Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Forsætisráðherra (Steingrímur Hermannsson):
    Herra forseti. Fjarvera mín stafar síður en svo af því að ég hafi ekki viljað svara hv. þm. Guðmundi H. Garðarssyni. Samið var um það að fundur sem ég þurfti að vera á annars staðar yrði kl. 6 svo ég skaust þangað.
    Fyrsta spurning hv. þm. var hvort Alþb. hefði neitunarvald í þessu máli í ríkisstjórninni. Í þeim ríkisstjórnum sem ég hef setið og eru þær orðnar nokkuð margar hafa stjfrv. ekki verið lögð fram nema allir stjórnarflokkar samþykki það. Ég man ekki eftir neinu slíku tilfelli. Að því leyti hefur Alþb. eins og aðrir flokkar í þessari ríkisstjórn neitunarvald.
    Ég vil hins vegar taka fram sem ég sagði áðan að mér þykir að í allri meðferð málsins hafi mjög miðað í rétta átt. Það er um afar stórt og viðkvæmt mál að ræða og þarf engum að koma á óvart þótt um það séu nokkuð skiptar skoðanir. Mér þykir hafa stefnt í rétta átt og geri mér vonir um samstaða náist um að leggja það mál fyrir Alþingi, að sjálfsögðu sem stjfrv.
    Ég veit ekki hvort ég á að taka þetta með hagkvæmnina og glýjuna sem spurningu til mín. Hverjum verður að vera frjálst að fá glýju í augun ef honum svo sýnist. Ég fæ enga glýju í augun af þessari hugmynd. Mér heyrist að hæstv. menntmrh. hafi lýst réttilega þeirri hagkvæmni sem Þjóðhagsstofnun telur vera af þessari verksmiðju, 1% auknum hagvexti á ári. Ég fyrir mitt leyti tel afar mikilvægt að fá þennan aukna hagvöxt því sama stofnun spáir
1,5% hagvexti að óbreyttu, þ.e. ef ekki koma til nýjar greinar. Í Evrópu er almennt spáð 3,5% hagvexti á ári sem mun þýða það að við drögumst aftur úr. Ég tel þess vegna m.a. að nú komi til greina að ráðast í þessa miklu framkvæmd.
    Ég neita því hins vegar ekki að ég bind ekki síður vonir við alls konar aðra atvinnuþróun hér á landi og sérstaklega sérhverja þróun sem byggist á aukinni þekkingu. Ég tel það vera hvað mikilvægast að á þeim sviðum er unnt að greiða hvað hæstu launin og sem betur fer eru hér mörg merki þess að þar geti orðið atvinnuþróun sem ekki er inni í þeirri spá sem Þjóðhagsstofnun hefur birt. Ég vek athygli á t.d. stórauknum útflutningi hátæknifyrirtækja o.s.frv. Þannig að ég vona svo sannarlega að við náum því sem á vantar við aðrar þjóðir eftir ýmsum slíkum leiðum. Það er fremur að ég fengi glýju í augun af þeim kostum en álbræðslu, svo ég segi eins og er, sem þýðir þó ekki að ég sé á móti álbræðslu eins og ég hef margtekið fram.
    Um eignaraðildina, hvað hún á að vera mikil o.s.frv. Ég get ekki nefnt neinar tölur í því sambandi. Ég hef aldrei heyrt nefnt að til greina kæmi að Íslendingar ættu yfir helming í svona verksmiðju, það er gífurlega mikil fjárhæð. Hins vegar hefur þeim hugmyndum verið hreyft að Íslendingar hefðu t.d. forkaupsrétt á eignaraðild í svona verksmiðju og unnt væri að nota eitthvað af þeim skattatekjum t.d. sem koma í hlut hins íslenska ríkis til að kaupa sig í

vaxandi mæli inn í svona verksmiðju. Ég hef líka heyrt suma sem þessu eru fylgjandi nefna að byrja með eins og 5% og geta aukið þetta smám saman.
    Ég get ekki svarað þeirri spurningu, það verður hæstv. iðnrh. að gera, hvort þetta út af fyrir sig hefur komið til umræðu í þeim viðræðum sem nú fara fram. Ég get hins vegar upplýst að þegar ég var þátttakandi í slíkum viðræðum þá var þetta oft nefnt og ég varð aldrei var við andstöðu af hálfu hins erlenda aðila að Íslendingar kæmu inn með eignaraðild. Ég held að þeir hafi frekar talið það kost og þá sparað sér vissa fjárfestingu.
    Þetta eru atriði sem að sjálfsögðu tengjast þessum virku áhrifum Íslendinga á verksmiðjuna. Ég lýsti því áðan að ég teldi það geta orðið eftir ýmsum öðrum leiðum. Ég vil láta það koma hér fram að ég legg ekki persónulega áherslu á eignaraðild Íslendinga. Ég teldi gott að hafa heimild til að ráðstafa hagnaði til að eignast smám saman verksmiðjuna, en ég lít ekki á það sjálfur sem úrslitaatriði.
    Ef ég man rétt voru þetta meginspurningarnar.