Raforkuver
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Menntamálaráðherra (Svavar Gestsson):
    Herra forseti. Ég hafði hugsað mér í þessari umræðu að gera í örstuttu máli grein fyrir afstöðu alþýðubandalagsmanna til þess frv. sem hér er til umræðu í kvöld og hæstv. iðnrh. hefur haft framsögu um og síðan gert ítarlegri grein fyrir í alllöngu máli. Á fundi í þingflokki Alþb. 9. apríl sl. var gerð eftirfarandi samþykkt um hugsanlega byggingu álvers:
    ,,Þingflokkur Alþb. minnir á að enn eru engar forsendur fyrir hendi til að unnt sé að meta hvort hagkvæmt sé fyrir Íslendinga að ganga til samninga við erlenda aðila um byggingu 200 þús. tonna álvers hér á landi. Meðan meginatriði væntanlegra samninga liggja ekki fyrir er tvímælalaust óhyggilegt að hefja virkjunarframkvæmdir, enda hlyti það að veikja samningsstöðu Íslendinga að binda nokkur hundruð milljónir króna í nýjum virkjunarframkvæmdum án þess að orkuverð hafi verið ákveðið. Á þessu stigi málsins telur þingflokkur Alþb. brýnast að ríkisstjórnin marki þá stefnu að hugsanleg bygging þessa risafyrirtækis stuðli ekki að enn frekari byggðaröskun í landinu og þess vegna verði því valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. Jafnframt þarf að kanna betur en gert hefur verið hvernig Íslendingar gætu sjálfir átt aðild að rekstrinum og tryggt forræði sitt og hagsmuni þannig að viðunandi sé.
    Þingflokkur Alþb. telur einsýnt að leita verði allra leiða til að efla atvinnulíf í landinu eftir nokkurra ára samdráttarskeið og telur sjálfsagt að kanna alla tiltæka kosti í því skyni. Jafnframt minnir þingflokkurinn á að auk byggðasjónarmiða hlýtur endanleg afstaða til nýrra stóriðjuframkvæmda að ráðast af því fyrst og fremst hvaða verð fæst fyrir orkuna, hvort iðjuverið greiðir skatta með eðlilegum hætti og lýtur íslenskum dómstólum og hvernig mengunarvörnum og umhverfisvernd verður háttað.``
    Hér er um að ræða samþykkt sem gerð var á fundi þingflokks Alþb., eins og ég sagði áðan, 9. apríl sl. og send var fjölmiðlum og þá birt í tengslum við
afgreiðslu þingflokksins á því frv. sem hæstv. iðnrh. hefur hér gert grein fyrir í kvöld. Það er með öðrum orðum þannig að ekki er uppi um það deila, hvorki við mig eða trúi ég hv. 6. þm. Reykv. eða hæstv. iðnrh., hvort nýta á þá auðlind sem í vatnsaflinu felst. Um það er engin deila, um það hefur aldrei verið deila. Og að ætla sér að búa til leikrit um það að menn séu í háa rifrildi um þetta grundvallaratriði, það er ekki á dagskrá, það er ekki veruleiki. Veruleikinn er ekki hvort heldur hvernig. Um það hefur umræðan alltaf verið, um það hefur deilan staðið hér á Alþingi Íslendinga alveg frá því á árinu 1964, 1963, 1965 þegar umræður hófust á sínum tíma um það hvort nýta ætti vatnsafl í þágu stóriðju hér á landi. Það er auðvitað algerlega óhjákvæmilegt fyrir einn þingmanna Alþb. og ráðherra að taka þetta fram í þessari umræðu. Það sem liggur fyrir er þetta: Þingflokkurinn undirstrikar: Það eru enn engar forsendur fyrir hendi til þess að unnt sé að meta hvort hagkvæmt sé fyrir Íslendinga að ganga til samninga við erlenda aðila um

byggingu 200 þús. tonna álvers. Þessar forsendur eru ekki fyrir hendi. Þær grundvallarforsendur sem skipta máli, sem eru orkuverð, sem eru skattar, sem eru dómstólar, sem eru umhverfismál, þessar forsendur liggja auðvitað ekki endanlega fyrir af því að samningum er ekki lokið. Samningar hafa ekki verið leiddir til lykta. Þess vegna liggur niðurstaða auðvitað ekki endanlega fyrir í þessu efni.
    Í öðru lagi er það undirstrikað í samþykkt þingflokks Alþb. frá 9. apríl sl. að þingflokkurinn telji brýnast að mörkuð verði sú stefna að hugsanleg bygging þessa risafyrirtækis stuðli ekki að enn frekari byggðaröskun í landinu og því verði fyrirtæki af þessu tagi valinn staður utan höfuðborgarsvæðisins. ( EgJ: Það var tillaga mín.) Þetta er úrslitaatriði, þetta er megináhersluatriði af hálfu þingflokks Alþb. og það hafa margir ágætir þingmenn, sem ekki eru enn þá komnir eins og hv. skrifari hér mér á hægri hönd, undirstrikað m.a. í tillöguflutningi hér á hv. Alþingi. Við höfum með öðrum orðum ekki útilokað það á neinn hátt að hér verði komið upp risafyrirtæki af þessu tagi, það höfum við ekki gert. En við höfum sagt: Til þess að það verði byggt, til þess að það verði stofnað, reist og starfrækt þurfa að liggja fyrir tilteknar grundvallarforsendur sem í dag liggja ekki 100% fyrir.
    Þess vegna hlýtur umræðan um frv. um raforkuver auðvitað að snúast m.a. um það hverjar verði þessar hugsanlegu grundvallarforsendur. Hver eru þau meginatriði sem menn vilja halda til haga í þessu efni. Og það er auðvitað ekki ætlun ríkisstjórnarinnar né hæstv. iðnrh. að ganga þannig fram í þessu máli að það verði hrapað að hvaða kostum sem er, það er langt frá því, heldur munu menn auðvitað setja tiltekin skilyrði, byggja á tilteknum forsendum sem geta verið í sem bestu samræmi við efnahagslegar og þjóðhagslegar forsendur íslenska þjóðarbúsins.
    Í samþykkt þingflokks Alþb. hefur einnig verið á það bent að jafnframt þurfi að kanna betur en gert hefur verið hvernig Íslendingar gætu sjálfir átt aðild að rekstrinum og tryggt forræði sitt og hagsmuni þannig að viðunandi sé. Hér er um algert lykilatriði að ræða að okkar mati, algert lykilatriði. Við lögðum
lengi á það megináherslu að við uppbyggingu fyrirtækja af þessu tagi þyrftu Íslendingar að eiga þar meiri hluta. Í samþykkt landsfundar Alþb. sl. haust var komist þannig að orði að Íslendingar þyrftu að eiga meiri hluta, verulegan eignarhluta eða að tryggja forræði sitt yfir viðkomandi fyrirtæki með öðrum sambærilegum hætti. Þetta er það sem átt er við í samþykkt þingflokksins sem gerð var 9. apríl sl., að það verður að tryggja forræði Íslendinga algerlega afdráttarlaust þegar um það yrði að ræða að samningar um fyrirtæki af þessu tagi kæmust hugsanlega á lokastig. Það er ljóst af því sem hér hefur verið sagt að ríkisstjórnin hefur fyrir sitt leyti ekki útilokað á neinn hátt þann möguleika að Íslendingar gætu átt verulegan eignarhluta í þessu fyrirtæki. Það fer m.a. eftir aðstæðum og eftir samningum um aðra hluti. En hugmyndin um eignarhluta Íslendinga er enn á

borðinu, bæði pólitískt af okkar hálfu og af hálfu ríkisstjórnarinnar í heild.
    Í samþykkt þingflokks Alþb. er, eins og ég sagði, byggðasjónarmiðið undirstrikað. Það er mjög mikilvægt atriði að þannig verði haldið á þessum málum að þetta fyrirtæki, ef reist verður, verði utan þenslusvæðisins hér á Suðvesturlandi, það er mjög mikilvægt atriði. Það er í raun og veru ekki um neitt annað að ræða, hvorki meira né minna en það, að það takist að stuðla að því með hugsanlegri stofnun fyrirtækis af þessu tagi að til verði sterkari byggðakjarni einhvers staðar utan höfuðborgarsvæðisins en nú er um að ræða. Þess vegna hefur þetta mál efnislega þýðingu og efnahagslega þýðingu, vegna þess að það er auðvitað alveg ljóst að með áframhaldandi öfugþróun í byggðamálum er stórkostleg hætta á því að margvísleg félgsleg þjónusta, sem byggð hefur verið upp úti á landi á undanförnum árum og áratugum, molni niður af því að fólkið flýr í burtu. Og það er augljóst að ef svona fyrirtæki yrði byggt hér á suðvesturhorninu þá mundi enn aukast sá flótti, enn fækka börnum í skólum úti á landi, enn minnka þörfin fyrir þjónustu heilsugæslustöðvanna o.s.frv., o.s.frv.
    En auk þessara grundvallarsjónarmiða sem okkar þingflokkur gerir að meginatriði í samþykkt sinni leggjum við áherslu á nokkra aðra höfuðþætti. Það er í fyrsta lagi orkuverðið. Fæst sæmilegt verð fyrir orkuna? Fæst kostnaðarverð fyrir raforku? Stendur verðið undir kostnaði við þær framkvæmdir sem efna verður til vegna stóriðjuversins? Eru einhverjir með það í huga að semja um orkuverð sem er eitthvað í líkingu við það sem var fyrir allmörgum árum þegar menn voru að ræða um þessi mál? Þar var beinlínis um að ræða niðurlægjandi verð á raforku sem m.a. viðreisnarstjórn Sjálfstfl. og Alþfl. á þeim tíma bar ábyrgð á, gjörsamlega niðurlægjandi verð. ( EgJ: Hvaða verð er ráðherrann með í huga?) Ég er að tala um verð viðreisnarstjórnarinnar, hv. ritari, það var eitthvað milli 3 og 4 mill, ef ég man rétt. Þar var auðvitað um að ræða gersamlega niðurlægjandi samninga, algerlega niðurlægjandi samninga um þetta verð af hálfu Íslendinga á þeim tíma. Auðvitað er ekkert slíkt á dagskrá af hálfu núv. ríkisstjórnar. Við alþýðubandalagsmenn leggjum með öðrum orðum á það megináherslu að orkuverðið sé tryggt í bak og fyrir með skynsamlegum hætti, með skynsamlegum grundvallarákvæðum og skynsamlegum grundvallarviðmiðunum inn í framtíðina.
    Í öðru lagi leggjum við á það mjög mikla áherslu að skattaákvæði hugsanlegra samninga verði skýr. Við bendum á það að á undanförnum árum hafa staðið verulegar deilur við Alusuisse um skattaákvæði þeirra samninga sem gerðir voru um stofnun Ísal á sínum tíma. Um það stóðu langvinnar deilur sem leiddu m.a. til verulegra sviptinga í kringum ríkisstjórnina 1980--1983. Þessi meginatriði varðandi skattana verða einnig að vera á hreinu, þau verða einnig að vera skýr og þar mega engin eftirkaup vera. Þar má ekki opna fyrir þann möguleika að þeir aðilar sem standa að

þessum hugsanlegu samningum geti leikið okkur grátt með svipuðum hætti og Alusuisse gerði langtímum saman með margvíslegu svindli gagnvart íslenskum stjórnvöldum, m.a. með svokallaðri hækkun í hafi og alls konar faktúrufölsunum út og suður sem kostuðu íslenska þjóðarbúið stórfellda fjármuni.
    Í þriðja lagi leggjum við á það mikla áherslu af okkar hálfu að fyrirtæki af þessu tagi lúti íslenskum dómstólum, það sé íslensk dómstólameðferð sem þetta fyrirtæki verði að sæta. Þetta er sagt að gefnu tilefni, m.a. úr samningunum við Alusuisse á sínum tíma þegar það gerðist að einn stjórnarandstöðuflokkurinn a.m.k., Framsfl., lagði á það ofuráherslu að ástæðan fyrir andstöðu Framsfl. við samningana um álverið á sínum tíma byggðist fyrst og fremst á því að menn væru að vísa málinu til alþjóðlegra gerðardóma, það ætti með öðrum orðum ekki að taka á þeim fyrir íslenskum dómstólum.
    Síðast en ekki síst er það úrslitaatriði að mengunarvarnir og umhverfisvernd verði í því besta horfi sem nokkur kostur er. Þetta eru meginmálin. Og áður en þau liggja öll fyrir er ekki hægt að ákveða að hér verði stofnað álver. Það gerir ríkisstjórnin ekki, það gerir iðnrh. ekki, það gerir örgglega enginn hv. þm. að heldur. En öll þessi atriði verða að vera skýr. Þess vegna hrekkur það auðvitað skammt að mála upp draumsýn framtíðarinnar af hinu mikla 200 þúsund
tonna álveri ef menn hafa þetta ekki á hreinu, þessi meginatriði --- sem eru hver? Sem eru orkuverð, sem eru skattar, sem eru dómstólar, sem eru umhverfisvernd og sem eru íslenskt forræði. Og svo loks það að fyrirtæki af þessu tagi rísi utan höfuðborgarsvæðisins.
    Ég held líka að það sé algerlega ástæðulaust fyrir menn að vera að fá glýju í augun yfir þeim stórkostlegu tíðindum sem fyrirtæki af þessu tagi muni sjálfkrafa hafa í för með sér til bata fyrir íslenskt þjóðarbú. Þetta fyrirtæki mun ekki skila bata fyrir íslenskt þjóðarbú nema þessi 5--6 grundvallaratriði sem ég nefndi séu uppfyllt. En þó að menn, og það er athyglisvert, herra forseti, þó að Þjóðhagsstofnun reikni til hins ýtrasta hina miklu hagkvæmni af þessu fyrirtæki, til hins ýtrasta, hvað kemst hún þá hátt? 1% í hagvexti á ári, 1%. Hvað halda menn að fyrirtækin, segjum á Suðurlandi, segjum á Austurlandi, segjum í Reykjavík, segjum á Vestfjörðum, hversu miklu halda menn að þau skili til þjóðarbúsins og gætu skilað í auknum mæli ef það væri betur á málunum haldið?
    Það hlýtur að vera einkar athyglisvert fyrir menn sem koma t.d. úr sjávarútveginum, eins og hv. 14. þm. Reykv., sem hefur í rauninni skilað hagvexti ár eftir ár langt umfram það sem Þjóðhagsstofnun hefur spáð, að þegar Þjóðhagsstofnun getur ýtrast gengið til þess að sýna árangur af hugsanlegu álveri upp á 200 þús. tonn, þá kemst hún í 1% af þjóðarframleiðslunni. Auðvitað geta menn svo sagt eins og hér var sagt áðan: 1% á einu ári eru 5% á fimm árum og margfalda þannig upp tölurnar og segja: Þetta gerir bara eina 20 milljarða á hálfum áratug og 40 á heilum. Staðreyndin er hins vegar sú að þegar við

nálgumst mál af þessu tagi eigum við ekki að nota margföldunartöfluna til þess að fegra myndina umfram það sem nauðsynlegt er. Við eigum að horfa á veruleikann rétt eins og hann er og skoða þetta mál í raunverulegu, íslensku, efnahagslegu samhengi.
    Alþb. hefur fyrir sitt leyti ekki útilokað á neinn hátt að efnt verði til stórrekstrar af þessu tagi hér á landi, það hefur flokkurinn aldrei gert. Alþb. hefur fyrir sitt leyti aftur og aftur undirstrikað að auðvitað eigum við að virkja okkar fallvötn og um það hefur ágreiningurinn aldrei verið. Ágreiningurinn við okkur m.a. hefur alltaf verið hvernig. Hversu mikið verður borgað fyrir rafmagnið? Hvernig verða skattarnir? Hvernig verða dómstólaákvæðin? Hvernig verður umhverfisverndin? Hvar verður fyrirtækið og hvernig verður háttað hinu íslenska forræði? Ef þetta er allt á hreinu eru hlutirnir í lagi að okkar mati. En það er ekki hægt að slá neinu föstu um þetta fyrirtæki og við höfum heldur ekki gert það af hálfu þingflokks Alþb. fyrr en öll þessi atriði eru ljós.