Raforkuver
Mánudaginn 23. apríl 1990


     Guðrún Agnarsdóttir:
    Hæstv. forseti. Ég vildi gjarnan eiga orðastað við ráðherra, er hann vant við látinn? ( Forseti: Það er óskað eftir því að iðnrh. komi í salinn.) Ég kem eiginlega fyrst og fremst í stólinn til þess að svara orðum hans.
    Aðeins nokkur orð, hæstv. forseti, eða athugasemdir öllu heldur við orð hæstv. ráðherra sem að mörgu leyti vöktu undrun mína. Ég gerði það yfir helgina, til að rifja upp álverssögu og Íslendinga, að ég las nokkuð af þeim umræðum sem fóru hér fram á árunum 1984 og 1985 til að minna mig á þetta mál að svo miklu leyti sem það snertir álver. Þá hafði ég einmitt nokkur orð um þessa sögu álvers og Íslendinga, þar sem álver hefur lengst af verið gerandinn en Íslendingar hafa verið þolendur, jafnvel þó svo þeir hafi verið fullir af bjartsýni um möguleika sína til að ná góðum kostum í viðureigninni við álver eða Alusuisse.
    Vegna orða hæstv. ráðherra langar mig aðeins til að rifja upp umræðuna frá því 1985. Þá minntist ég á það að allt frá því að ég hefði kynnst þessum málum hefði það verið áberandi hve sú saga var skráð af fáum einstaklingum sem höfðu allt of lítil samráð nema við mjög þröngan hóp manna. Mér fannst það bæði alvarlegt og hættulegt og ég veitti því athygli í umræðum á Alþingi að menn virtust í raun vera búnir að fá sig fullsadda af málinu, þeir virtust hafa gefist upp fyrir því, hafa látið það yfir sig ganga eins og það væri árstíð eða náttúrulögmál. Flestir hv. þm. hirtu ekki um að taka þátt í umræðum eða setja sig inn í flókin og tæknilega erfið atriði málsins á þeim tíma sem það var í umræðu. Þeir leiddu það hjá sér og málið sigldi meira og minna í gegnum þingið án gagnrýnnar afstöðu nema fárra þingmanna.
    Sömuleiðis virtist málið fá litla umfjöllun í þjóðfélagsumræðunni almennt. Það virtist hafa færst úr sjónmáli fyrir allan þorra manna og var aðeins á höndum örfárra einstaklinga. Ef hæstv. menntmrh. hefði ekki komið hér upp í kvöld þá hefði ég verið ein þingmanna í Ed. sem hefði hreyft minnstu andmælum gegn þessu máli. Það hefði mér þótt mjög alvarlegt því að þá er þessi kafli í álverssögu og Íslendinga enn þá alvarlegri, finnst mér, fyrir framtíð þessa lands en síðasti kaflinn var á fyrra kjörtímabili.
    Hæstv. iðnrh. bað mig að fara út á vettvanginn, hann bað mig að spyrja verkafólkið, hann bað mig að spyrja verkamennina og verkakonurnar hvort þau vildu ekki þessa atvinnukosti, hvort þau vildu ekki þessa uppbyggingu. Og þá vil ég svara hæstv. ráðherra, vegna þess að það vill svo til að ég var á ferðinni bæði sl. sumar og sl. haust og þá talaði ég við fleira fólk en ég á vanda til, fólk sem ég þekki ekki, fólk sem vinnur í mjög fjölbreyttum atvinnugreinum við ýmis störf, ég gekk inn á hvern vinnustaðinn á fætur öðrum og það var ekki ein einasta manneskja sem stakk upp á því við mig að hún vildi fá álver í sína sveit, ekki ein einasta manneskja. ( Gripið fram í: Einhvern veginn komu 3 / 4 út úr skoðanakönnuninni.)

Ég spurði ekki
beint að því, það er alveg rétt, ég spurði ekki þessarar spurningar beint. En það var enginn sem að eigin frumkvæði fann þessa lausn á atvinnuvanda síns byggðarlags. Það voru víða mikil vandræði og fólk var svartsýnt og fólk leitaði kosta, bæði í eigin hugskoti og ætlaðist til þess að þingmenn og svokallaðir forráðamenn þjóðarinnar byðu upp á vænlega atvinnukosti. En enginn, ekki ein einasta manneskja minntist á álver.
    Síðan talaði hæstv. ráðherra um það sem kannski vakti mér einna mestan ugg í máli hans. Það var ekki að ég treysti honum ekki til vandaðra vinnubragða því að ég er sannfærð um að vinnubrögð hans eru vönduð. Ég er líka sannfærð um að honum gengur gott til með sinni vinnu. Ég veit að hugsjónir okkar fara saman að ýmsu leyti, en ég veit líka og finn að þær gera það ekki að öllu leyti. Það sem vakti ugg með mér var hin ótrúlega bjartsýni hans, það var hin ótrúlega bjartsýni á það að þótt hinir vösku garparnir, hinir vösku harðskeyttu iðnaðarráðherrarnir hefðu ekki haft sigur, þeim hefði ekki tekist í glímunni við marghöfða þursinn, við fjölþjóðafyrirtækin að vinna gullið eða hinn bjarta málm úr höndum þeirra, þá var hann bjartsýnn og hann var sannfærður um að honum tækist að snúa hinn bjarta málm úr höndunm þeirra. Hann sagði oftar en einu sinni ,,hinn bjarta málm`` eins og málmurinn væri góður, eins og hann væri eftirsóknarverður, eins og hann væri ekki eitraður og honum fylgdi ekki mengun og hægt væri að lepja vínið utan af veggjunum í verksmiðjunum í dölunum í Sviss. Þessir dalir eru væntanlega mjög djúpir og hreyfir varla loftið þar, og engan skíðamann skaðaði nema ef hann lenti á veggnum fyrir eigin misgáning. ( Viðskrh.: Þeir hafa séð hann.) Það er ekki nóg að horfa með augunum. Maður verður að mæla, jafnvel fávísar konur með litla vísindahyggju vita að það þarf að mæla. (Gripið fram í.) Mengunaráhrif og eiturverkanir af allri tegund málmiðnaðar, líka af iðnaði hins bjarta málms.
    Það er svo skrýtið að í viðureigninni við þennan málm og í viðureigninni við þennan marg --- ja, ég ætla ekki að hafa fleiri lýsingarorð um það, en af viðureigninni við fjölþjóðafyrirtæki sem standa fyrir málmiðnaði hér á landi virðast menn ítrekað ganga í góðri trú, það stendur alltaf í samningunum, í
góðri trú. Og þeir ganga í þessari góðu trú í hamrana, í samningshamrana og fæstir hafa komið þaðan út með sigur í höndum, því miður, ég veit ekki hvers vegna, hæstv. iðnrh. Við þekkjum það úr þjóðsögunum þegar menn ganga í hamrana. Þeir ganga á vit annarra vætta, þeim er glapin sýn og þeir gleyma mannheimum og skuldbindingum sínum þar. Sumir hafa gerst sekir um mikla blindu eða á þá hefur fallið mikil blinda. Og í það vitnaði hæstv. menntmrh. í ræðu sinni.
    Hæstv. iðnrh. brosti að mér, að ég skyldi ekki þekkja grundvallaratriði efnahagslífsins, að ég væri að tala um atvinnusprengingar og þenslu. Afneitar hæstv. iðnrh. því að það hefur verið vandamál á

undanförnum árum hversu mikil þensla hefur verið á suðvesturhorni landsins í atvinnuuppbyggingu? Um tíma var þetta forkastanleg þensla að mati hagfræðinga vegna þess að hún olli svo mikilli spennu í efnahagslífinu. Og ég hélt að menn í þessari ríkisstjórn hefðu verið að reyna að ná tökum á þenslu í stað þess að auka hana vegna þess að hún hefur verið álitin óæskileg.
    Hæstv. iðnrh. talaði um að þeir 600 karlar sem kynnu að vilja vinna í álverinu ættu konur, þeir væru kvæntir. Þannig áttu þær að njóta góðs af álverinu. Hann talaði líka um ýmis þjónustubrögð og aðra vinnu sem mundi hljótast í tengslum við álvinnsluna. En, hæstv. iðnrh., hvenær verður það? Hvenær er kominn tími til að mæta atvinnuþörfum kvenna? Hæstv. iðnrh. talaði ekkert um aðra þætti, hann talaði ekkert um önnur úrræði sem þessi ríkisstjórn ætlar að grípa til núna eða í náinni framtíð fyrir konur. Það hlýtur að verða í fjarlægari framtíð sem álverið, sem hann hefur í huga, hefur náð þeirri virkni að í kringum það blómstri sú atvinna sem jafnvel konur kunna að njóta góðs af.
    Þegar álmálin voru til umræðu á árinu 1985 var ævinlega verið að tala um dótturfélag og móðurfyrirtæki. Hvernig dettur nokkrum í hug að það sé réttnefni? Ég vek máls á því. Ég fletti því upp. Á árinu 1985 voru 35.329 starfsmenn sem töldust til Alusuisse út um allan heim og hverfandi lítið brot af þeim fjölda voru konur. Þetta voru mestallt karlar þannig að ég lagði til að þetta yrðu kölluð sonarfélög og föðurfyrirtæki, það væri meira réttnefni. Ég held að í uppbyggingunni, bæði á virkjununum og við uppbyggingu álversins og síðan í þessum 645 störfum, eða hvað þau eru nú mörg, þar verði fyrst og fremst störf fyrir karlmenn. Ég er ekki á móti því að byggja upp störf fyrir karlmenn í þessu landi, langt í frá. Auðvitað þurfa þeir að hafa atvinnu og þeir eiga vissulega fjölskyldu flestir, sem betur fer. En það vantar störf fyrir konur og ég spurði: Hvað á að gera fyrir þær? Hvenær er kominn tími til að svara atvinnuþörfum þeirra? Hvenær er hagkerfið orðið nógu djúpt til að rúma þær? Hæstv. ráðherra talaði um að dýpka hagkerfið okkar. Það hef ég aldrei heyrt talað um áður, en það er fróðlegt líkingamál.
    Ég ætla ekki að hafa langt mál um þetta núna, klukkan er orðin margt. En það er eitt sem ég minntist ekki á og ég ætla aðeins að geta um hér. Það er vegna þess að nú fannst hæstv. iðnrh. vera svo gott lag því fyrirtækin hefðu staðið sig svo vel og verðið á áli hefði verið gott. En verðið á áli fer lækkandi og verðið á áli sveiflast, það veit hæstv. iðnrh. og það er mjög óáreiðanleg viðmiðun, því miður. Við búum við grundvallaratvinnuveg sem er sveiflukenndur. Það er okkur mjög erfitt og það veit hæstv. iðnrh. Það er mjög erfitt að treysta sveiflukenndum atvinnuvegi. Það er erfitt að bæta hann upp með öðrum atvinnuvegi sem líka er sveiflukenndur og sem við höfum jafnlitla stjórn á, eins og öllum þeim mörgu þáttum sem gera sjávarútveg sveiflukenndan. Við höfum jafnlítil ráð yfir eftirspurn eftir áli og markaðsverði þess.

    Síðan býst ég við að það sé rétt hjá hæstv. ráðherra að þetta séu nútímaleg fyrirtæki sem vilji gera vel, alla vega ekki vera staðin að allt of mikilli mengun. En það er þeim afar dýrt að setja upp fullkominn mengunarbúnað og þess vegna hafa iðnfyrirtækin í Bretlandi og iðnfyrirtækin í Evrópu þrjóskast við, eins lengi og þau geta, að setja upp búnaðinn af því að það er þeim svo dýrt. T.d. hafa öll Norðurlönd sótt ákaft eftir því að í Bretlandi yrðu settar síur á reykháfa skeytingarlausra iðnrekenda en þeir hafa ekki fengist til þess af því að það er svo dýrt. Ég trúi því að þeir reyni að sleppa eins lengi og þeir komast upp með það. Það sýnir reynslan. Það þarf mjög góða trú til að sannfæra sig um það að þeir geri það ekki. Ég vona að þessi fyrirtæki sem hæstv. iðnrh. hefur komist í tæri við séu af betra tagi. Hann virðist trúa því.
    Ég ætla ekki að hafa fleiri orð um þetta nú. Það verða tækifæri til þess að kynna sér málið í iðnn. Ég held að það verði ekki til þess að við kvennalistakonur skiptum um skoðun. Það verða tækifæri til að ræða málið þegar það kemur aftur hingað til umræðu. Það er miður hversu seint þetta mál kemur fram. Ég veit að hæstv. iðnrh. hefur unnið mjög vandlega að undirbúningi málsins og það er vegna þess að það er honum hjartans mál. En skoðanir okkar eru mjög ólíkar á málinu og jafnvel með allri sinni bjartsýni og góðu trú hefur hann ekki sannfært mig.