Tilraunastöð Háskólans í meinafræði
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Guðmundur Ágústsson:
    Virðulegi forseti. Ég sat ekki í menntmn. og hef bara lauslega kynnt mér efni frv. En það sem fékk mig til þess að standa hér upp í ræðustól er það sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. og mikið var fjallað um í nefndinni, ráðningarmál starfsmanna ríkisins.
    Það er alveg rétt sem fram kemur hjá hæstv. menntmrh. að ráðningarmálin eru því miður ekki í nógu góðu lagi en þó er nú verið með frv. sem hefur verið lagt fram í þinginu til kynningar, frv. til laga um Stjórnarráð Íslands, að taka fyrsta skrefið í þá átt að breyta ráðningarkjörum opinberra starfsmanna. Þar er verið að ráðast á garðinn þar sem hann er hæstur. Það er byrjað ofan frá. Það er byrjað á því að taka fyrir ráðningarmál starfsmanna ráðuneyta. Þar er gert ráð fyrir því að ráðuneytisstjóri verði ráðinn til sex ára í senn en aðrir starfsmenn ráðuneyta annaðhvort til ákveðins tíma eða með þriggja mánaða uppsagnarfresti.
    Það er mikil nauðsyn á því að taka til endurskoðunar, með þetta markmið í huga, lögin um opinbera starfsmenn og breyta þeim á þann hátt sem þarna er gert ráð fyrir, að opinberir starfsmenn verði ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti eða til ákveðins tíma. Þetta hefur tíðkast nokkuð, sérstaklega hjá sveitarfélögum, og ég sé ekki af hverju önnur kjör ættu að vera hjá ríkisvaldinu en sveitarfélögum.
    Það er líka rétt sem fram kom hjá hæstv. menntmrh. að í einstökum lögum er kveðið á um ákveðinn ráðningartíma. Til viðbótar því sem ráðherrann nefndi má nefna bankalögin, en þar er gert ráð fyrir að bankastjórar verði ráðnir til sex ára í senn, og fleiri lög. Í vissum tilvikum má segja að þarna sé um rétta stefnu að ræða, að ráða til ákveðins tíma, en almennt á þessi regla ekki að gilda.
    Þegar reglan um æviráðningu var sett var það til að tryggja embættismenn gagnvart ofurvaldi konungs eða einhvers slíks sem var með einræðisvald þannig að æviráðning er arfleifð sem ekki á við í dag. Núna er þjóðfélagsþróun á þann veg að opinberir starfsmenn þurfa ekki á þessari vernd að halda sem þeir þurftu og ég sé ekki af hverju ríkisstarfsmenn eigi að njóta einhverra sérstakra kjara umfram almenna launþega.
    Ég minnist þess að hjá heilu fyrirtækjunum er sagt upp til hagræðingar. Í ríkiskerfinu er slíkt hins vegar ekki fyrir hendi. Og af hverju, er þá spurt. Ég er þeirrar skoðunar að lög þurfi að vera þannig að ríkisvaldið eigi að geta losað sig við starfsmenn, og þá oft óhæfa starfsmenn, og einnig að meiri sveigjanleiki eigi að vera í stjórnsýslunni þannig að hægt sé að færa starfsmenn til. En þessi sveigjanleiki er því miður ekki til í kerfinu eins og það er í dag.
    Þetta vildi ég að kæmi fram núna þar sem vakið var máls á þessu sérstaka atriði og ég skora á þann ráðherra sem hér situr að vekja máls á því innan ríkisstjórnarinnar hvort ekki sé kominn tími til að endurskoða lögin um opinbera starfsmenn með einmitt þetta í huga, að starfsmenn í ríkisþjónustu verði ráðnir með þriggja mánaða uppsagnarfresti.

    Ég þakka hæstv. menntmrh. annars fyrir að hafa vakið máls á þessu.