Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Þinghald hér í Ed. hefur verið með þeim hætti í dag að fundur hófst með því að farið var að ræða önnur efni en frv. um raforkuver. Ég óskaði eftir því að hæstv. forsrh. yrði við umræðuna og að athuguðu máli er nauðsynlegt að formaður Alþb. verði einnig við umræðuna. Við vitum að djúp gjá hefur myndast milli formanns Alþb. og fyrrv. formanns Alþb., Svavars Gestssonar, og vitum að þeir tala ekki einum munni og af þeim sökum er nauðsynlegt að fá staðfestingu á því hjá formanni Alþb. að þau ummæli sem hæstv. menntmrh. viðhafði hér í gær séu skoðun þess Alþb. sem Ólafur Ragnar Grímsson þykist vera formaður fyrir.
    Ég vil vekja athygli á því að fregnir hafa borist um að ráðherrar muni hittast á fundi nú klukkan fimm til þess að ræða stjórn fiskveiða og freista þess að ná samkomulagi í því máli. Ég hlýt að fara fram á það, herra forseti, þar sem þetta mál sem hér er til umræðu er mjög viðkvæmt og þar sem óhjákvæmilegt er að bera saman ummæli einstakra ráðherra og fá jafnframt úrskurð hæstv. forsrh. um það hvernig hann líti á þær deilur sem upp hafi komið, og líka vegna mikilvægis málsins, að hæstv. forseti sjái svo til að þessi umræða geti farið fram viðstöðulaust án þess að verið sé að trufla umræðurnar. Ég mælist þess vegna til þess, ef svo er að ráðherrar ætla að mæta til annars fundar klukkan fimm, að umræðan geti hafist í upphafi fundar á morgun og þá gefist svigrúm til þess að inna einstaka ráðherra eftir svörum við þeim álitaefnum sem upp eru komin og sýna fram á að í ríkisstjórninni er ekki eining um það frv. sem var hér til umræðu, né um byggingu álvers og þær forsendur sem leggja beri til grundvallar við viðræður við Atlantal-hópinn um álver hér á landi.