Raforkuver
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Það hafa orðið miklar umræður um þetta frv. sem við ræðum, bæði í gær og í dag. Í beinu framhaldi af framsöguræðu hæstv. iðnrh. tók ég til máls og byrjaði með því að lýsa ánægju minni með frv. sem hefði þann tilgang að greiða fyrir uppbyggingu orkufreks iðnaðar. Ég lýsti ánægju minni. En ég verð að segja að sú ánægja er nokkuð blandin nú eftir að hafa hlustað á umræður hér. Hvers vegna? Vegna þess að í þessu þýðingarmikla máli, þessu mikla hagsmunamáli íslensku þjóðarinnar, hefur komið í ljós, raunar vissum við það, en það hefur komið greinilega í ljós í þessum umræðum, að hver höndin er uppi á móti annarri í ríkisstjórninni og hún er algjörlega sundruð í þessu máli. Það er það alvarlega og það alvarlegasta í þessu máli, að ríkisstjórnin skuli ekki ganga heils hugar til verks í því. Auðvitað kastar svo tólfunum þar sem er framlag hæstv. fjmrh. í þessum umræðum.
    Ég skal ekki fara mörgum orðum um það framlag, það dæmir sig sjálft. Næstum því hvarvetna þar sem hæstv. ráðherra drap niður í tali sínu kom hann með þverstæður sem maður undrast að skuli geta átt sér stað í jafnafdrifaríku máli sem þessu. Hæstv. ráðherra sagði að enginn flokkur hefði skilað jafnlitlum árangri í stóriðjumálunum og Sjálfstfl. Hæstv. ráðherra lét sem Alþb. væri mesti baráttuflokkurinn í stóriðjumálum og hefði núv. ríkisstjórn skilað meiri árangri í þeim efnum en nokkur önnur vegna þess að í núv. ríkisstjórn væri Alþb. mesti baráttuflokkur fyrir stóriðju á Íslandi.
    Það var sama hvar hæstv. fjmrh. bar niður. Hann sagði að Sjálfstfl. væri sundraður og gæti ekki komið sér saman um staðarval næsta áliðjuvers, þó nokkrir þingmenn flokksins hefðu hins vegar borið fram tillögu um það. Hæstv. fjmrh. er ekki vandur að virðingu sinni því ef hann vissi um þá tillögu sem hann gat um, þá hefði hann mátt vita að hún fjallar um sama efni, með sama orðalagi og samþykkt var á síðasta landsfundi Sjálfstfl. um staðarval næsta
álvers. ( Fjmrh.: Er Friðrik þá á móti stefnu Sjálfstfl.?) Ég gæti haldið svona áfram, að nefna fjarstæður þær sem fram komu í máli hæstv. fjmrh. en ég ætla ekki að gera það. Kannski á ekki að taka þetta alvarlegar en fullyrðingar þessa ráðherra um að hann sé alltaf að lækka skatta með því að hækka þá.
    Ég sagði að í beinu framhaldi af framsöguræðu hæstv. iðnrh. hefði ég talað í þessu máli. Hæstv. iðnrh. gerði fyrr í þessum umræðum nokkur skil því sem ég drap á og voru aðeins örfá atriði í frv. sjálfu. Eitt atriði sem ég hafði vakið athygli á var það ákvæði 2. gr. frv. um að veita Hitaveitu Reykjavíkur leyfi til þess að reisa og reka jarðvarmavirkjun til raforkuframleiðslu á Nesjavöllum.
    Ég sagði að þetta gæfi tilefni til þess að skenkja því hugsun að í gildandi lögum, í orkulögum, er ákveðið að ekki megi reisa smávirkjanir, ef þær eru yfir 2 mw. að afli, nema með leyfi Alþingis. Ég hélt því fram að þetta væri óeðlilegt. Ég sagði að það væri

álitamál þegar þessi mörk væru hækkuð hvar ætti að setja þau og ekki væri víst að 38 mw. væru innan þeirra marka. Ég minnist á þetta vegna þess að hæstv. iðnrh. gaf í skyn að ég hefði ekki talið ástæðu til að veita Hitaveitu Reykjavíkur þessa heimild. Það er misskilningur, ég tók það beint fram að það væri að sjálfsögðu nauðsynlegt að gera slíkt.
    Þá var það atriði sem ég kom inn á og hæstv. ráðherra svaraði, það er efni 3. gr. frv. 3. gr. kveður á um að röðun virkjanaframkvæmda verði tekin af Alþingi og það hlutverk fengið iðnrh. Þessu svarar hæstv. iðnrh. eitthvað á þá leið að hann telji að í þessari grein, 3. gr., sé farið inn á þá hyggilegu braut að röð framkvæmda við virkjanir og aðrar stórframkvæmdir í orkumálum ráðist fyrst og fremst af væntanlegri nýtingu orkunnar og þess sé gætt að orkuöflunin sé sem hagkvæmust. Þetta eru sjálfsagðir hlutir en þetta er útúrsnúningur og ekkert annað við því sem ég var að segja. Heldur hæstv. ráðherra virkilega því fram að það þurfi að setja þetta vald um að ákveða röðun virkjanaframkvæmda í hendur iðnrh. svo að þess sé gætt að hyggilega sé farið að um framkvæmdir? Og telur hæstv. ráðherra að Alþingi hafi alveg brugðist hlutverki sínu í þessum efnum? Auðvitað er það fjarstæða.
    Ég veit raunar ekki hvort ég á að fara frekar út í þessi svör hæstv. ráðherra. Ég hafði tekið fram í sambandi við 3. gr. frv. að ákvæði til bráðabirgða I væri ekki í samræmi við þá hugsun sem fram kæmi í 3. gr. því þar væri gert ráð fyrir að Alþingi réði virkjanaröðinni. En ég tek núna fram, eins og ég tók áður fram raunar, að auðvitað er rétt að hafa þetta bráðabirgðaákvæði og með því efni sem þar er að finna.
    Hæstv. ráðherra talaði um þetta sem hann teldi að taka ætti þetta vald sem hér um ræðir af Alþingi. En það væri ekkert óeðlilegt samt að hafa bráðabirgðaákvæði. Hann talaði um að það væri eðlilegt umþóttunarákvæði, eins og hann orðaði það. Ég skal ekki fara frekar út í þetta en mér sýnist, og ég deili ekki á hæstv. ráðherra fyrir það, mér sýnist að honum takist ekki að færa nein gild rök fyrir sínum málstað í þessu efni. ( Viðskrh.: Þau minna á kristnitökuna.) Kristnitöku? ( Viðskrh.: Á Alþingi árið 1000.) Já, já, það er ágætt að minnast þess. ( Viðskrh.: Þá voru umþóttunarákvæði.) Já. Ég held að
þetta orð ,,umþóttunarákvæði`` og ,,umþóttunartími`` o.s.frv. hafi ekki verið til þá. Ég bið hæstv. ráðherra að sýna mér það á prenti ef það hefur verið. Þetta var eftirlætisorðfæri Bjarna Benediktssonar heitins og það er náttúrlega kostur en ekki ókostur.
    Þá var það síðasta atriðið sem ég vék að í máli mínu og fann að. Ég tók fram að það væri ekki höfuðatriði en það væri þó formsatriði. Það var orðalagið í 4. gr. frv. þar sem talað er um ,,stækkaða Búrfellsvirkjun, stækkaða Hrauneyjafossvirkjun, stækkaða Sigölduvirkjun`` o.s.frv. Ég tók fram, og ég held að hæstv. ráðherra hafi ekki hrakið það eða mótmælt því raunverulega, að betur færi á því að fella

niður þetta orð, ,,stækkaða``, enda sagði hæstv. ráðherra að orðalagið væri ekki sérlega þekkilegt. Ég lít þá svo á að við séum sammála um það efni. ( Viðskrh.: Því miður voru lærðir lögfræðingar sem vildu hafa þetta svona.) En hvort sem það eru lærðir lögfræðingar eða lærðir sérfræðingar á hvaða sviði sem er þá verðum við, hæstv. ráðherra, að hafa okkar eigin dómgreind í lagi. Ég vil ekki að ósekju bera brigður á dómgreind hæstv. ráðherra. Ég ítreka það sem ég sagði, mér virðist að við séum sammála um þetta atriði.
    Ég skal ekki fjölyrða frekar um þetta mál nú. Ég lagði áherslu á það í minni fyrri ræðu að málið fengi vandlega meðferð í hv. iðnn. Ég efast ekki um að þar verði vandlega farið yfir þetta mál. Okkur gefst svo tækifæri til að ræða það betur þegar það kemur úr nefnd.