Tilraunastöð Háskólans í meinafræði
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég geri mér að sjálfsögðu grein fyrir því að þetta mál væri ekki hér til umræðu nú ef sjálfstæðismenn hefðu ekki fallist á að orkumálin yrðu rædd í iðnn. í morgun því að við erum hér að ræða um álitamál sem hæstv. forseta átti að vera kunnugt að tæki nokkurn tíma. En það virðist vera þannig að hæstv. forseti hafi, og ég tala nú ekki um hæstv. iðnrh. eða formaður þingflokks Alþfl., skyndilega misst áhuga á raforkumálunum úr því að þingnefndir hafa tekið til starfa án þess að málinu sé vísað til 2. umr. og nefndar. Þetta sýnir auðvitað hversu varhugavert það er fyrir stjórnarandstöðu að verða við tilmælum af þessu tagi frá meiri hlutanum.
    Ég hlýt líka að ítreka það sem ég sagði áður, að fjarvera hæstv. forsrh. hefur orðið til þess að tefja fyrir eðlilegum umræðum hér í deildinni.
    Ég hlýt, herra forseti, að verða að lýsa yfir sérstakri undrun minni á yfirlýsingu hæstv. menntmrh. hér áðan þegar hann var að láta í ljós þá skoðun sína að þetta frv. væri ekki afgerandi um það hver verði staða forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar á Keldum ef frv. verður samþykkt og verður að lögum eins og það er hér fyrir framan mig á þskj. 751. Í 5. gr. frv. stendur skýrum stöfum:
    ,,Við Tilraunastöðina starfar forstöðumaður sem skal hafa lokið háskólaprófi í læknisfræði dýra eða manna, líffræði eða öðrum skyldum greinum sem eru á rannsóknarsviði stofnunarinnar. Hann er jafnframt prófessor við læknadeild Háskóla Íslands með takmarkaðri kennsluskyldu samkvæmt nánari ákvörðun háskólaráðs.``
    Ef Alþingi samþykkir frv. eins og það liggur hér fyrir er auðvitað ljóst að Alþingi lítur svo á, og ég lít svo á, að æskilegt sé og verði Háskólanum og þeirri kennslu sem þar er til styrktar ef þeir nemendur sem þar eru í læknadeild eiga kost á að njóta fyrirlestra forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar
á Keldum. Sá maður sem nú gegnir því embætti er gamalreyndur í starfi og nýtur fyllsta trausts sem vísindamaður og þess vegna er fráleitt að hugsa sér að hann sé ekki til þess bær að gegna prófessorsembætti við Háskóla Íslands á borð við hvern annan.
    Ég vil í þessu sambandi taka hliðstæðu. Það var að vísu svo um dómara í Hæstarétti sem nýlega lét af störfum að hann hafði ekki fengið málflutningsleyfi fyrir réttinum en rétturinn leit svo á að þess þyrfti ekki með. Hæfileikar hans og hæfni til þess að reka mál fyrir Hæstarétti væru hafin yfir allan vafa. Eins hlýt ég að álíta það hafið yfir allan vafa að jafnþrautreyndur vísindamaður og Guðmundur Pétursson eigi ekki að þurfa að ganga undir einhverja naflaskoðun í Háskólanum eftir að Alþingi hefur slegið því föstu að hann eigi áfram að vera forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar á Keldum.
    Ég vek líka sérstaka athygli á því að fulltrúar Háskóla Íslands komu til fundar við menntmn. og þeir höfðu engar athugasemdir við þetta atriði að gera og var það þó svo þegar þeir komu á fund nefndarinnar

að ekki hafði verið vakin athygli á því að þörf væri á ákvæði til bráðabirgða. Eins og frv. leit þá út varð að ganga út frá því að starfskjör yfirmanns Tilraunastöðvarinnar héldust óbreytt.
    Ég get auðvitað ekki fallist á það sem innlegg í þetta álitamál þegar hæstv. menntmrh. segir að það eigi að vera á valdi forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar á Keldum hvort hann kjósi eða kjósi ekki að sækja um prófessorsstöðu við Háskóla Íslands. Frv. felur þvert á móti í sér að Alþingi, ef greinin verður samþykkt og frv. verður samþykkt eins og það liggur nú fyrir, telur feng að því að þessi forstöðumaður miðli reynslu sinni við nemendur læknadeildar Háskóla Íslands. Það á ekki að vera undir hans duttlungum komið hvort hann kjósi eða kjósi ekki að rækja þá kennsluskyldu sem hér er gert ráð fyrir að prófessor hafi.
    Í þessu samhengi vek ég einnig athygli á því að eins og frv. liggur hér fyrir og þó svo að brtt. verði samþykkt er öldungis ljóst að forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar hefur rétt til að sækja um endurráðningu við Tilraunastöðina á Keldum og ég get ekki fallist á það, herra forseti, að réttarstaða hans til þess að sækja um þetta embætti breytist að sex árum liðnum þannig að svo beri að líta á að þá skuli hann lúta þeim almennu reglum sem í frv. segir og muni af þeim sökum eiga kost á tólf ára ráðningartíma til viðbótar við þau sex ár sem í bráðabirgðaálitinu felast. Þá erum við að tala um átján ár og þá held ég satt að segja að ástæðulaust sé að vera með allt þetta vesen.
    Ég vil að þetta sé alveg skýrt og auðvitað hefur það enga merkingu þó einhverjir þingmenn komi hér upp í þennan ræðustól og lýsi yfir að þeir skilji texta 5. gr. með öðrum hætti. Textinn liggur fyrir í þingskjalinu, textinn er afdráttarlaus og það er viðtekinn skilningur lögfræðinga, eða ekki veit ég betur, að yngri lög ryðji eldri lögum úr vegi. Ef hugmynd þingsins væri sú að forstöðumaðurinn kæmist hjá því að hafa kennsluskyldu við Háskólann er
óhjákvæmilegt að taka það skýrt fram í ákvæði til bráðabirgða. Ég held að mönnum hljóti að vera þetta ljóst.
    Ég veit að vísu að Háskóli Íslands leggur mikið upp úr því að vera sem sjálfstæðastur í sínum rekstri og veit að hann hefur mikinn metnað í þeim efnum en ég hygg á hinn bóginn að umsögn Háskólans um frv. feli í sér að háskólaráð og Háskólinn sem stofnun sé þegar búinn að gera það upp við sig að forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar á Keldum hefur með starfi sínu sýnt fram á að hann sé hæfur til að vera kennari við læknadeild Háskóla Íslands ekki síður en hver annar. Það er því að minni hyggju í senn, mér liggur við að segja móðgandi við þann mann sem þessu embætti hefur gegnt og lítillækkandi fyrir Háskólann ef hann hefur annan skilning á þessu atriði. Háskólinn hefði í umsögn og umfjöllun sinni um frv. tekið miklu fastar á þessu atriði ef hann hefði aðrar skoðanir á hæfni þess manns sem nú er forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar á Keldum en ég hef hér lýst. Við

erum þess vegna, herra forseti, ekki að tala um efnisatriði, við erum ekki að tala um annað en þá einhvern dauðan bókstaf, einhvern tilgangslausan metnað sem engu skiptir og menningarstofnun á ekki að hafa.
    Ég vil í annan stað, herra forseti, vekja athygli á því að í nefndinni var ekki fjallað um þá réttarstöðu sem forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar á Keldum hefði, sá maður sem því embætti gegnir nú, ef hann kysi. Ef skilningur hæstv. ráðherra væri réttur, að hann yrði ekki sjálfkrafa prófessor við Háskólann, þá var það ekki rætt í nefndinni hver réttarstaða þessa forstöðumanns yrði. Í 1. mgr. 5. gr. segir svo: ,,Um ráðningu hans [þ.e. forstöðumanns] fer að öðru leyti eins og segir í háskólalögum um prófessora og getur hann haldið prófessorsembætti þótt hann láti af störfum forstöðumanns.``
    Mér virðist einsýnt ef skilningur hæstv. ráðherra er réttur að sá maður sem nú gegnir forstöðumannsembætti Tilraunastöðvarinnar eigi ekki kost á neinni slíkri svokallaðri æviráðningu ef hann lætur af störfum eftir sex ár og svo fer um hans embættisrekstur sem hæstv. menntmrh. hefur lýst.
    Hér hefur nokkuð verið rætt um það álitamál hvort rétt sé að ráðningartími æðstu embættismanna sé tímabundinn eða ekki. Það eru auðvitað mörg rök sem hníga að því að svo skuli vera, aðrir hafa verið annarrar skoðunar og læt ég það álitamál liggja hér í vangaveltum mínum nú en vil einungis vekja athygli á því að launakjör, starfskjör æðstu embættismanna ríkisins, hljóta að koma til endurskoðunar ef við sláum því föstu að þeir sitji aðeins tímabundið í slíkum embættum. Margir þeir sem slík embætti hafa skipað á liðnum árum hafa haft rekstur með höndum í sinni starfsgrein sem hefur tekið þá mörg ár að byggja upp og auðvitað er ekki við því að búast að menn séu reiðubúnir til að hlaupa úr eða gefa slíkar rekstur upp á bátinn ef þeir mega búast við að sitja skamman tíma í embætti og eiga ekki kost á góðum launakjörum sem ekki eru mjög fjarri því sem þeir hafa vanist þar sem þeir hafa áður verið.
    Ég vil líka, herra forseti, vekja athygli á því að spurning um tímabundna ráðningu tekur ekki aðeins til æðstu embættismanna. Það má auðvitað hugsa sér t.d. að prófessorar við Háskóla Íslands verði ráðnir tímabundinni ráðningu, svo að ég taki eitthvert dæmi, en hér er því sem sagt slegið föstu að úr því að forstöðumaðurinn skuli jafnframt hafa kennsluskyldu við læknadeild Háskóla Íslands sé eðlilegt að hann fái að halda prófessorsembætti þótt hann láti af störfum. Þetta er auðvitað mjög eftirtektarverð niðurstaða og hlýtur að vekja upp spurningar um það hvernig það sé hugsað að prófessorum fjölgi með þeim hætti í læknadeild.
    Ég er þeirrar skoðunar að launakjör forstöðumanns Tilraunastöðvarinnar á Keldum hljóti að breytast í grundvallaratriðum eftir að hin nýja skipan verður upp tekin og vil í þeim efnum benda á það sem hliðstæðu hvernig staðið hefur verið að ráðningu og launakjörum þeirra yfirlækna sem jafnframt hafa kennsluskyldu við

læknadeild Háskóla Íslands.
    Ég hafði um það forgöngu, gerði það að tillögu minni, að álitamálinu um það hver væri réttarstaða þeirra embættismanna sem fengju nú tímabundna ráðningu í stað æviráðningar áður yrði vísað til lagadeildar Háskóla Íslands í þetta skipti. Ég bað jafnframt um upplýsingar um það frá lagadeild Háskólans hvers eðlis álitsgerðir Lagastofnunar Háskólans væru, hvort svo bæri að líta á að lagadeild Háskólans stæði að slíkri álitsgerð eða hvort álitsgerðin væri eingöngu á ábyrgð þeirra manna sem undir álitsgerðina skrifuðu og Háskólanum óviðkomandi að öðru leyti. Það kom í ljós að á bak við þetta álit er eingöngu athugun þeirra tveggja prófessora sem undir það skrifuðu. Þetta gefur auðvitað tilefni til þess fyrir þingdeildir og Alþingi að íhuga hvort ekki sé skynsamlegt að gera það jöfnum höndum, þegar um álitsgerðir er beðið um álitamál sem hér eru til umfjöllunar, að leita út á hinn frjálsa markað til þeirra lögmanna t.d. sem sérstaklega hafa verið í tilteknum málaflokkum, eru sérfræðingar þar á sínu sviði, fremur en að sækja til embættismanna um slíkar álitsgerðir. Ég hef ekki aflað mér upplýsinga um hvað það kostar Alþingi að fá álitsgerð eins og þá sem ég bað um.
    Að síðustu vil ég aðeins segja að það er auðvitað deginum ljósara að embættismaður sem æviráðningu hefur hlýtur að hafa a.m.k. sambærilega réttarstöðu við þann sem með óréttmætum hætti er sagt upp embætti eða ef embætti manns er lagt niður. Um þetta held ég að ekki sé ágreiningur. Og ég vil aðeins vekja athygli á því í lokin að nýfallinn er í Hæstarétti dómur um það álitamál hvort einstaklingur sem hafði verið forstöðumaður ríkisstofnunar eigi rétt á, ég veit ekki hvort ég á að segja skaðabótum eða bótum getum við sagt, launabótum, þó svo hann hafi orðið forstjóri þess fyrirtækis sem stofnað var á rústum hins opinbera fyrirtækis. Munurinn var eingöngu sá að opinberum rekstri var breytt í einkarekstur, forstöðumaður varð að forstjóra. Hæstiréttur hefur fellt úrskurð um það að þessi maður eigi rétt á biðlaunum sem ég kann ekki að fara með hvort var sex mánuðir eða eitt ár.
    Herra forseti. Ég held að það sé óhjákvæmilegt úr því að hæstv. menntmrh. hefur annan skilning á innihaldi 5. gr. frv. en ég sem nefndarmaður í menntmn. að málinu verði á nýjan leik vísað til menntmn. þannig að hún geti gert upp við sig hvort hún kjósi að gera það orðalag sem hér er skýrara og hljóti að verða að taka tillit til þess hvaða skoðun hún hefur á því hvort forstöðumaður Tilraunastöðvarinnar á Keldum skuli sjálfkrafa verða prófessor við læknadeild Háskólans með takmarkaðri kennsluskyldu eða hvort svo beri að líta á að það sé sett í hans vald.
    Ég get ekki séð að Alþingi geti sætt sig við þá niðurstöðu að það sé komið undir duttlungum ráðherrans hvernig með það mál verður farið.