Afgreiðsla þingmála
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það hittist þannig á í gærkvöldi að einstakir ráðherrar tóku tíma deildarinnar þegar rætt var um stjfrv. um raforkuver. Við sjálfstæðismenn komumst lítið að í þeim umræðum. Það hafði náðst samkomulag um að venjulegum fundartíma deildarinnar lyki fyrir miðnætti, enda höfðu þingmenn þá setið á fundum frá því kl. 8 um morguninn og í hádeginu og fram í kvöldmatartíma margir hverjir, en fundur var boðaður kl. 8.30 í gærkvöldi. Síðan voru fundir boðaðir á nýjan leik kl. 8 í morgun.
    Við sjálfstæðismenn brugðumst vel við þeirri málaleitan meiri hlutans að koma ekki í veg fyrir að frv. um raforkuver yrði tekið til athugunar í iðnn. þessarar deildar nú í morgun þegar hæstv. iðnrh., og ég tala nú ekki um formaður þingflokks Alþfl., fóru fram á það að við féllum frá orðinu, að ekki yrðu eðlilegar umræður um þetta mál hér í deildinni. Ég á erfitt með að trúa því, herra forseti, að þetta frjálslyndi okkar sjálfstæðismanna, þessi greiðvikni og skilningur okkar á því að þingstörf geti gengið með eðlilegum hætti verði ekki til þess að þetta frv. sé fyrst á dagskránni núna og umræður geti haldið áfram. Það er náttúrlega algerlega óviðunandi ef hæstv. forseti ætlar að fara að taka önnur mál fyrir núna og gefur stjórnarandstöðunni ekki tækifæri til þess að spyrja hæstv. ráðherra út úr. Þeir komu þannig fram í gær að þeir töluðu tveim tungum og auðvitað verðum við að fá svigrúm til þess nú og það strax í upphafi fundar að ræða við þá um það hvernig samstaðan sé í ríkisstjórninni um þetta mál. Ég óska jafnframt eftir því, herra forseti, að hæstv. forsrh. verði viðstaddur þannig að hann geti þá fyllt upp í eyðurnar ef hvorugur fagráðherranna hefur þekkingu til þess að skilja hið flókna laumuspil sem einkennt hefur starfshætti ríkisstjórnarinnar upp á síðkastið.
    Ég þarf ekki að taka það fram, herra forseti, að allt þetta laumuspil, þessi tvískinnungur í störfum hæstv. ríkisstjórnar kemur okkur sjálfstæðismönnum ekki á óvart eftir þann viðskilnað og eftir þá reynslu sem við höfðum af sumum ráðherrum sem sátu með Sjálfstfl. í síðustu ríkisstjórn og ástæðulaust er að tíunda að þessu sinni.