Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Fjármálaráðherra (Ólafur Ragnar Grímsson):
    Virðulegi forseti. Það er óneitanlega nokkuð skemmtilegt þegar þingmenn Sjálfstfl. koma hér í umræðunni og þykjast vera hinir vitru menn. ( GHG: Við erum það. Það er ekkert að þykjast.) Já, trúa því kannski að þeir séu hinir vitru menn í gerð samninga við erlend stórfyrirtæki um áliðju eða annan stóriðnað á Íslandi. Því hver er ferill Sjálfstfl. í þessu máli? Staðreyndin er sú að þrír iðnaðarráðherrar Sjálfstfl. glímdu á síðasta áratug við þetta verkefni og náðu engum árangri. Ég sat í stjórn Landsvirkjunar þennan tíma, á árunum 1983--1988, og átti þess vegna ágætlega kost á því að fylgjast með þessum óburðugu tilraunum ráðherra Sjálfstfl. til þess að ná einhverjum árangri á þessu sviði. Tvisvar sinnum sendi iðnaðarráðherra Sjálfstfl. inn í stjórn Landsvirkjunar frv. um virkjun Búrfells vegna þess að hann var ákveðinn í því að leggja frv. um virkjun Búrfells fyrir Alþingi til undirbúnings byggingu álvers á Íslandi. Tvisvar sinnum eyddi stjórn Landsvirkjunar dýrmætum tíma sínum til þess að fara yfir þau frv. og starfsmenn fyrirtækisins lengi. Síðan var þessum frv. stungið niður í skúffur hjá ráðherrum Sjálfstfl. og komu aldrei fram á Alþingi. Iðnaðarráðherrar Sjálfstfl. höfðu nefnilega ekki dug til þess að leggja fyrir þingið þau frv. sem þeir höfðu óskað eftir að Landsvirkjun gengi frá til undirbúnings virkjana vegna álvera.
    Menn eru kannski búnir að gleyma því, ég rifja það nú bara upp svona hér til skemmtunar, að meðan Sverrir Hermannsson, þáv. iðnrh. Sjálfstfl., var í essinu sínu í iðnrn. þóttist hann vera í ítarlegum viðræðum við Kínverja um byggingu álvers á Íslandi. Það komu miklar fréttir af þessum glæsilegu viðræðum Sjálfstfl. við Kínverja um byggingu álvers á Íslandi. Það eru allir búnir að gleyma þessu í dag. Það eru sem sé allir búnir að gleyma þessum 5--6 árum þegar Sjálfstfl. fór með forræði þessara mála og náði engum árangri, skilaði satt að segja málunum þannig af sér að tvö af þeim fjórum fyrirtækjum sem
Sjálfstfl. valdi til viðræðna um málið gengu frá viðræðunum, fyrst austurríska fyrirtækið og síðan Alusuisse. Ferill Sjálfstfl. er þess vegna endalausar, árangurslausar tilraunir þriggja iðnaðarráðherra Sjálfstfl. á árunum 1983--1988 og skilar málunum þannig frá sér að tvö af fjórum fyrirtækjum ganga burt. Svo koma þessir menn hér í umræðunum og þykjast vera einhverjir sérstakir snillingar --- og erum það, greip hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson fram í til að árétta sérstaklega skilninginn í samningum við erlenda aðila. Satt að segja hélt ég nú að Sjálfstfl. áttaði sig nægilega á sínum eigin ferli í þessum málum til þess að hann mundi hafa hljótt um sig í þessari umræðu vegna þess að enginn flokkur hefur skilað jafnárangurslausu verki í þessum málum og Sjálfstfl. á undanförnum 10--15 árum. Það er staðreynd málsins, hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson. Var það vegna þess að Sjálfstfl. kunni ekki viðræðurnar? Var það vegna þess að hinir erlendu aðilar kynnu ekki að meta hina íslensku viðræðuaðila eða var það vegna

þess að málin væru ekki nægilega vel undirbúin af hálfu Íslands eða var það eitthvað annað? Hver var skýringin? Hver er skýringin á árangursleysi Sjálfstfl. í þessum málum? Það væri vissulega tilefni til þess að spyrja um það hér fyrst þingmenn Sjálfstfl. kjósa að fara í umræðuna með þessum hætti.
    Staðreyndin er nefnilega sú að það hefur engin ríkisstjórn á Íslandi í nærri 20 ár náð jafnlangt í árangursríkum viðræðum við erlenda aðila um þessi efni eins og núv. ríkisstjórn. Og það er kannski ósköp eðlilegt að Sjálfstfl. líði illa þegar hann þarf að horfast í augu við þá staðreynd. ( SalÞ: Er það vegna stuðnings Alþb.?) Já, það er m.a. vegna þess að Alþb. hefur í þessari ríkisstjórn haldið fram ýmsum af þeim grundvallarsjónarmiðum sem Alþb. hefur haft í þessu máli og hafa hlotið stuðning ekki bara samstarfsaðila okkar í þessari ríkisstjórn heldur einnig hinna erlendu viðræðuaðila. Enda kom það fram í lýsingu hæstv. forsrh. hér áðan hver sá grundvöllur er.
    Þess vegna væri í sjálfu sér algerlega óþarfi fyrir mig að bæta hér einhverju sérstöku við vegna þess að bæði í ræðu hæstv. menntmrh. og forsrh. sem svar við spurningum sem var líka beint til mín kom alveg fram það sem þarf að koma fram í málinu og er í sjálfu sér engu þar við að bæta.
    Eðlilega hefur þingflokkur Alþb. lagt áherslu á það að samningar verði metnir eftir orkuverði, eftir sköttum, eftir umhverfisverndarákvæðum o.s.frv., eða er það kannsi afstaða Sjálfstfl. að það eigi bara að semja hvað sem það kostar? Er það kannski niðurstaða Sjálfstfl. eftir rúmlega fimm ára árangurslausar tilraunir flokksins sjálfs í þessum málum að hann sé kominn á það stig í málinu að hann vilji bara semja hvað sem það kostar? Er það afstaða Sjálfstfl.? Kannski maður fari nú að spyrja Sjálfstfl. út úr í þessum málum vegna þess að það er auðvitað athyglisvert að þessir talsmenn Sjálfstfl. hér í umræðunum hafa forðast það eins og heitan eld að lýsa afstöðu Sjálfstfl. (Gripið fram í.) Ja, það getur verið þín prívatafstaða, en það hefur ekki verið afstaða Sjálfstfl. Þú treystir þér a.m.k. ekki til þess að tala fyrir Sjálfstfl. í þessu máli. Kannski er enginn maður hér í þessari deild sem
treystir sér til að tala fyrir Sjálfstfl. í þessu máli, hann hefur a.m.k. ekki gefið sig fram enn.
    Staðreyndin er auðvitað sú að ríkisstjórnin er fullkomlega sammála um það að í þessu máli þarf að leggja ríkar áherslur á orkuverðið, á skattana, á íslensk lög, á íslenska dómstóla, á íslenskt réttarfar, á íslenskar umhverfisverndarkröfur o.s.frv. ( HBl: Ráðherrann er farinn að vella eins og kratasteggur.) Hv. þm. má kjósa því hvaða orð sem hann vill. Ég er einfaldlega að lýsa því sem hefur komið fram hjá öllum þeim ráðherrum sem hafa talað í þessu máli. Það er þess vegna alveg út í hött fyrir hv. þm. Sjálfstfl. að reyna að fjalla um málið á þessum grundvelli. En ég skil hins vegar að þeir reyni það vegna þess að þeir hljóta að hafa það sem meginmarkmið í þessari umræðu að koma í veg fyrir að menn fari yfir sögu Sjálfstfl., hið árangurslausa

forræði Sjálfstfl. í þessu máli í fimm ár. Því að sú staðreynd blasir nú þegar við að núverandi ríkisstjórn hefur náð miklu lengra í samningum við hin erlendu fyrirtæki um þessi efni út frá íslenskum hagsmunum en þrír iðnaðarráðherrar Sjálfstfl. á árunum 1983-1988.
    Þess vegna er það mesti misskilningur hjá hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni að málið sé í einhverju uppnámi. Málið er í þeim eðlilega farvegi að það er verið að ræða við hina erlendu aðila um orkuverðið, um skattana, um umhverfisverndarkröfurnar, um staðsetninguna og annað það sem ræður því hvort menn meta samninginn hagstæðan eða ekki. Ég hélt satt að segja að það þyrfti ekki að taka það fram hér --- en það er greinilega nauðsynlegt gagnvart þeim sjónarmiðum sem hafa komið fram hjá þingmönnum Sjálfstfl. --- að auðvitað er það mjög varasamt út frá íslenskum hagsmunum að þykjast vera of ákafur í það að ná samningum hvað sem það kostar því að þá hljóta eðlilega hin erlendu viðskiptafyrirtæki, sem fyrst og fremst meta þetta út frá eigin arði og eigin fjárhag, að ganga lengra og lengra í sinni kröfugerð til þess að þeir nái bara meiru og meiru út úr þessu.
    Auðvitað verður að halda á málinu af fullri reisn út frá hagsmunum Íslendinga og gera hinum erlendu aðilum skýra grein fyrir því að það eru takmörk fyrir því hvað Íslendingar geta samþykkt í þessum efnum. Það er kjarni málsins. En sjálfstæðisflokksþingmennirnir hafa auðvitað ekki reitt hér fram nein slík efnisatriði í umræðunni. Og ef það ætti að skilja eitthvað á þeirra ræðum er það helst það að það eigi bara að semja hvað sem það kostar. En auðvitað hljóta allir að átta sig á því að í slíkum viðræðum eru það miklir hagsmunir í húfi út frá sjónarmiðum Íslands að það er nauðsynlegt frá íslenskum sjónarhóli að halda þannig á málum að hinir erlendu aðilar geri sér skýra grein fyrir því að beggja hagur verður að vera virtur í þessum efnum. Og þeir verða að gera sér grein fyrir því hverjar eru efnahagslegar og aðrar kröfur Íslendinga í þeim viðræðum. Ég tel að þau fyrirtæki sem nú er rætt við hafi gengið miklu lengra nú þegar til móts við hin íslensku sjónarmið en t.d. Alusuisse, sem var nú eitt helsta ástfóstur Sjálfstfl. í þessu máli, var reiðubúið að ganga. Kannski er ein af skýringunum á því hvers vegna Alusuisse gekk brott frá viðræðunum að það var ekki reiðubúið að ganga jafnlangt til móts við hina íslensku hagsmuni í málinu og þau erlendu fyrirtæki sem nú er rætt við.
    Þess vegna er í sjálfu sér engin þörf á því að fara yfir málið með þeim hætti sem tveir síðustu ræðumenn Sjálfstfl. hafa gert hér vegna þess að það hefur komið skýrt fram, bæði í þeirri samþykkt sem þingflokkur Alþb. gerði, í þeirri ræðu sem menntmrh. flutti hér, í þeirri ræðu sem iðnrh. flutti þegar hann mælti fyrir málinu og í ræðu forsrh. hverjar þær eðlilegu áherslur eru sem settar eru fram í þessu máli á Íslandi.
    Við höfum lagt á það áherslu, eins og kemur fram í samþykkt þingflokks Alþb., að álverið væri staðsett utan höfuðborgarsvæðisins og höfum talið það

mikilvægan þátt. Ég tek hins vegar eftir því að Sjálfstfl. hefur ekki tekist að gera það mál upp við sig. Sjálfstfl. sem flokkur hefur enga afstöðu í því máli, hefur ekki þorað að svara þeirri spurningu enn sem komið er. Það sem hefur gerst er það að einstakir þingmenn Sjálfstfl. hafa klofið sig út úr röðum þingflokksins og flutt um það persónulega ályktun hér í þinginu, en þingflokkurinn, Sjálfstfl., hefur enga afstöðu í málinu. Það er auðvitað mjög merkilegt að Sjálfstfl. sem hefur viljað telja sig forustuflokk í þessu máli hefur gefist upp í staðsetningarmálinu. Hann hefur gefist upp á því að hafa nokkra skoðun á því hvar álverið eigi að vera staðsett. Einstakir þingmenn Sjálfstfl. hafa tekið afstöðu til þess, m.a. hv. þm. Halldór Blöndal og hv. þm. Egill Jónsson, og það ber að virða þá fyrir það, en hinir í þingflokki Sjálfstfl. hafa ekki þorað að taka þá afstöðu og það liggur ekkert fyrir um það hvort þingmenn Sjálfstfl. í þessari hv. deild eru sammála í staðsetningarmálinu eða ekki. Satt að segja bendir allt til þess að Sjálfstfl. í þessari hv. deild sé þverklofinn í því hvar álverið eigi að vera staðsett.
    Það er satt að segja alveg stórfurðulegt að þessir þingmenn skuli svo vera að koma hér upp og telja sig vera í stöðu til þess að deila á Alþb. ( SalÞ: Barnalegar tilraunir til að reyna að vekja athygli á málstað Alþb.) Barnalegar
tilraunir! Ég tel það engar barnalegar tilraunir að svara því alveg skýrt að við viljum að álverið sé staðsett utan höfuðborgarsvæðisins. En ef hv. þm. Salome Þorkelsdóttir telur það barnalegt að hafa afstöðu í því hvar álverið eigi að vera staðsett, þá held ég að hún ætti að beina þeirri athugasemd sinni til samþingmanna sinna úr Sjálfstfl. sem m.a. eru hér í þessari hv. deild og hafa flutt um það sérstaka tillögu. ( SalÞ: Ég er að tala um ræðu þína.) En í þessu kemur auðvitað alveg greinilega fram að þingmenn Sjálfstfl. þola ekki að hlusta á það hérna í deildinni að Sjálfstfl. er þverklofinn í málinu. Hann hefur enga afstöðu. Það er kannski ein af skýringunum á því hvers vegna Sjálfstfl. í fimm árangurslaus ár skilaði þessu máli þannig í hendur annarra að það var einfaldlega í núlli og kannski verra en það, það var í mínus vegna þess að helmingurinn af þeim fyrirtækjum sem átti að ræða við voru að ganga á brott.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson setti fram þá spurningu, í einum af fáum málefnalegum pörtum í ræðu sinni, með hvaða hætti menn hefðu hugsað sér eignaraðild Íslendinga að slíku stórfyrirtæki. Það er alveg rétt hjá þingmanninum að Alþb. hefur lagt áherslu á það að rætt yrði af mikilli alvöru um hugsanlega eignaraðild Íslendinga að slíku fyrirtæki. Um það eru skiptar skoðanir, það vitum við. En við höfum í þeirri umræðu m.a. sett fram þá hugmynd að myndað yrði eignarhaldsfélag þar sem ýmis íslensk stórfyrirtæki, eins og Eimskipafélagið svo að ég nefni dæmi, þar sem lífeyrissjóðir eins og Lífeyrissjóður verslunarmanna, þar sem fyrirtæki eins og kannski Járnblendiverksmiðjan, þar sem sveitarfélög og kannski

í einhverjum mæli íslenska ríkið, þó ekki væri endilega víst að það ætti að vera íslenska ríkið, væru eigendur þessa hlutafélags, íslensks eignarhaldsfélags sem væri eitt af eignarfyrirtækjum hins nýja álvers.
    Hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson hefur beitt sér fyrir því að Lífeyrissjóður verslunarmanna hefur gerst stóreigandi í Eimskipafélaginu, Flugleiðum og Íslandsbanka, áður Verslunarbanka, og ætti því að hlusta með athygli á hugmyndir af því tagi sem ég hef hér verið að lýsa. Ég tel að hér á landi séu bæði stórfyrirtæki og öflugar fjármálastofnanir eins og lífeyrissjóðirnir sem hæglega gætu myndað öflugt íslenskt eignarhaldsfyrirtæki sem gæti tekið höndum saman við hin erlendu fyrirtæki og gerst hluthafi í hinu nýja álveri. Það getur verið sjálfsagt og eðlilegt að skoða þann þátt málsins.
    Hv. þm. Halldór Blöndal var að rétta mér samþykkt þingflokks Alþb. Ég get auðvitað lesið hana upp ef þingmaðurinn óskar eftir því. En ég tel kannski enga sérstaka þörf á því og skil ekki alveg af hverju þingmaðurinn er að rétta mér þessa ágætu samþykkt. En það er auðvitað alveg sjálfsagt að fara með hana eins oft og óskað er hér í umræðunum vegna þess að það er ekkert í þessari samþykkt sem er á annan veg en þann sem ég hef verið að lýsa í ræðu minni.
    Þess vegna er það staðreynd málsins að þessi ríkisstjórn hefur komið þessum viðræðum mun lengra en Sjálfstfl. nokkru sinni tókst. Það er staðreynd málsins að innan ríkisstjórnarinnar er einhugur um þær megináherslur sem þarf að leggja þegar menn meta hvort þeir samningar sem í boði eru verða hagstæðir eða ekki fyrir Íslendinga. En slíkt er auðvitað ekki hægt að meta fyrr en þeim er lokið eða þeir eru komnir lengra á veg, fremur en hin erlendu fyrirtæki hafa fyrir sitt leyti svarað því hvort þau telji samningana vera hagstæða á þessu stigi eða ekki. Þau hafa ekkert svarað því og þess vegna væri óeðlilegt að krefjast þess að Íslendingar færu að svara því á þessu stigi.
    Við innan Alþb. höfum sett fram ýmsar hugmyndir um það hvernig hugsanlegri eignaraðild Íslendinga gæti verið varið. Ég vænti þess nú að hv. þm. Guðmundur H. Garðarsson skoði þær hugmyndir í alvöru við annað tækifæri. En mikið væri nú skemmtilegt ef Sjálfstfl. gæti loksins náð einhverri samstöðu í einu máli því það er alveg ljóst að í þessu máli er ekki til sameiginleg afstaða Sjálfstfl.