Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Viðskiptaráðherra (Jón Sigurðsson):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga á þskj. 843 um að leggja niður Þróunarsjóð lagmetisiðnaðarins og ráðstafa eigum hans til framleiðenda lagmetisins og samtaka þeirra. Þetta frv. kemur frá hv. Ed. og er hér flutt til þess að greiða fram úr fjárhagserfiðleikum lagmetisframleiðenda en ekki síður til þess að einfalda og bæta rekstrarskilyrði lagmetisiðnaðarins með því að fella niður sjóði og sjóðagjöld sem ég tel úrelt orðin.
    Það er aðdragandi þessa máls að þessu sinni að Sölusamtök lagmetis lentu í alvarlegum fjárhagsörðugleikum á árunum 1988--1989 og má reyndar segja að gjaldþrot samtakanna hafi blasað við þegar á sl. hausti. Þessu fylgir ekki síst sá vandi að þessi samtök eru ekki sjálf persóna að lögum heldur eru aðildarfyrirtækin talin ábyrg fyrir skuldbindingu samtakanna. Í framhaldi af viðræðum við fulltrúa sölusamtakanna varð það niðurstaðan að leggja til að Þróunarsjóður lagmetisiðnaðarins verði lagður niður um næstu áramót. Við það fellur niður 1% gjald af lagmeti og 3% fullvinnslugjald af söltuðum og frystum matarhrognum. Þessi lausn kemur að öllu leyti í stað styrks eða framlags úr ríkissjóði til þess að leysa fjárhagserfiðleika samtakanna eins og samtökin höfðu óskað eftir. Með frv. er lagt til að eignum sjóðsins verði að stórum hluta varið til þess að greiða niður skuldir Sölusamtakanna og til sérstakra aðgerða fyrir lagmetisfyrirtækin. Nánar tiltekið er lagt til að mestum hluta af lausum eignum sjóðsins verði varið til þess að greiða niður skuldir Sölusamtakanna. Neikvætt eigið fé Sölusamtakanna var samkvæmt efnahagsreiningi þeirra 31. des. 1989 um 50 millj. kr. og þykir rétt að styrkja samtökin um þá fjárhæð þegar við gildistöku laganna af lausu fé Þróunarsjóðsins.
    Þá er lagt til að eignarhlutur sjóðsins í fasteigninni að Síðumúla 37 verði seldur og andvirðinu ráðstafað til Sölusamtaka lagmetis og lagmetisframleiðenda utan samtakanna samkvæmt ákvörðun sjóðsstjórnar. Eitt stærsta aðildarfyrirtæki samtakanna hefur reyndar sagt sig úr þeim miðað við næstu áramót, en það telst hins vegar bera sömu ábyrgð á skuldum samtakanna að sínu leyti eins og önnur aðildarfélög ef til gjaldþrots kæmi. Hér er því lagt til að það félag njóti góðs af þessum aðgerðum til jafns við aðra sem eru og verða áfram aðilar að samtökunum ef þau starfa framvegis. Um 90% af lagmeti hefur á síðustu árum verið á vegum Sölusamtaka lagmetis. Það er því eðlilegt að meginhluti eigna sjóðsins renni til þessara samtaka og aðildarverksmiðjanna í þeim. Hins vegar er bæði rétt og sjálfsagt að greiða einhvern hluta fjárins til starfandi verksmiðja sem eru utan samtakanna samkvæmt nánara mati sjóðsstjórnarinnar, t.d. eftir hlutfalli þessara fyrirtækja í útflutningi lagmetis undanfarin 2--3 ár.
    Mér þykir eðlilegt að verja tekjum ársins 1990 af gjöldum af lagmeti og hrognum til styrkja, lána eða hlutabréfakaupa er samrýmast tilgangi sjóðsins. Þar ber að hafa í huga að hluti af tekjum sjóðsins á

liðnum árum hafa komið af fullvinnslugjaldi af útfluttum matarhrognum og væri því full ástæða til að huga sérstaklega að styrkjum til fullvinnslu þeirra. Það verður líka gert eftir þvi sem sjóðsstjórnin hefur tjáð mér.
    Iðnrn. og Sölusamtök lagmetis beittu sér fyrir ítarlegri athugun á stöðu og horfum í greininni sem var gerð í árslok á liðnu ári. Meginniðurstöður þessarar athugunar voru þær að alþjóðlegur markaður fyrir lagmeti væri alltraustur og því hafi greinin í raun starfsgrundvöll. Hún hefur hins vegar lent í tímabundnum örðugleikum á undanförnum árum og þess vegna er nauðsynlegt að greiða úr fjárhagsvanda greinarinnar með utanaðkomandi aðstoð. Einstakir aðrir þættir til lausnar á vanda greinarinnar voru nefndir, svo sem samruni fyrirtækja og gæðaátak í lagmetisiðnaði og er nú unnið að þeim málum samhliða því sem lausna er leitað á fjárhagsvandanum sem hér er einkum til umræðu.
    Virðulegi forseti. Af því sem ég hef hér flutt má sjá að verulegur hluti af tekjum sjóðsins hefur komið frá hrognaframleiðendum sem ekki hafa notið mikils í ráðstöfun fjármuna úr sjóðnum. Það er reyndar fljótséð að á tæplega 20 ára starfsferli þessa sjóðs, sem er næstum jafnlangur og Sölusamtakanna, hafi hann í raun fyrst og fremst verið óbein fjármögnun á þeim, þ.e. Sölusamtökunum undir ýmsum nöfnum, sem hafa lent í síendurteknum efnahagsörðugleikum. Mín skoðun er sú að gjörbreyta þurfi um vinnulag og leggja meiri ábyrgð á fyrirtækin sjálf, og í raun og veru tel ég að þegar sjóðakerfi sjávarútvegsins var lagt niður í stórum dráttum, eins og þingmenn minnast, með mjög víðtæku samkomulagi á þinginu og meðal hagsmunaaðila, vorið 1986 hafi Þróunarsjóðurinn eiginlega gleymst. Nú væri fyrir þá gleymsku bætt og þessi sjóður lagður niður eins og aðrir sambærilegir millifærslusjóðir og eigum hans ráðstafað til þess að treysta fjárhag fyrirtækjanna sjálfra og létta skuldabagga af þeim sem þá hafa borið vegna Sölusamtakanna. Sölumálin yrðu þá framvegis án frekari atbeina ríkisins og fyrirtækjunum væri héðan af ætlað að finna sínar eigin leiðir til þess að koma sínum vörum á markað eftir því sem þau telja sjálf hyggilegast --- með frjálsum samtökum ef þau kjósa það --- en án ábyrgðar ríkisins eða fjáröflunar í því skyni.
    Eins og dæmin sanna hefur eitt stærsta fyrirtækið þegar sagt sig úr lögum við samtökin en sú úrsögn tekur þó fyrst gildi um næstu áramót. Þannig er frv. flutt í anda þeirrar hreyfingar sem þegar er uppi og sú lausn á fjárhagsvanda Sölusamtakanna sem hér er gerð tillaga um og unnið hefur verið að í samráði við fjmrn., sjútvrn. og reyndar umhvrn. gerir ekki ráð fyrir neinum styrk úr ríkissjóði. Þess í stað er lagt til að Þróunarsjóði lagmetisiðnaðarins, þeim sem lagmetisfyrirtækin og hrognaframleiðendur hafa að mestu leyti byggt upp, verði varið til þess að leysa þetta mál. Er þar með lokið, að mínu áliti, afskiptum ríkisins af þessari sölustarfsemi.
    Ég vil geta þess að það fé sem ekki rennur með

þessum hætti til fyrirtækjanna mundi renna til Iðnlánasjóðs til markaðs- og vöruþróunarstarfsemi á hans vegum fyrir lagmetisiðnaðinn en fyrirtækin í lagmetisiðnaðinum greiða iðnlánasjóðsgjald og mundu þar með eignast eins konar sérdeild innan markaðs- og vöruþróunardeildar Iðnlánasjóðs.
    Virðulegi forseti. Ég legg til að þessu máli verði að lokinni þessari umræðu vísað til hv. iðnn. þessarar deildar.