Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín tveimur eða þremur beinum spurningum sem ég mun nú leitast við að svara. Fyrsta spurningin var mjög tæknilegs eðlis. Hún var: Hver er afskriftartími í kostnaðaráætlunum Landsvirkjunar vegna þeirra virkjana sem nauðsynlegar eru til þess að afla orku fyrir hið væntanlega iðjuver Atlantsálsfélagsins? Svarið er: Aðaldæmið er miðað við 40 ár og línulega afskrift. Hins vegar hafa að sjálfsögðu verið reiknuð nokkur önnur dæmi við skemmri eða lengri tíma eða annars konar afskriftaraðferð. En ég hygg að rétt sé lýst með því að segja að 40 ár sé sú regla sem við höfum oftast stuðst við. Reyndar er hvergi í þessu máli til neinn óumdeilanlegur sannleiki, en þetta er þeirra aðalviðmiðun.
    Í öðru lagi var spurt um tilboð sem gengið hefði á milli aðila í viðræðum um orkuverð. Því mun ég að sjálfsögðu ekki svara, hv. 2. þm. Norðurl. e. Á því stigi sem slíkir viðskiptalegir samningar eru nú væri það tóm fjarstæða að fara að ræða það hér í tölum í heyranda hljóði. Því mun ég ekki svara þeirri spurningu með þessum rökum.
    Í þriðja lagi var spurt um hverjar væru forsendur iðnrn. í þessum viðræðum hvað varðar orkuverðið. Svarið er að sjálfsögðu að söluaðilinn er Landsvirkjun. Þeir fara þar með verkið að mestu leyti, að sjálfsögðu með þátttöku iðnrn. Það er einkum rætt um orkusölusamning til 25 ára, en viðmiðanir við tíma að öðru leyti eru að sjálfsögðu miðaðar við líftíma virkjananna og athuganir í kringum þær stærðir. Eins og ég nefndi áðan er hér hvergi til neinn óumdeilanlegur og fastur sannleiki heldur er þetta að sjálfsögðu hlutur sem verður skoðaður á nokkru bili stærða.
    Í fjórða lagi var spurt um lögsögu og lausn deilumála. Mig langar að benda hv. þm. á bls. 13 í frv. sem hér var lagt fram í grárri kápu eins og hv. þm. benti réttilega á fyrr í umræðunni. Það var nú að vísu ákvörðun annarra en mín
en ég tel að það hafi verið vel ráðið því að það er auðveldara að finna frv. á borðinu í þessari góðu gráu kápu. Ég veit að hv. þm. mun, eins og ég og fleiri, oft þurfa að grípa til þessarar vænu, gráu bókar. Ég er viss um það að þar með fæst endurheimt sú aukafjárþörf sem kann að hafa hlotist af því að þarna er annar pappír en venjulega.
    En hvað um það þá kemur það mjög glöggt fram að það er óumdeilt að hið nýja álfyrirtæki lúti íslenskum lögum með þeim ákvæðum sem lögfest kunna að verða í heimildarlögum um nýtt álver. Atlantsál, ef samningar nást, verður að sjálfsögðu íslenskt fyrirtæki. Það þarf að veita nokkrar undanþágur frá íslenskum ákvæðum. Þær eru tæknilegar og einfaldar, stafa af því að það þarf að víkja frá skilyrðum um ríkisfang og búsetu erlendra eignaraðila og stofnenda vegna hinnar erlendu eignaraðildar sem við erum að tala um. Við leggjum að sjálfsögðu áherslu á það af Íslands hálfu að lausn

ágreiningsmála við ríkisvaldið á Íslandi verði fyrir íslenskum dómstólum. Atlantal-aðilarnir hafa fyrir sitt leyti gert tillögu um að gerðardómi sé beitt í vissum viðskiptalegum ágreiningsmálum. Mig langar til þess að minna hv. þm. á að nýlega hafa verið sett á Íslandi lög um gerðardóma sem njóta vaxandi hylli sem úrlausnaraðferð í viðskiptadeilum fremur en hefðbundin dómstólameðferð einfaldlega af því að þeir skila fyrr, og með lægri kostnaði, niðurstöðu sem báðir geta unað við. Þar munu einnig gilda íslensk lög.
    Ég vil svo að lokum leyfa mér að minna á að Íslendingar eru aðilar að nokkrum alþjóðasamningum sem hafa lagagildi og varða gerðardóma. Þar skiptir einna mestu Alþjóðagerðardómsstofnunin til lausnar fjárfestingardeilum, The International Center for the Settlement of Investment Disputes (ICSID), sem er tengd Alþjóðabankanum í Washington. Samningurinn um þessa stofnun hefur lagagildi á Íslandi. Þar með eru það íslensk lög sem gilda væri til hennar vísað. Ekkert slíkt hefur þó enn verið ákveðið.
    Ég vona, virðulegi forseti, að með þessu hafi ég svarað þeim fjóru beinu spurningum sem hv. 2. þm. Norðurl. e. beindi til mín.