Tilraunastöð Háskólans í meinafræði
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Frsm. menntmn. (Eiður Guðnason):
    Herra forseti. Menntmn. deildarinnar hefur fjallað um frv. til laga um tilraunastöð Háskóla Íslands í meinafræði að Keldum. Til viðræðna við nefndina komu meðal annarra Brynjólfur Sandholt yfirdýralæknir, Guðmundur Pétursson, forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands að Keldum, Guðmundur Eggertsson, prófessor við raunvísindadeild Háskólans og Helgi Valdimarsson, varadeildarforseti læknadeildar Háskóla Íslands. Þá var lögð fram að ósk nefndarinnar álitsgerð frá ráðgjafarþjónustu Lagastofnunar Háskóla Íslands um stöðu forstöðumanns tilraunastöðvarinnar.
    Frv. gerir sem kunnugt er ráð fyrir því að héðan í frá verði ráðið tímabundið í stöðu forstöðumanns og í nefndinni vöknuðu umræður um það hvort sá starfsmaður sem þessu starfi gegnir kynni við slíka breytingu að eiga rétt til skaðabóta af hálfu ríkisins. Niðurstaða Lagastofnunar, prófessoranna Björns Þ. Guðmundssonar og Þorgeirs Örlygssonar, var í stuttu máli þessi, með leyfi forseta vitna ég til skjalsins frá þeim:
    ,,Löggjafinn getur gert breytingu á réttindum ríkisstarfsmanna með þeim hætti sem umrætt frv. gerir ráð fyrir. En séu með því skert þau lögvörð réttindi sem starfsmaður öðlaðist sjálfkrafa við skipun í starf sitt verður ríkið að svara bótum fyrir. Meðal lögvarinna réttinda ríkisstarfsmanns sem skipaður er í starf, í þessu tilviki forstöðumaður Tilraunastöðvar Háskóla Íslands í
meinafræði að Keldum, er rétturinn til að gegna starfi meðan aldur og heilsa leyfa, enda brjóti hann hvorki af sér í starfi né missi embættis- eða starfsgengi. Þessum rétti verður skipaður ríkisstarfsmaður ekki sviptur, hvorki með stjórnsýsluákvörðun né lögum, bótalaust. Við ákvörðun bóta yrði væntanlega við það miðað að viðkomandi starfsmaður yrði a.m.k. jafnsettur þeim sem vikið hefur verið úr starfi með ólögmætum hætti eða orðið hefur fyrir því að staða hans er lögð niður, en um það efni eru ákvæði í starfsmannalögum. Telja verður að starfsmaður eigi í þessu tilviki bæði rétt til bóta fyrir missi starfsöryggis og fyrir fjártjón. Við ákvörðun fjártjónsins yrði væntanlega byggt á svipuðum sjónarmiðum og í 3. mgr. 11. gr. starfsmannalaganna. Líklega glatast bótaréttur ekki þó að starfsmaður hafni tímabundinni ráðningu sem honum býðst með sérstökum lögum í stað æviráðningar samkvæmt skipun í starf.``
    Þetta er sem sagt álit Lagastofnunar. Það er auðvitað enginn dómstólaúrskurður um málið, en þetta er álit þeirra manna sem glöggt til þekkja. Í rauninni var tímabært að slíks álits yrði aflað þar sem það gerist nú æ algengara að störfum sem áður var æviráðið í eða skipað til lífstíðar, eða því sem næst, sé breytt í tímabundin störf. Venjulegast er það þá gert við mannaskipti þannig að mál sem þessi koma ekki til álita. Þess vegna held ég að það hafi verið af hinu góða að nefndin fékk þetta álit.
    Samkvæmt frv. er gert ráð fyrir að forstöðumaður

Tilraunastöðvarinnar verði ráðinn til sex ára í senn með heimild til endurráðningar. Nefndinni þykir rétt og eðlilegt að sá sem hefur gegnt þessari stöðu eigi kost á að gegna henni áfram í ákveðinn tíma. Með hliðsjón af því hefur nefndin ákveðið að flytja brtt. við frv. og er sammála um það og mælir með samþykkt þess með þeirri breytingu. Breytingin felur það í sér að við frv. bætist ákvæði til bráðabirgða sem hljóðar svo:
    ,,Forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar, sem starfar þegar lög þessi taka gildi, heldur forstöðumannsstöðunni í allt að sex ár frá gildistöku laganna.``
    Þetta er tillaga menntmn. Undir nál. rita allir nefndarmenn.