Málefni aldraðra
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Geir H. Haarde (frh.):
    Herra forseti. Ég var í miðri ræðu hér fyrir nokkrum vikum síðan þegar umræðum var frestað. Þær hafa síðan ekki verið hafnar að nýju fyrr en núna með samkomulagi milli mín og aðalforseta deildarinnar. Það er að vísu orðið svolítið um liðið síðan þetta mál var rætt, eins og ég sagði, en þetta er vafalaust mörgum þingmönnum í fersku minni, bæði frá því um daginn og eins frá því í fyrravor þegar þetta málefni var efnislega til umræðu á allra síðustu dögum þingsins. Þá upplýsti hæstv. utanrrh. og formaður Alþfl. að það mál sem hér er lagt til að breytt verði hafi verið slys og það frv. sem þá varð að lögum hafi að þessu leyti til ekki verið búið að fá samþykki stjórnarflokkanna og ætti að nota tímann sl. sumar til að leiðrétta þessi mistök. Nú er mér ekki kunnugt um að nein vinna hafi farið fram sem miðar að því að leiðrétta þau mistök sem þarna urðu og felast í því að taka upp á nýjan leik sérstakan nefskatt eða gjald í Framkvæmdasjóð aldraðra. En eins og kunnugt er voru öll slík smágjöld felld niður þegar hér var tekin upp staðgreiðsla skatta.
    Ég leyfði mér þess vegna ásamt tveimur öðrum hv. þm., sem komu að þessu máli á síðasta vori, að flytja nú í haust frv. um að breyta þessu ákvæði þannig að Framkvæmdasjóði aldraðra yrði framvegis tryggð hlutdeild í staðgreiðslufénu eins og verið hefur frá því að staðgreiðsla var upp tekin. En hinn endurvakti skattur, nefskattur svokallaður, falli niður og komi þess vegna aldrei til
framkvæmda. Þetta gjald sem lögfest var fyrir um það bil ári síðan átti að koma til framkvæmda á miðju ári í fyrra. Það tókst að fá því breytt á síðustu dögum þingsins og lögin eru þannig núna að þetta gjald mun koma til álagningar í sumar þegar álagning skatta fer fram um mánaðamótin júlí/ágúst.
    Frv. miðar sem sé að því að afturkalla þetta gjald og fella þetta mál í eðlilegan farveg og til samræmis við staðgreiðslukerfi skatta, án þess að Framkvæmdasjóður aldraðra bíði af því nokkurt fjárhagslegt tjón.
    Ég hef leyft mér að óska eftir því að hæstv. utanrrh., sem var hér fyrir augnabliki síðan, verði viðstaddur þessa umræðu og geri grein fyrir skoðunum sínum í þessu efni og geri grein fyrir því með hvaða hætti hann hefur framfylgt þeim loforðum sem hann gaf þinginu í fyrra vor um að nýta tímann, sem vannst með því að seinka upptöku þessa gjalds, til þess að finna aðra tekjuöflunarleið fyrir sjóðinn. Hæstv. utanrrh. hlýddi á mál mitt fyrir nokkrum vikum síðan þegar málið var afgreitt úr nefnd en hann hefur ekki séð ástæðu til þess að doka við núna þó að hann hafi staðið hér í gættinni þegar tilkynnt var að þetta mál yrði tekið til framhaldsumræðu nú. Ég hef óskað eftir því að það verði reynt að hafa upp á ráðherranum, en eitthvað mun það ganga erfiðlega að því er mér skilst. Þannig að ég mun þá áskilja mér rétt til að fresta enn ræðu minni ef svo ber undir. Hefur forseti nokkur tíðindi? ( Forseti: Forseti hefur

óskað eftir því að það verði leitað að hæstv. ráðherra og óskað að hann komi sem fyrst í þingsal. Það eru ekki upplýsingar enn um það hvort hans er að vænta.) Já, ég þakka forseta fyrir þessar upplýsingar.
    Ég vil aðeins rifja upp að ég lét það koma fram þegar málið kom til umræðu fyrir nokkrum vikum, að í raun og veru er í þessu máli um að ræða stórkostlega svikamyllu sem ríkisstjórnin núv. hefur komið upp. Vegna þess og í skjóli þess að hér er um að ræða málefni sem allir vilja styðja, Framkvæmdasjóð aldraðra, gott mál þar sem vissulega er full þörf á peningum til framkvæmda. En um það snýst ekki deilan í þessu máli, hún snýst eingöngu um það hvernig þessa fjár er aflað. Og nú er það gert þannig, virðulegur forseti, að það eru fyrst lagðir á skattar innan staðgreiðslukerfis skatta og síðan er ætlunin að leggja á sérstakt gjald, að sömu fjárhæð, 230 millj. kr., úr hvorri uppsprettunni fyrir sig, 460 millj. kr. sem þarna er aflað af skattþegnum landsins. Hins vegar renna aðeins innan við 200 millj. af þessum peningum öllum raunverulega til þessa málefnis. Mig minnir að það séu 197 millj. eftir þá meðferð sem Framkvæmdasjóður aldraðra hefur fengið í niðurskurðartillögum ríkisstjórnarinnar og fjáraukalagafrv. Afgangnum stingur fjmrh. í vasa ríkissjóðs.
    Það er þetta sem ég leyfi mér að kalla svikamyllu og fjárplógsstarfsemi á baki gamla fólksins í landinu og í skjóli þess að allir viljum við leggja Framkvæmdasjóði aldraðra lið. Það er þetta sem stjórnarflokkarnir núv. bera ábyrgð á. Það er þetta sem hæstv. utanrrh. hefur lýst yfir úr þessum ræðustól að hafi verið slys og sem ég hyggst krefja hann sagna um. Einhvern tímann kemur að því að hæstv. ráðherra verður að vera hér við þegar þetta mál er rætt og svara fyrir sín fyrri ummæli um það. Enda lýsti hann því yfir á síðasta vori að þetta nýja gjald samræmdist ekki hinu nýja staðgreiðslukerfi skatta og talaði þar vissulega eins og út úr mínu hjarta. Þó hann hafi hins vegar lagt þessu máli og þessari gjaldtöku sitt lið hér á Alþingi með atkvæði sínu eins og allir aðrir þingmenn Alþfl. sem þó þykjast á hátíðastundum hafa verið öflugasti drifkrafturinn í því að innleiða hér á landi staðgreiðslu skatta. Auðvitað er það allt saman einn farsi hvernig þessi virðulegi stjórnmálaflokkur, Alþfl., hefur hagað sér í þessu máli.
    Það er nú samt ekki svo að allir þingmenn hans hér hafi ekki vitað hvað þeir eru að gera, það er ekki þannig, virðulegi forseti. Því um tíma í vetur gegndi hv. 5. þm. Norðurl. v. Jón Sæmundur Sigurjónsson formennsku í fjh.- og viðskn. deildarinnar. Hann gerði sér lítið fyrir og afgreiddi þetta mál út úr nefndinni í samstarfi við aðra nefndarmenn. Ég hef áður fært honum þakkir fyrir það og vil gera það á nýjan leik þó hann hafi nú brugðið sér fram fyrir.
    Það kemur nefnilega glöggt fram í því nál. sem meiri hl. nefndarinnar hefur lagt fram að hv. þm. Jón Sæmundur Sigurjónsson, varaformaður nefndarinnar, skilur vel um hvað þetta mál snýst og það gera þeir líka sem skrifa undir það með honum, hv. þm.

Guðmundur G. Þórarinsson og Sverrir Sveinsson, sem hér sat í fjarveru Páls Péturssonar, formanns nefndarinnar á þessum tíma, 26. mars sl.
    En af hverju skyldi ég nú ráða það að þeir hafi skilið þetta mál til hlítar og fullnustu? Hvað er til marks um það að þeir viti vel hvað hér er á ferðinni? Jú, forseti, það er til marks um það að þeir hafa tekið upp úr rökstuðningi sjálfs frv., upp úr þeirri grg. sem sá sem hér talar samdi með frv., og gert þau orð að sínum. Það er samhljóma því sem lagt var fram í þessu máli á síðasta þingi. Rökstuðningurinn er því ekki bara í greinargerð frv., ekki bara í þeirri framsögu sem flutt var um málið þegar það var lagt fram og ekki eingöngu í skjölum sem um þetta mál voru lögð fram á þinginu í fyrra. Nú liggur hér fyrir skjalfest af hálfu stjórnarliða að allt það sem sagt hefur verið um þetta mál af minni hálfu og stuðningsmanna þessa frv. er satt og rétt. Það er ekki hægt að gera það með skýrari hætti en að taka manns eigin hugverk inn í nál. Þeir taka hugverk og grg. 1. flm. frv. inn í sitt nál. Ég hlýt að vera afskaplega stoltur yfir því að það skuli hafa verið gert og samþykkti það að sjálfsögðu fúslega þegar spurt var hvort ég hefði nokkuð á móti þeim vinnubrögðum. Það hafði ég að sjálfsögðu ekki.
    Ég ætla að leyfa mér að lesa hvaða texta er hér um að ræða. Ég get valið hann á ýmsum stöðum. Ég get valið hann úr grg. frv., ég get valið hann úr nál. stjórnarliða í fjh.- og viðskn., eða upp úr þskj. frá í fyrra, þetta er sami textinn. Þar segir, með leyfi forseta:
    ,,Rétt er að minna á að þegar staðgreiðslan var tekin upp féllu niður fjórir smáskattar sem urðu hluti staðgreiðslunnar og hækkaði álagningarhlutfall hennar sem þeim nam. Þessir skattar voru sóknargjald, kirkjugarðsgjald og sjúkratryggingargjald, auk hins sérstaka gjalds í Framkvæmdasjóð aldraðra. Með því að taka einn þessara skatta upp í tengslum við samþykkt nýrra laga um Framkvæmdasjóð aldraðra er verið að fitja að nýju upp á álagningu þessara smáskatta og gefa um leið fordæmi fyrir frekari beitingu þeirra, án þess að staðgreiðsluhlutfallið lækki á móti. Með þessu er verið að grafa undan framkvæmd staðgreiðslunnar sem hefur það að markmiði að sem flestir gjaldendur séu jafnan skuldlausir við ríkissjóð. Í núgildandi kerfi eru það eingöngu gjaldendur eignarskatta sem greiða eftir á sem og þeir sem ekki hafa staðgreitt skatta af tekjum sínum með venjulegum hætti. Allir smáskattar og fráhvarf frá samtímainnheimtu skatta gerir framkvæmd staðgreiðslunnar erfiðari og mun auka fjölda þeirra gjaldenda sem ekki eru gerðir upp að fullu í staðgreiðslunni.``
    Ég hefði ekki getað skrifað þetta betur sjálfur í nál. minni hl. En ég skrifaði þetta reyndar í grg. frv. ( For seti: Forseti telur rétt að fram komi að það hefur ekki náðst samband við hæstv. utanrrh.) Nei. Ég geri mér grein fyrir því að hann kann að hafa fyllilega lögmætar ástæður fyrir því að geta ekki verið hér og er ekkert meira um það að segja.

    Ég ætla að stytta mál mitt, herra forseti. Ég hef lokið þeirri upprifjun sem ég taldi nauðsynlega. Það kemur glöggt fram að nál. frá 1. minni hl. fjh.- og viðskn., sem þeir þrír hv. þm. sem ég nefndi standa að, er skrifað af fullum skilningi á því máli sem hér er verið að tala um og þar af leiðandi gegn betri vitund þeirra sem undir þetta nál. rita, gegn betri vitund þeirra. Þetta er auðvitað dálítið sérkennilegt, og ég veit ekki hvort það er einsdæmi í þingsögunni, það vita þeir sem hafa verið hér lengur en sá sem hér stendur, en að leggja síðan til að frv. sé vísað til ríkisstjórnarinnar á grundvelli þess rökstuðnings sem fylgir sjálfu frv. og ég var að lesa upp er auðvitað eilítil nýlunda. ( SV: Það er frábært.) Það hlýtur að vera dálítil nýlunda og meira að segja frábært, segir hinn dyggi stuðningsmaður ríkisstjórnarinnar, hv. 6. þm. Norðurl. e. Þetta er allt hið kostulegasta mál og minnir helst á framgöngu utanrrh. sjálfs í málinu sem auðvitað veit ekkert í hvorn fótinn hann á að stíga. Veit ekkert í hvorn fótinn hann á að stíga í þessu máli.
    Ég ætla ekki að lengja þetta frekar, virðulegi forseti. Ég óska eftir að fá að gera hlé á ræðu minni þar til ég fæ færi á að ræða þetta við hæstv. utanrrh. Ef það er ekki hægt núna má vera að það takist á morgun eða á föstudaginn eða einhvern næstu daga þegar fundur verður hér í deildinni. Ég fer sem sagt fram á það við forseta að ég fái hér að gera hlé á þessari ræðu.