Tekjuskattur og eignarskattur
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Það voru mjög athyglisverð ummæli sem féllu hér af vörum hv. 10. þm. Reykv. þar sem hann vakti mjög réttilega athygli á því hvernig þetta merka mál hefur verið unnið af þingmönnum og að hæstv. ríkisstjórn hefur hvergi komið nálægt málatilbúnaði af þessu tagi né á nokkurn hátt haft frumkvæði að þessu mikla framfaramáli. Það er athygli vert að það skuli einmitt vera einn af höfuðtalsmönnum Framsfl. í efnahagsmálum sem lætur þessi ummæli falla. Sannleikurinn er sá að hv. 10. þm. Reykv. er forsvarsmaður svokallaðrar efnahagsnefndar þingflokks framsóknarmanna sem sett var á laggirnar á síðasta ári. Sl. sumar skrifaði hann grein í eitt af dagblöðunum þar sem hann krafðist þess að tekin yrði upp ný efnahagsstefna. Ný efnahagsstefna var krafa þess hóps þingmanna Framsfl. sem þingflokkurinn hafði falið að fjalla sérstaklega um efnahagsmálin.
    Það vakti ekki síst athygli fyrir þá sök að, að forminu til a.m.k., hefur formaður Framsfl. forustu á hendi í núv. hæstv. ríkisstjórn um mótun efnahagsmála og efnahagsstefnu. Þrátt fyrir þá staðreynd tóku þessir þingmenn svo afgerandi af skarið um það að þjóðin gæti ekki búið við efnahagsstefnu núv. hæstv. ríkisstjórnar og krafan væri ný efnahagsstefna.
    Hv. þm. hefur verið samkvæmur sjálfum sér í þessu efni og tekið hér á Alþingi mjög málefnalega afstöðu í ýmsum þeim framfaramálum sem hér hefur verið hreyft af öðrum en hæstv. ríkisstjórn. Það er ástæða til þess, þegar þetta merka mál er til umræðu, að vekja athygli á þessari staðreynd sem sýnir hvers Alþingi er megnugt þegar hugrakkir stjórnmálamenn eru annars vegar sem eru reiðubúnir til að brjóta af sér fjötra flokksbanda þegar miklir hagsmunir eru í húfi og fyrir liggur að unnt er að mynda breiða pólitíska samstöðu þrátt fyrir sitjandi ríkisstjórn. Hv. 10. þm. Reykv. á miklar þakkir skildar í þessu efni.
    Það er að sönnu rétt sem hann hefur vakið hér athygli á, að einmitt þessi málefnalegu vinnubrögð eru nokkur nýlunda í störfum Alþingis og full ástæða er til þess að vekja á þeim athygli og fagna því að menn geti með þessum hætti tekið höndum saman. Það er engum blöðum um það að fletta að íslenskt atvinnulíf stendur nú frammi fyrir nýjum aðstæðum að mörgu leyti. Íslendingar verða að taka þátt í þeirri öru þróun og miklu framförum sem nú eiga sér stað. Við megum hvergi dragast þar aftur úr ef við ætlum að tryggja Íslendingum sömu lífskjör og aðrar þjóðir í Vestur-Evrópu búa við.
    Eitt af þeim atriðum sem máli skipta í því sambandi eru tengsl okkar við Evrópubandalagið og öll sú breyting á löggjöf sem við verðum að gera til þess að þau tengsl verði virk og við njótum ávaxta af því samstarfi. Þar á meðal er breyting á allri skattalegri meðferð atvinnufyrirtækja og að því er varðar hlutabréf. Hvort tveggja í þeim tilgangi að styrkja eiginfjárstöðu atvinnufyrirtækjanna með þessum hætti og að hinu leytinu að auðvelda almenningi að

spara í atvinnulífinu sjálfu, auðvelda almenningi að taka þátt og eiga hlut í atvinnurekstrinum, dreifa valdinu, dreifa fjármagninu og eignarhaldi atvinnufyrirtækjanna í landinu.
    Það eru þessi meginsjónarmið sem lágu að baki þeim frv. sem upphaflega voru flutt um þetta efni og hv. 1. þm. Reykv. hafði, sem kunnugt er, forustu um. Og hv. 10. þm. Reykv., helsti forsvarsmaður framsóknarmanna í efnahagsmálum, hafði nægjanlegt víðsýni og þrek til þess að fjalla um og mynda þá breiðu samstöðu sem hér er orðin.
    En um leið og þessar jákvæðu hliðar eru dregnar fram, og ég vil enn á ný taka undir þau ummæli hv. 10. þm. Reykv. í því efni, hversu mikilvægt það er fyrir Alþingi Íslendinga að þessar jákvæðu hliðar séu dregnar fram, þá verður því auðvitað ekki neitað að á hinn vænginn lýsir þetta því mjög vel hvers konar ríkisstjórn situr í landinu um þessar mundir. Það er auðvitað það athygli verðasta við þetta breiða samkomulag sem þingmenn mynda hér að hæstv. ríkisstjórn á ekkert frumkvæði, að sú ríkisstjórn sem situr í landinu er ófær um að taka á og hafa frumkvæði að flutningi mála af þessu tagi. Hún er ófær um að hafa frumkvæði að málatilbúnaði sem skiptir sköpum um aðlögun íslensks atvinnulífs að þeim miklu breytingum sem eru að eiga sér stað og skapa hér þau skilyrði sem íslenskt atvinnulíf verður að búa við. Hún er ófær um að takast á við verkefni nútíðar og horfa til framtíðar. Hún var mynduð til þess að snúa hjólunum við. Þessi hæstv. ríkisstjórn var mynduð í þeim tilgangi að taka hér upp fortíðarsjónarmið við stjórn efnahagsmála. Hún var mynduð til þess að færa efnahagsstjórn í landinu áratugi aftur í tímann. Og hún hefur sannarlega í störfum sínum staðið við þau fyrirheit sem hún gaf því að í einu og öllu hafa ákvarðanir hennar byggst á áratuga gömlum úrræðum við stjórn efnahagsmála. Það er athygli vert og ástæða til að rifja það upp hér að hæstv. viðskrh. gerði ekki það eitt í ágúst sl. að flytja tillögur í ríkisstjórn um breytingar sem hann teldi nauðsynlegt að gera á skattalegri meðferð hlutafjár í fimm liðum, heldur greindi hann ítarlega frá því opinberlega hverjar hans hugmyndir væru í þessu efni. Með því móti vildi hæstv. viðskrh. gefa til kynna að þrátt fyrir
hæstv. ríkisstjórn hefði Alþfl. skilning á því að Íslendingar þyrftu að horfast í augu við nútíðina og framtíðina og breyta lögum og skapa íslensku atvinnulífi skilyrði í samræmi við þetta.
    En hver var nú hinn raunverulegi hugur hæstv. viðskrh.? Hver varð árangurinn af tillöguflutningi hans? Það hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá hæstv. ríkisstjórn síðan hæstv. viðskrh. flutti þessar tillögur og lét fjölmiðla segja frá þeim með stórum fyrirsögnum og miklum yfirlýsingum. Það hefur hvorki heyrst hósti né stuna frá hæstv. ríkisstjórn. Hún getur ekki tekið á málum sem þessum. Hún var mynduð sem fortíðarstjórn og hæstv. viðskrh. situr uppi með þá
ömurlegu staðreynd. Og svo virðist sem hann hafi

annaðhvort ekki afl til þess að fylgja slíkum tillögum eftir innan ríkisstjórnarinnar eða það skorti í raun og veru á viljann og tillöguflutningur og blaðayfirlýsingar af hans hálfu séu einungis sýndarmennska. Þetta varpar ljósi á það hvernig núv. ríkisstjórn er og sú merka samstaða sem hér hefur tekist sýnir því fyrst og fremst hversu brýnt það er að koma hæstv. ríkisstjórn fyrir kattarnef og gefa þjóðinni kost á að velja fulltrúa á löggjafarsamkomuna á nýjan leik. Því að auðvitað er það svo, þó að ánægjulegir atburðir af þessu tagi geti tekist vegna þess að innan stjórnarliðsins eru menn sem hafa bæði skilning og þor, eins og hv. 10. þm. Reykv., þá fer aldrei hjá því að ríkisstjórn sem byggir á fortíðarhyggju, eins og hér hefur á sannast, verður dragbítur, hún verður til þess að í miklu fleiri efnum getum við ekki tekist á við nútíðarverkefni, getum við ekki leyst aðsteðjandi viðfangsefni út frá hagsmunum nútíðar og framtíðar. Það er það sem er hið stóra áhyggjuefni og það er það sem er hin alvarlega staðreynd. Það er það sem er hinn raunverulegi skuggi þess sólargeisla sem hér hefur verið varpað inn í störf löggjafarsamkomunnar.
    Herra forseti. Ég taldi ástæðu til þess vegna þessara merku tímamóta að árétta þau meginsjónarmið sem liggja að baki þeim breytingum sem hér er verið að leggja til á skattalöggjöfinni og mikilvægi þeirra fyrir þróun íslensks atvinnulífs og mikilvægi þeirra fyrir það markmið að dreifa eignaraðild og yfirráðum fjármagns í landinu og vekja á því athygli hversu þingmenn hafa tekið á málum af mikilli víðsýni og talsverðu þreki. Um leið verður ekki hjá því komist að þessi ánægjulegi atburður skerpir þá dökku mynd sem er af efnahagsstjórn núv. hæstv. ríkisstjórnar, getuleysi hennar til þess að takast á við slík verkefni, þeirri staðreynd að ráðherrar innan þeirrar ríkisstjórnar sem segjast opinberlega vilja fylgja nútímasjónarmiðum kjósa þegar á reynir fremur að lúta leiðsögn hinna sem eru þar talsmenn afturhalds og fortíðarhyggju.