Opinber réttaraðstoð
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Sólveig Pétursdóttir:
    Hæstv. forseti. Hér er til umræðu frv. sem er allrar athygli vert. Virðist markmiðið ekki síst það að auka opinbera lögfræðiaðstoð við efnalítið fólk. Eins og fram kemur, m.a. í grg. og í framsögu hæstv. dómsmrh. hér áðan, hafa svipuð mál komið upp fyrr hér á hinu háa Alþingi. Þá er einnig rétt að geta þess hér að Lögmannafélag Íslands gerði stjórnvöldum viðvart um áhyggjur sínar fyrir upptöku virðisaukaskattsins þar sem þeir höfðu áhyggjur af því að það yrði miklu dýrara fyrir einstaklinga að fá lögfræðiaðstoð en fyrir fyrirtæki.
    Mig langar einnig til að vekja sérstaka athygli á frv. til laga um fjölskylduráðgjöf sem mælt var fyrir á síðasta þingi en var ekki afgreitt. Í því frv. var fjallað m.a. um lögfræðiaðstoð og sérstakt tillit tekið til efnalítils fólks. En þar var ekki gert ráð fyrir almennri réttaraðstoð heldur á mun þrengra sviði, eða í fjölskyldu- og sifjaréttarmálum. Þetta frv. hæstv. félmrh. fékkst ekki afgreitt að því er ég best veit, fyrir því var greinilega ekki pólitískur vilji. Frv. sem hér er til umræðu spannar mun stærra svið, --- ég vil að vísu taka það fram að ég hef ekki tök á að ræða þetta mál af nákvæmni hér en langar þó til að koma að nokkrum athugasemdum --- eins og sést m.a. á 1. gr. frv. sem hljóðar svo, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Markmið opinberrar réttaraðstoðar er að veita almenningi ráðgjöf á sviði lögfræði og jafnframt leitast við að tryggja að réttindi einstaklinga glatist ekki sökum lítilla efna. Dómsmálaráðherra hefur umsjón með opinberri réttaraðstoð sem skiptist í:
    a. almenna ráðgjöf
    b. aðstoð í einstökum málum
    c. réttargæslu fyrir brotaþola í opinberum málum
    d. gjafsókn og gjafvörn fyrir dómstólum.
    Þetta síðasta atriði má gjarnan taka betur til umræðu hér þar sem veiting gjafsóknarleyfa hefur einmitt sætt talsverðri gagnrýni á undanförnum árum. Hafa menn nokkuð velt því fyrir sér hvernig framkvæmd þeirra hefur verið háttað. Um þetta spurði m.a. einn varaþingmaður Sjálfstfl. á 110. löggjafarþingi. Er athyglisvert að skoða svar hæstv. dómsmrh. við þeirri fyrirspurn en svarið var skriflegt. Þar er m.a. spurt: ,,Hve oft hefur gjafsókn verið veitt sl. þrjú ár?`` Í svarinu kemur fram að fyrir undirrétti er fjöldinn 33 en fyrir Hæstarétti 15, alls 48.
    Um fleiri atriði er spurt og svar kemur þar fram. Síðan segir í síðustu spurningu, þeirri fimmtu: ,,Til hvaða atriða er litið við mat á umsókn um gjafsókn?`` Það er nú einkum þetta atriði sem hefur valdið þó nokkurri umræðu. Í svari ráðherra segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Samkvæmt 2. tölul. 1. mgr. 172. gr. laga um meðferð einkamála í héraði, nr. 85/1936, þurfa einstaklingar til að þeir njóti gjafsóknar að vera svo illa stæðir fjárhagslega að þeir megi ekki án þess fjár vera frá framfærslu sinni eða sinna eða frá atvinnurekstri sínum er fara mundi til málsins. Mat á fjárhag einstaklinga er byggt á skattframtölum og

öðrum upplýsingum um fjárhag sem fram eru lagðar eða eftir kallað.``
    Síðan er rætt um skaðabótamál vegna líkamstjóns eða missis framfæranda í 2. mgr. og að lokum segir: ,,Einnig er litið til þess hvort málsókn sé nauðsynleg til að niðurstaða máls fáist. Þá er og tekið tillit til þess hvort ætla megi að niðurstaða máls hafi almenna þýðingu.``
    Í frv. virðast að nokkru koma fram svipaðar reglur og ég gerði hér grein fyrir og komu fram í þessu svari. Í kaflanum sem fjallar um gjafsókn og gjafvörn segir í 14. gr. að ráðherra skuli skipa nefnd þriggja löglærðra manna, gjafsóknarnefnd, til fjögurra ára í senn og skal einn nefndarmanna skipaður samkvæmt tilnefningu Lögmannafélags Íslands.
    Telja má að þessi nefndarskipan verði tvímælalaust til bóta og má þá búast við meiri festu á leyfisveitingum.
    Enn fremur segir í 15. gr.: ,,Ráðherra veitir gjafsóknarleyfi samkvæmt umsókn þar að lútandi og að fenginni umsókn gjafsóknarnefndar. Skilyrði gjafsóknarleyfis er að málstaður umsækjanda gefi nægilegt tilefni til málsóknar og að efnahag hans sé svo háttað að kostnaður málsins verði honum fyrirsjáanlega ofviða, hvort tveggja að mati gjafsóknarnefndar.``
    Nú langar mig til þess að spyrja hæstv. dómsmrh. hvort gjafsóknarleyfi muni einnig ná til reksturs mála hjá stjórnvöldum þar sem mér sýnist það ekki ljóst af þessu ákvæði.
    Síðan kemur 16. gr. í þessum sama kafla. Þar segir í upphafi: ,,Ráðherra getur, ef sérstaklega stendur á, veitt gjafsókn, enda þótt skilyrðum 15. gr. sé ekki fullnægt.``
    Þarna virðist mér verið vikið frá ákvæðum laganna til þess að geta e.t.v. tryggt ákveðið vald ráðherra. Ég velti því fyrir mér hvort það sé rétt og á því gæti verið þörf.
    Þá er rétt að minnast á IV. kafla frv., um réttargæslu fyrir brotaþola, en um IV. kafla segir í grg.: ,,Eins og áður er vikið að er hér um nýmæli að ræða
en nauðsyn þykir bera til þess að þeir sem orðið hafa fyrir tilteknum refsiverðum brotum njóti lögmannsaðstoðar við kærumeðferð og gerð bótakröfu. Þetta á við um ýmis kynferðisafbrot, grófar líkamsárásir eða ólögmæta frelsisskerðingu.``
    Ég tel ástæðu til þess að fagna þessum reglum sérstaklega, enda hafa þessi brot og meðferð þeirra verið mikið til umræðu eins og hæstv. dómsmrh. gat um hér áðan.
    Þetta frv. sem hér er til umræðu er sem sé á margan hátt mjög gott mál og athyglisvert. Þó má gera ráð fyrir að það hafi talsverðan kostnað í för með sér ef ákvæðum þessum á að fylgja með raunhæfum hætti, þ.e. ef frv. verður samþykkt sem lög hér á hinu háa Alþingi. Nánari ákvæði verða sett í reglugerð, þar á meðal um kostnað, og er það veigamikið atriði að menn geri sér grein fyrir því hvað hér er um að ræða. Hæstv. dómsmrh. nefndi hér

áðan ákveðnar tölur og er þar um háar fjárhæðir að ræða.
    Það er e.t.v. ekki svo mikil ástæða til þess að hafa áhyggjur af ákvæðum II. kafla frv. sem fjallar um almenna ráðgjöf en í 4. gr. segir: ,,Einstakir lögmenn eða samtök lögmanna, sem ráðherra gerir samning við, láta almenna ráðgjöf í té gegn fastri þóknun sem greiðist úr ríkissjóði.``
    Gera má ráð fyrir því að lögmenn, a.m.k. á þéttbýlustu svæðunum, muni mynda með sér e.t.v. nokkurs konar vaktafyrirkomulag.
    En spurningin um kostnaðinn skiptir miklu meira máli fyrir III. kafla sem fjallar um aðstoð í einstökum málum. Um kostnaðinn samfara þeim ákvæðum segir í 9. gr. frv.: ,,Fyrir veitta aðstoð skv. 5. gr. greiðist föst þóknun og skal upphæð hennar ákveðin í reglugerð. Ríkissjóður greiðir 3 / 4 þóknunar en skjólstæðingur 1 / 4 .`` Síðan eru nánari ákvæði í 2. mgr. 9. gr. þar sem m.a. er talað um allt að þrefalda þóknun skv. 1. mgr. Það er athyglisvert að hér er ætlunin að skjólstæðingar taki þátt í kostnaði, sem auðvitað er ekki óskynsamleg krafa en getur þó skapað viss vandamál.
    Ég hef hér undir höndum álitsgerð frá Lögmannafélagi Íslands sem er dagsett þann 8. jan. sl. Þar er að vísu aðeins fjallað um drög að því frv. sem hér er mælt fyrir en í þessari álitsgerð er m.a. bent á það að vinna skv. III. kafla frv. getur í mörgum tilvikum orðið mjög umfangsmikil. Þar segir orðrétt, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Ef aðstoð þessi á ekki að vera orðin tóm þarf að tryggja að lögmenn þeir sem veita þessa þjónustu fái greitt fyrir hana í einhverju samræmi við vinnuframlag sitt. Í reglugerð þeirri sem frv. gerir ráð fyrir í þessum efnum þarf að taka raunhæft á þessu atriði. Þá telur nefndin að aðgangur almennings að þessari þjónustu megi ekki vera of flókinn eða tafsamur. Það þarf að tryggja, e.t.v. með tímamörkum, að afgreiðsla hins opinbera á þessum málum gangi eðlilega fyrir sig.``
    Það er því full ástæða til að velta því fyrir sér hér, hæstv. forseti, hvort ætlunin sé að setja raunhæf markmið með þessu frv. eða hvort hér sé aðeins verið að reisa einhvern minnisvarða. Ráðamenn hæstv. ríkisstjórnar verða að sjálfsögðu að skera úr um það og ég vona að þeir beri gæfu til þess að komast að þeirri niðurstöðu sem best hentar því fólki sem á þessari aðstoð þarf að halda. Sú nefnd sem fær þetta mál til meðferðar mun væntanlega skoða þetta mál til hlítar.