindahyggju, skuli ekki hafa áttað sig á þessum einföldu staðreyndum málsins.
    Þá kem ég að skuldunum. Ég vil leyfa mér að benda hv. 6. þm. Reykv. á það sem segir hér á síðu 55--57 í því riti sem hér hefur verið dreift, frv. og greinargerð þess. Ég ætla ekki að gera lítið úr gildi Dagblaðsins DV en ég vil leyfa mér að trúa að áætlun Þjóðhagsstofnunar um þróun skuldabyrðar fram til aldamóta sér nær sanni en dagblaðsgreinin sem til var vitnað. Þær fullyrðingar sem hv. þm. bar hér fram sem heilagan sannleika fara mjög á skjön við það sem þar kemur fram. Það er ekki undan því að víkjast að til þess að virkja svo mikið sem þarna er verið að ræða, og ég endurtek að ef við ekki ráðumst í eitthvað svona, þá þurfum við ekki að virkja neitt fyrr en á næstu öld. Þá munu líka margir hugvitsmenn og andans garpar, þeir sem hv. 6. þm. Reykv. ber svo mjög fyrir brjósti, verða harla verkefnasnauðir næstu árin, okkar góðu verkfræðingar, jarðfræðingar og aðrir snjallir vísindamenn landsins, m.a. sá sem sannaði svo vel að Vatnajökull væri stærri en menn hugðu. Hvers vegna skyldum við vita það? Það var vegna þess að Landsvirkjun lét Helga Björnsson, þann snjalla jarðeðlisfræðing, kanna jökulinn með nýstárlegum hætti og komast að raun um það hvernig landslagið undir honum liti út. Þetta er hægt, virðulegi þm., 6. þm. Reykv., af því að við höfum verið að virkja, af því að við ætlum að virkja, af því að við ætlum að breyta orkunni í samanþjappað form, í hinn bjarta

málm. ( HBl: Svo hefur veðurfarið áhrif á stærð Vatnajökuls.) Víst er það svo.
    Þetta er allt í samhengi og málflutningur virðulegs þm., rökstuðningur hennar fyrir því máli sem hér liggur á okkar borðum, þarna er svarið. Þarna eru verkefnin fyrir okkar vel menntaða fólk. Þarna er grundvöllurinn til þess að menn og konur fái nytsöm verk að vinna, geti eflt þjónustustarfsemi út um landsins byggðir. Og að sjálfsögðu eru áhrifin ekki bara á einum stað, eins og hv. þm. sagði hér, heldur um allt land. Þau hríslast um allt land eins og seytluveita á engi og skapa bæði mönnum og konum verk. Það lýsir þröngsýni í hugsun að segja: Það verða bara störf fyrir sex hundruð karla á einhverjum
stað á landinu og síðan ekki söguna meir. Flestir eiga þessir karlar sem betur fer konur auk þess sem af þeirra verkum hlýst eftirspurn eftir gögnum og gæðum, þjónustubrögðum, svo að maður noti nú gömul og góð orð, sem munu færa með sér verkefni fyrir aðra. Þetta þekkjum við öll og vitum, en þetta vanrækir hv. 6. þm. Reykv. í sínu máli og gengur þar ekki erinda kvenna heldur misskilur málið.
    Um þensluna ætla ég ekki að segja margt. Það er einkennileg mynd af hinum efnahagslega veruleika að fyrst sé allt í kreppu og kaldakoli og svo einn góðan veðurdag sé hér upphafin hin ógurlega þensla sem allir óttast, eiginlega enn þá meira en kreppuna. Lífið er ekki svona. Okkur er nú þörf á því að hafa þarna bil, komast úr erfiðleikum, komast yfir á bataskeið. Við erum að gera það. Þetta frv., ef að lögum verður, gæti staðfest það, gæti jafnað muninn milli hagvaxtar á Íslandi og í þeim löndum sem við berum okkur helst saman við, tryggt okkur að það þjóðfélagslega markmið náist um aldamótin að Ísland haldi sínu fólki með reisn, haldi því með frambærilegum kjörum, haldi því þannig að menn hafi hér góðan hlut en hreppi ekki Kaldbak og láti Akra með því að glepjast af efnahagsstefnu og atvinnustefnu sem ekki skilar arði, sem ekki skilar tekjum handa fólkinu. Og ég skora á hv. 6. þm. Reykv. að spyrja fólkið, spyrja Dagsbrúnarmennina, spyrja verkamennina út um allt land, spyrja verkfræðingana, gröfumennina, jarðvinnuvélamennina hvernig þeim lítist á þetta. Spyrja hvað verkakonunum sýnist um að taka þátt í þessu eða láta það ógert. Þetta er það sem skilur á milli feigs og ófeigs í framvindu íslenskra efnahagsmála.
    Virðulegi forseti. Ég læt máli mínu lokið og ítreka tillögu um það að málinu verði vísað til hv. iðnn.