Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Guðmundur H. Garðarsson:
    Virðulegi forseti. Ég þakka hæstv. forsrh. fyrir að hafa svarað þeim fyrirspurnum sem ég lagði fyrir hann. Það var fullnægjandi svar eða svör réttara sagt. Hann sagði m.a. í sínu svari, sem mér fannst mjög athyglisvert í ljósi þess að landsfundur Alþb. samþykkti á sínum tíma að Íslendingar skyldu eiga meiri hluta í fyrirtækjum eins og álverum framtíðarinnar, að hann hefði aldrei heyrt að Íslendingar ættu að eiga meiri hlutann í slíkum fyrirtækjum. Það hefur því farið fram hjá honum með hvers konar flokki hann starfar að þessum málum. Hæstv. forsrh. sagði einnig að hann hafi gert ráð fyrir því að Íslendingar ættu svona 5% eignarhluta, ef ég skildi hann rétt. ( Forsrh.: Ég hef heyrt það nefnt.) Heyrt það nefnt, já. Ég verð að segja það sem mína skoðun að mér finnst það raunverulega engin eignarþátttaka þótt Íslendingar ættu 5% í fyrirtæki sem þessu. En ég tek undir þau orð hæstv. forsrh. að það hlýtur að vera kostur fyrir erlenda aðila ef Íslendingar vilja vera eignaraðilar með þeim í slíkum fyrirtækjum.
    Ég vil þá víkja máli mínu að hæstv. fjmrh., formanni Alþb. Það er mjög fróðlegt fyrir okkur sjálfstæðismenn að sitja undir ræðum eins og hann flutti hér áðan, sérstaklega með tilliti til þess að þetta er formaður Alþb. sem barðist hvað harðast gegn því að áliðjuver yrði reist á Íslandi á sjöunda áratugnum, þ.e. á árunum 1965 og 1966. Þá var Alþb. í forustunni fyrir því að reyna að koma í veg fyrir að Íslendingar leyfðu byggingu álvers, sem hefði auðvitað þýtt að fyrstu stórvirkjanir á Íslandi hefðu aldrei átt sér stað. Nú vill svo til að á sama tíma sem hæstv. ráðherra skammar okkur sjálfstæðismenn fyrir það sem hann vill meina og halda fram, að við höfum ekki staðið okkur sem skyldi í sambandi við uppbyggingu stóriðju á Íslandi, að það var einn af fyrrverandi formönnum Sjálfstfl., Jóhann Hafstein, þáv. iðnrh., sem hafði forustuna, ásamt Bjarna Benediktssyni forsrh., um uppbyggingu fyrstu
stóriðjufyrirtækja á Íslandi í samningum við erlenda aðila, sem var algjör forsenda þeirra stórvirkjana sem við þekkjum á Íslandi í dag. Það skýtur nú skökku við þegar formaður Alþb. heldur því fram að Sjálfstfl. hafi ekki staðið sig í sambandi við uppbyggingu þessarar atvinnugreinar.
    Það er hins vegar mjög fróðlegt að sitja undir því að formaður Alþb. skuli vera kominn á þennan nýja vettvang, að tala hér fyrir stóriðju í sölum Alþingis. Auðvitað er ég eins og flestir eða margir með ákveðinn fyrirvara í sambandi við stóriðju og stóriðjuframkvæmdir á Íslandi og teldi að mörgu leyti æskilegt ef við gætum án þeirra verið, en heimurinn er nú einu sinni þannig að við getum ekki gengið fram hjá þróuninni eða meinað Íslendingum í framtíðinni að taka þátt í slíkum verkum eða framkvæmdum sem stóriðja er.
    Þá kemur auðvitað að því atriði sem mér finnst mjög þýðingarmikið og mér fannst hæstv. fjmrh. koma vel inn á, það var spursmálið um eignaraðild. Ég get

tekið undir þá skoðun hans að Íslendingar eiga að eiga verulegan hlut í slíkum stórfyrirtækjum. Ég segi ekki að Íslendingar ættu að eiga þetta alfarið einir, vegna þess að ég held að það sé óframkvæmanlegt og óraunsætt. Hins vegar eiga Íslendingar að vera verulegir eignaraðilar að þessum stórfyrirtækjum á móti erlendum aðilum. Og ég vil einnig taka undir það sjónarmið hans að sú eignarþátttaka á að vera á breiðum grundvelli.
    Ég ætla ekki, virðulegi forseti, að orðlengja þetta meir en þakka ráðherrum fyrir svör þeirra.