Húsnæðisstofnun ríkisins
Þriðjudaginn 24. apríl 1990


     Félagsmálaráðherra (Jóhanna Sigurðardóttir):
    Virðulegi forseti. Ég mæli hér fyrir frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, eða þann hluta laganna sem fjallar um félagslegar íbúðir, en frv. hefur nú verið afgreitt frá efri deild.
    Forsaga þessa máls er sú að í maí 1988 skipaði ég vinnuhóp til að athuga fyrirkomulag og fjármögnun félagslega kerfisins og benda á leiðir til úrbóta. Vinnuhópurinn skilaði í febrúar 1989 ítarlegri skýrslu um fyrirkomulag félagslega íbúðalánakerfisins og tillögum um úrbætur. Í niðurstöðum vinnuhópsins kemur fram það álit að núverandi fyrirkomulag félagslega húsnæðislánakerfisins hafi ýmsa annmarka og þurfi að taka til endurskoðunar. Vinnuhópurinn taldi að binda eigi opinberar aðgerðir til jöfnunar á húsnæðiskostnaði við aðstæður einstaklinganna hverju sinni en ekki ákvarða aðstoðina á grundvelli tekna heimilisins á einum tímapunkti eins og nú er gert.
    Athugun á tekjum íbúa í verkamannabústöðum í Reykjavík gefur vísbendingu um að hluti íbúanna sé kominn yfir tekjumörk félagslega íbúðalánakerfisins eftir nokkurra ára búsetu. Í skýrslunni segir frá athugun á tekjum íbúa í verkamannabústöðum í Reykjavík sem gefur vísbendingu um að 20--30% hjóna hafi, eftir nokkurra ára búsetu, tekjur sem eru hærri en leyfilegar hámarkstekjur þeirra sem eiga kost á að kaupa verkamannabústað.
    Í skýrslunni er sagt frá upplýsingum um útleigu verkamannabústaða. Samkvæmt athugun stjórnar verkamannabústaða í Reykjavík voru 150 íbúðir í útleigu á árinu 1988, en 100 þeirra voru leigðar út án heimildar.
    Fram kemur það álit vinnuhópsins að séreignastefna hins opinbera gangi of langt þegar íbúðakaupendum í verkamannabústöðum er lánað allt að 100%
kostnaðarverðs úr Byggingarsjóði verkamanna. Frá 1986 til loka ársins 1988 lætur nærri að um 30% íbúðakaupenda verkamannabústaða hafi fengið viðbótarlán úr Byggingarsjóði verkamanna vegna erfiðrar fjárhagsstöðu og þar með fengið allt kostnaðarverð íbúðarinnar að láni hjá Byggingarsjóði verkamanna. Einnig er ljóst að íbúðarkaup í verkamannabústöðum eru ofviða mörgu því fólki sem fær úthlutað íbúð. Ávallt er nokkur fjöldi sem á í erfiðleikum með að standa í skilum vegna verkamannabústaða, þrátt fyrir hátt lánshlutfall og hagstæð kjör. Árlega fara fram nauðungarsölur á íbúðum í verkamannabústöðum. Árið 1988 voru nauðungarsölur verkamannabústaða í Reykjavík 17 talsins. Á síðasta ári voru samkvæmt upplýsingum frá Húsnæðisstofnun samtals um 40 íbúðir í verkamannabústöðum seldar á nauðungaruppboði. Ljóst er því að nauðsynlegt er að leiguhúsnæði sé fullgildur valkostur á húsnæðismarkaðnum.
    Sú skoðun kom fram í vinnuhópnum að stjórnun á verkamannabústaðakerfinu væri þung í vöfum og ekki nægjanlega öflug. Margir aðilar koma við sögu, kaupandi, sveitarstjórn, stjórn verkamannabústaða og Byggingarsjóður verkamanna auk verktaka.

Verkaskipting og ábyrgð á einstökum þáttum er oft óskýr. Stjórnir verkamannabústaða eru kjörnar eftir hverjar sveitarstjórnarkosningar. Mannaskipti eru tíð og því er nauðsynlegri þekkingu á framkvæmd laga um félagslegar íbúðir oft áfátt. Reglur sem gilda um íbúðir í verkamannabústöðum eru margar flóknar, t.d. um endursölu, auk þess sem mismunandi reglur gilda allt eftir því hvenær íbúðirnar voru byggðar. Þess vegna er mikilvægt að þekking og reynsla við stjórnun félagslegra íbúða sé í föstum og skipulögðum farvegi.
    Í skýrslunni frá 1988 voru settar fram ýmsar hugmyndir um endurbætur á núverandi fyrirkomulagi félagslega íbúðalánakerfisins.
    Í fyrsta lagi er bent á lagfæringar sem hægt er að gera án þess að breyta þeirri forsendu að veitt verði sérstök niðurgreidd lán til félagslegra íbúða. Í því sambandi eru m.a. kynntar hugmyndir um að vextir af lánum til félagslegra eignaríbúða verði endurskoðaðir eftir ákveðinn tíma eða endurgreiðslur verði tekjutengdar.
    Í annan stað eru settar fram hugmyndir um grundvallarbreytingar á skipan hins félagslega þáttar húsnæðiskerfisins. Þar er gert ráð fyrir að félagsleg aðstoð vegna húsnæðiskostnaðar verði fastbundin afkomu og eignastöðu hverju sinni. Miðað er við að aðstoðin sé almenn og miðuð við félagslega stöðu og tekjur en henni hætt jafnskjótt og hagur vænkast. Jafnframt var m.a. benti á nauðsyn þess að stuðla að auknu framboði leiguhúsnæðis og að húsnæðiskostnaður leigjenda verði greiddur niður með sérstökum húsaleigubótum til jafns við aðstoð hins opinbera við íbúðareigendur fyrir milligöngu skattakerfisins.
    Í framhaldi af þessari undirbúningsvinnu skipaði ég síðan í júlí 1989 nefnd til að endurskoða og gera tillögur um framtíðarskipan félagslega hluta húsnæðiskerfisins. Hlutverk nefndarinnar var samkvæmt skipunarbréfi að leggja fram tillögur um endurbætur á fyrirkomulagi lánveitinga til félagslegra íbúðarbygginga með það að markmiði að einfalda lánafyrirkomulag og auka skilvirkni félagslega íbúðalánakerfisins. Nefndinni var falið að gera tillögur um breytt fyrirkomulag og stjórnun og úthlutun á félagslegri aðstoð í húsnæðiskerfinu. Jafnframt var henni falið að gera tillögur um framkvæmd
ráðstafana og leiða til að auka framboð leiguhúsnæðis og til að jafna húsnæðiskostnað leigjenda til samræmis við húseigendur.
    Nefndin skilaði sameiginlegum niðurstöðum sínum 12. febr. sl. Verkefni hennar var annars vegar að endurskoða og einfalda fyrirkomulag félagslega húsnæðiskerfisins og hins vegar málefni leigjenda. Niðurstöður nefndarinnar eru birtar í skýrslu til félmrh. sem þingmenn hafa fengið og í frv. til laga um breytingu á lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins, sem hér er til umræðu. Í skýrslunni er fjallað um tillögur nefndarinnar um endurbætur á félagslega húsnæðiskerfinu, tillögur um breytt skipulag húsnæðismála og tillögur er lúta sérstaklega að málefnum leigjenda, þ.e. tillögur um húsaleigubætur,

húsaleigumiðlanir, aukið framboð leiguhúsnæðis og endurskoðun laga um húsaleigusamninga. Í frv. því sem hér er til umræðu eru síðan tillögur um breytingar á félagslega hluta húsnæðiskerfisins.
    Mjög góð samstaða var í nefndinni um niðurstöðurnar. Í nefndinni komu þó fram ólík sjónarmið og áherslumunur varðandi tillögur um skipan í húsnæðisnefndir sveitarfélaga. Það að nefndin skilar sameiginlegu áliti undirstrikar þá áherslu sem hún leggur á nauðsyn þess að breyta núverandi fyrirkomulagi en í nefndinni áttu sæti bæði fulltrúi sveitarfélaganna í landinu og fulltrúi samtaka launafólks.
    Við undirbúning að lagasetningu um kaupleiguíbúðir var tekið mið af stöðu húsnæðismála á landsbyggðinni. Kaupleiguíbúðirnar hafa þegar sannað gildi sitt og hafa þær verið lyftistöng fyrir húsnæðismálin á landsbyggðinni. Það er alveg ljóst að kaupleiguíbúðirnar opnuðu nýjan möguleika fyrir byggingu leiguíbúða sem höfðu mjög legið í láginni í mörg ár. Segja má að almenna húsnæðislánakerfið hafi verið í stöðugri þróun og endurnýjun frá árinu 1983. Útlán Húsnæðisstofnunar ríkisins hafa aukist jafnt og þétt en frá árinu 1983 hafa heildarútlán stofnunarinnar aukist um a.m.k. 10% á ári. Heildarútlán Húsnæðisstofnunar frá upphafi, eða frá árinu 1956 til loka ársins 1989 eru um 112 milljarðar kr. á núvirði. Af þeirri fjárhæð hefur 31 milljarður eða 28% verið lánuð út á árunum 1987, 1988 og 1989. Af þessu má ráða hve aðild ríkisvaldsins er orðin mikil í lánveitingum til húsnæðismála og er bein þátttaka hins opinbera í lánveitingum til íbúðarmála hæst hér á landi af öllum Norðurlöndunum. Sú staðreynd undirstrikar nauðsyn þess að gæta vel að því að lánakerfið þjóni vel markmiðum sínum og að sú aðstoð sem veitt er til að jafna húsnæðiskostnað landsmanna komi þeim til góða sem mesta þörf hafa fyrir slíkt, láglaunafólki og barnafjölskyldum.
    Á árinu 1986 var tekið upp lánafyrirkomulag sem byggðist á almennum rétti til niðurgreiddra lána úr húsnæðiskerfinu án tillits til þarfa, fjölskyldustærðar, eigna eða tekna. Með gildistöku laga um húsbréfaviðskipti og vaxtabætur í fyrra urðu miklar breytingar á húsnæðiskerfinu. Þessar breytingar, húsbréfin og vaxtabæturnar, leiða til þess að dregið er úr beinni þátttöku hins opinbera við lánveitingar til húsnæðismála og að stuðningur hins opinbera vegna útvegunar eigin húsnæðis er tekju- og eignatengdur.
    Að því er varðar einstakar greinar frv. skal vikið að því helsta.
    Í 1. gr. er sett fram sú stefnumótun að stuðlað skuli að jafnrétti í húsnæðismálum með því að fólk geti valið um að kaupa eða leigja húsnæði, að aðstoð hins opinbera vegna íbúðalána taki jafnt til eignar- og leiguíbúða. Hingað til hefur áhersla verið lögð á það að fólki sé gert kleift að eignast húsnæði þótt það megi ljóst vera að nokkur hluti landsmanna á þess engan kost og öðrum hentar betur að leigja af ýmsum ástæðum. Það er því réttlætismál að lögin taki til þess hóps og það sé viðurkennt að leiguhúsnæði sé kostur

sem á að vera til staðar og hentar mörgum vel.
    Í 2. gr. er fjallað um einföldun og samræmingu lánaflokka vegna félagslegra íbúða. Lánaflokkurinn Lán til almennra kaupleiguíbúða, sem nú er í Byggingarsjóði ríkisins, færist yfir í Byggingarsjóð verkamanna og tilheyrir félagslegum húsnæðislánum. Almennar kaupleiguíbúðir eru byggðar á félagslegum forsendum, eignarhald er félagslegt og rekstur einnig. Einnig eru ýmsar takmarkanir á endursölu almennra kaupleiguíbúða svipað því sem gildir um félagslegt húsnæði, t.d. að framkvæmdaraðili hefur kaupskyldu fyrstu fimm árin og síðan forkaupsrétt. Almennar kaupleiguíbúðir eiga því meiri samleið með félagslegum íbúðum en með íbúðum í almenna húsnæðislánakerfinu. Lánaflokkurinn Lán til útrýmingar á heilsuspillandi húsnæði er felldur niður enda þjónar lánaflokkur Byggingarsjóðs verkamanna í raun slíkum tilfellum og því óþarft að viðhalda slíkum lánaflokki.
    Í 3. gr. er kveðið á um nýjan kafla með 52 nýjum greinum undir heitinu Félagslegar íbúðir. Þar eru samræmd núgildandi ákvæði um almennar kaupleiguíbúðir, kafli um Byggingarsjóð verkamanna og félagslegar íbúðir og kafli um félagslegar kaupleiguíbúðir.
    Fyrst er kveðið á um þau markmið sem sett eru varðandi félagslegar aðgerðir í húsnæðismálum og eiga að rúmast innan heildarmarkmiða laga um Húsnæðisstofnun ríkisins. Hér er lögð áhersla á þann skilning að aðstoð hins opinbera sé óháð eignarhaldsformum, að jöfnuður sé í þessu tilliti milli
þeirra sem búa í eigin húsnæði og leigjenda. Lykilatriði í markmiðsgreininni eru jöfnuður, öryggi og val. Lögð er áhersla á að miða félagslega aðstoð í húsnæðismálum við aðstæður einstaklinga hverju sinni en ekki ákvarða hana í eitt skipti fyrir öll.
    Þá er mörkuð sú stefna að opinberar aðgerðir miði að því að fólk þurfi ekki að verja meira en þriðjungi af tekjum sínum í húsnæðiskostnað. Einnig er lögð áhersla á nauðsyn þess að dreifa og blanda félagslegum íbúðum fremur en að einangra þær margar saman á sérstökum svæðum.
    Í 2. gr. er fjallað um skilgreiningar á lánaflokkum þeim sem tilheyra félagslegum íbúðum, tekið er upp heitið ,,félagslegar eignaríbúðir`` í stað verkamannabústaða. Heitið ,,félagslegar leiguíbúðir`` kemur í stað leiguíbúðir á vegum sveitarfélaga og félagasamtaka. Rök fyrir því að nota fremur félagslegar eignaríbúðir en verkamannabústaði er sú að hið síðarnefnda þykir of þröngt þegar hafður er í huga sá þjóðfélagshópur sem á rétt á þessum íbúðum.
    Þá er í greininni kveðið á um að almennar kaupleiguíbúðir teljist til félagslegra íbúða, eins og áður var vikið að. Einnig er gert ráð fyrir að lánshlutfall vegna félagslegra íbúða hækki úr 85% í 90% og lánstími kaupleiguíbúða og leiguíbúða verði lengdur í 50 ár.
    Frv. gerir ráð fyrir að lánaflokkar í Byggingarsjóði verkamanna verði fjórir, þ.e. lán til félagslegra kaupleiguíbúða, lán til félagslegra eignaríbúða, lán til

félagslegra leiguíbúða og lán til almennra kaupleiguíbúða. Þeir sem geta staðið að byggingu félagslegra íbúða eru sveitarfélög eða félagasamtök að undanskildum félagslegum eignaríbúðum sem eingöngu eru á vegum sveitarfélaga. Þeim breytingum sem felast í hækkun lánshlutfalls og lengri lánstíma í sumum tilfellum er ætlað að samræma lánaflokkana auk þess sem lán til byggingar eða kaupa á leiguíbúðum verða mun aðgengilegri en áður. Með þessu er ætlunin að hvetja til aukins framboðs á leiguhúsnæði.
    Í frv. felst sú veigamikla breyting að stjórnir verkamannabústaða og leigunefndir sveitarfélaga verða lagðar niður og húsnæðismál sveitarfélaga verða settar undir sérstakar húsnæðisnefndir sveitarfélaga sem verða skipaðar að afloknum sveitarstjórnarkosningum. Í húsnæðisnefnd eiga sæti þrír fulltrúar sveitarfélagsins kjörnir af sveitarstjórn og tveir fulltrúar tilnefndir af stærstu samtökum launafólks í sveitarfélaginu. Hver húsnæðisnefnd á að starfa á ábyrgð sveitarfélags sem ber ábyrgð á framkvæmdum, uppgjöri og fjármagni þess.
    Í meðferð efri deildar á þessu frv. var sú breyting gerð að þar sem sveitarfélög með fleiri en 10.000 íbúa hafa verulega meiri umsvif hvað varðar félagslegar byggingar þótti eðlilegt að húsnæðisnefndir í viðkomandi sveitarfélagi séu skipaðar sjö mönnum. Einnig er skýrt kveðið á um, eftir meðferð frv. í efri deild, að húsnæðisnefnd hafi umsjón með byggingu félagslegs húsnæðis eins og fram kemur í grg. með frv. Slíkt er gert í umboði sveitarstjórnar.
    Eins og ég vék að áðan var góð samstaða í nefndinni en ólík sjónarmið og áherslumunur kom fram varðandi skipan í húsnæðisnefndir. Fulltrúar samtaka launafólks voru ósáttir við að þeirra fulltrúum væri fækkað og fulltrúi sveitarfélaganna vildi fremur að sveitarfélögin skipuðu húsnæðisnefndir alfarið án tilnefningar frá samtökum launafólks. Niðurstaðan er því málamiðlun sem aðilar sættust á til að tefla ekki nauðsynlegri breytingu á félagslega húsnæðiskerfinu í tvísýnu.
    Mikil hagræðing felst í því að koma á fót húsnæðisnefndum. Allt félagslegt húsnæði sveitarfélagsins verður undir einni stjórn. Málefnum leigjenda verður sinnt og umsjón með framkvæmdum verður á einni hendi. Þar með ætti þjónustan að verða betri og tryggt að sú þekking sem nauðsynleg er í þessu sambandi fái meiri festu hjá starfsfólki sveitarfélagsins. Eins og nú háttar heyra félagslegar eignaríbúðir eða verkamannabústaðir undir stjórnir verkamannabústaða en félagslegar kaupleiguíbúðir, leiguíbúðir og íbúðir aldraðra heyra beint undir sveitarstjórnir. Samkvæmt núgildandi lögum eru stjórnir verkamannabústaða skipaðar þrem fulltrúum tilnefndum af sveitarfélögum en aðildarfélög ASÍ tilnefna tvo fulltrúa og félag opinberra starfsmanna tilnefnir einn fulltrúa. Félmrh. skipar stjórnir verkamannabústaða og í sveitarfélögum með yfir 10 þús. íbúa skipar félmrh. einn mann til viðbótar í stjórnina og skal hann vera formaður.
    Þar sem stjórnir verkamannabústaða eru nú

skipaðar af félmrh. tilheyra þær stjórnsýslu ríkisins en ekki sveitarfélags. Það hlýtur að teljast óheppilegt með hliðsjón af því að sveitarfélögin leggja fram óafturkræf framlög til verkamannabústaða og bera ábyrgð á framkvæmdum. Í núverandi fyrirkomulagi eru valdamörk milli sveitarstjórna og stjórna verkamannabústaða oft óljós enda hafa ýmis erindi borist félmrn. vegna ágreinings af þeim sökum. Tengsl milli stjórna verkamannabústaða og sveitarfélaga eru afar misjöfn, í sumum sveitarfélögum lítil sem engin. Stjórnunum eru falin veigamikil verkefni án þess að ábyrgð þeirra sé skýr. Þá hefur verið bent á hve óheppilegar þær tíðu
mannabreytingar eru sem átt hafa sér stað í stjórnum verkamannabústaða. Einnig eru dæmi um að uppgjör vegna byggingarkostnaðar verkamannabústaða hafi dregist úr hömlu, jafnvel í þrjú ár, og leitt til mikilla vandræða fyrir íbúa og byggingarsjóði. Í sumum minni sveitarfélögum hefur vandinn verið leystur með því að fela sérstökum starfsmanni bæjarfélagsins að annast fjármál vegna verkamannabústaða og hafa umsjón með endursölu þeirra, en annars staðar er hann óleystur.
    Tillagan um húsnæðisnefndir með forræði sveitarfélagsins og skýrum ákvæðum um ábyrgð og ráðstöfun félagslegra íbúða felur í sér mjög nauðsynlega grundvallarbreytingu á stjórnun félagslegra íbúðarmála. Áhersla er lögð á upplýsingar um þá kosti sem fyrir hendi eru og jafnframt að við úthlutun félagslegra eignaríbúða verði greiðslugeta umsækjenda metin og þeim sem ekki er ráðlagt að festa kaup á íbúð bent á leiguhúsnæði. Eðlilegt er að húsnæðisnefnd hafi umsjón með þessu verkefni þar sem eftirlit með félagslegu húsnæði á vegum sveitarfélagsins í heild sinni er á hennar vegum.
    Markmið tillagna nefndarinnar er einföldun og samræming félagslegrar aðstoðar í húsnæðismálum og því lagt til að húsaleigunefndir verði lagðar niður og verkefni þeirra færð til húsnæðisnefnda.
    Það er rétt að nefna í þessu sambandi að á Akureyri hefur sveitarfélagið þegar fetað sig í átt að samræmingu í umsýslu með félagslegum íbúðum á vegum sveitarfélagsins með því að koma á sérstakri húsnæðisskrifstofu sem opnuð var í febrúar sl.
    Í 57.--63. gr. er kveðið á um skyldur og ábyrgð framkvæmdaaðila að félagslegum íbúðum. Lögð er rík áhersla á það í frv. að skýrt komi fram hver beri ábyrgð á félagslegu húsnæði og að hvert og eitt sveitarfélag beri ábyrgð á félagslegu húsnæði á vegum þess. Í núgildandi lögum er ekki nægilega skýrt fjallað um það hvernig ábyrgð skiptist á milli stjórnar verkamannabústaða, sveitarstjórna og Byggingarsjóðs verkamanna.
    Í 60. gr. er kveðið á um að taka í lög þá heimild sem nú er í reglugerð um Byggingarsjóð verkamanna að taka 1% af endursöluverði félagslegrar eignaríbúðar vegna kostnaðar við að annast endursöluna. Jafnframt er kveðið skýrt á um að allur kostnaður verði á herðum sveitarfélaga en framkvæmd þessara mála er nú með þeim hætti að ýmis kostnaður, t.d. ef íbúðin

stendur tóm vegna viðgerða, hefur verið greiddur af Byggingarsjóði verkamanna. Þannig er lagt til að heimild til gjaldtöku verði lögfest en jafnframt skýrt kveðið á um ábyrgð framkvæmdaraðila vegna umsýslukostnaðar við endursölu.
    Þá er sú nýjung gerð varðandi fjármögnun Byggingarsjóðs verkamanna að bein og óafturkræf framlög sveitarfélaga sem byggja félagslegar eignaríbúðir eru felld niður. Þess í stað er þeim gert að lána sjóðnum 10% af kostnaðarverði hverrar íbúðar með því að kaupa skuldabréf af Byggingarsjóði verkamanna. Lagt er til að lánstími skuldabréfanna verði 15 ár og vextir þeir sömu og gilda um útlán sjóðsins hverju sinni. Tillaga um að fella niður óafturkræf framlög sveitarfélaga er sett fram til samræmingar við kaupleiguíbúðir en þar er ekki um að ræða óafturkræf framlög sveitarfélaga. Rökin fyrir láni sveitarfélaga til félagslegra eignaríbúða eru þau að með því móti megi tryggja ábyrgð þeirra á byggingu félagslegra eignaríbúða. Með því að hverfa frá óafturkræfu framlagi yfir í lán af hálfu sveitarfélaga megi jafnframt auðvelda sveitarfélögum að taka þátt í því að koma upp félagslegum íbúðum.
    Samkvæmt frv. er lagt til að felld verði niður heimild til þess að lán megi nema 100% byggingarkostnaðar, sbr. heimild 66. gr. laga nr. 86/1988, um 10% viðbótarlán ef um er að ræða sérstaklega erfiðar fjölskyldu- og fjárhagsaðstæður. Eðlilegt hlýtur að teljast að þeir sem kaupa íbúðir eigi fyrir nokkurn sparnað og leggi fram hluta kaupverðs. Reynslan hefur sýnt að þeir sem fengið hafa slíkt viðbótarlán geta oft ekki staðið í skilum og getur því slík aðstoð snúist upp í andhverfu sína. Því er hér lagt til að umsækjendum, sem eru það illa staddir að þeir sjá ekki fram á að kaupa eignaríbúð með öðrum hætti en 100% láni, sé vísað á félagslegt leiguhúsnæði enda miða tillögur frv. að því að framboð á félagslegu leiguhúsnæði aukist.
    Í frv. er lagt til að vextir af framkvæmdalánum Byggingarsjóðs verkamanna verði hækkaðir. Framkvæmdalán hafa hingað til verið á mismunandi kjörum eftir því hvor byggingarsjóðurinn á í hlut. Frv. gerir ráð fyrir að vextir framkvæmdalána til byggingar félagslegra íbúða verði samræmdir því sem gerist í Byggingarsjóði ríkisins þannig að byggingarkostnaður sé sambærilegur. Þessi tillaga er einnig liður í því að koma í veg fyrir að uppgjör
byggingarkostnaðar dragist úr hömlu eins og margoft hefur gerst á undanförnum árum. Tafir á uppgjöri hafa dregið úr lánamöguleikum byggingarsjóðsins.
    Það er stefna frv. að niðurgreiðsla vegna félagslegra íbúða verði tekjutengdari en verið hefur og færist í ríkari mæli yfir í skattkerfið, rétt eins og gert er í almenna húsnæðiskerfinu, en verði ekki í formi vaxtaniðurgreiðslu framkvæmdalána.
    Í frv. er lagt til að stærðarmörk félagslegra íbúða verði hin sömu og nú gilda um kaupleiguíbúðir eða 130 fermetrar, sama hvers konar íbúð á í hlut.
Mikilvægt er að halda niðri húsnæðiskostnaði fólks og ólíklegt má telja að fólki sé í kot vísað þó íbúðir séu

ekki stærri enda hefur fjölskyldustærð hér á landi minnkað á undanförnum árum.
    Sú breyting er gerð í frv. að greint er á milli tekna hjóna og einhleypinga varðandi þau tekjumörk sem gilda um rétt manna til félagslegra íbúða. Nú gildir sama viðmiðun fyrir einstakling og hjón. Fjölskylduaðstæður hafa breyst verulega á sl. árum, allur meginþorri kvenna vinnur utan heimilis og aflar tekna, þannig að eðlilegt er að taka tillit til þess að hjón hafa hærri tekjur samanlagt en einhleypingar. Lagt er til að núgildandi tekjumörk fyrir hjón verði hækkuð um 25%.
    Varðandi þau skilyrði sem gilda um rétt til kaupa á félagslegri eignaríbúð eru þau nýmæli í frv. að gert er ráð fyrir tekjulágmarki, þ.e. að kaupandi eignaríbúðar verði að sýna fram á að geta staðið undir kaupunum og að greiðslugetan verði metin. Reglan sem hér er sett er sú að húsnæðiskostnaður megi ekki fara yfir þriðjung tekna. Með þessum breytingum er verið að tryggja að íbúðum sé ekki úthlutað til þeirra sem ekki ráða við kaup og þar með reynt að koma í veg fyrir mikil vandræði. Fólk sem lendir undir lágmarkinu verður að eiga kost á leiguhúsnæði enda sýni tekjur að viðkomandi ræður ekki við annað en lága húsaleigu.
    Í 86. gr. er fjallað um hert viðurlög við óleyfilegri útleigu félagslegra eignaríbúða. Upplýst er að nokkuð er um það að verkamannabústaðir, sem úthlutað er á félagslegum forsendum, eru leigðir út án heimildar stjórna verkamannabústaða. Mikilvægt er að reglur um útleigu á félagslegum eignaríbúðum verði hertar, svo og refsingar við óleyfilegri útleigu. Rök fyrir hinum hertu viðurlögum eru þau að félagslegar íbúðir skulu einungis nýttar af því fólki sem hefur þörf fyrir þær.
    Í 87. gr. er fjallað um takmarkanir á heimildum til veðsetningar á félagslegum eignaríbúðum. Þegar lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var breytt árið 1980 og lán til félagslegra íbúða hækkuðu upp í 90% af kostnaðarverði giltu ákvæði um að íbúðareigendum í verkamannabústöðum væri óheimilt að veðsetja íbúðir sínar fyrir öðrum lánum en lánum Byggingarsjóðs verkamanna fyrstu 15 árin frá útgáfu afsals. Með lögum um Húsnæðisstofnun ríkisins var sú breyting á gerð um þetta atriði að íbúðareigendum var heimilað að veðsetja íbúðir sínar fyrir öðrum lánum. Athuganir á greiðsluerfiðleikum og nauðungarsölum sýna að óheppilegt er að hafa slíka heimild til veðsetningar félagslegra eignaríbúða án takmörkunar þegar um er að ræða hátt lánshlutfall. Því er hér lagt til að heimild til veðsetningar verði bundið því að eigandi hafi greitt af láninu og að óheimilt verði að veðsetja íbúðina fyrir öðrum lánum fyrr en greitt hefur verið af láni Byggingarsjóðs verkamanna sem nemi því að fjárhæð lánsins sé lægri en 75% af uppfærðu kostnaðarverði íbúðarinnar.
    Í 91. gr. er kveðið á um hertar reglur er lúta að uppgjöri á byggingarkostnaði. Hér er lögð til sú breyting að ákveða frest sem framkvæmdaraðili hafi til að láta kaupanda í té afsal fyrir íbúðinni enda hafi kaupandi þá staðið í skilum að fullu. Hæfilegt þykir

að veita framkvæmdaraðila tveggja mánaða frest. Reynslan hefur sýnt að nauðsynlegt er að veita framkvæmdaraðila ákveðið aðhald svo óeðlilegur dráttur verði ekki á afsali til kaupanda.
    Í frv. er lagt til að sú regla sem nú gildir um almennar og félagslegar kaupleiguíbúðir, að vaxtakjör á lánum skuli endurskoðuð með ákveðnu millibili, gildi um allar félagslegar íbúðir. Hér er um eitt af grundvallaratriðum þessa frv. að ræða og kemur fram í markmiðsgreininni, þ.e. opinberar aðgerðir til jöfnunar á húsnæðiskostnaði miðist við aðstæður fólks á hverjum tíma en séu ekki bundnar við eina tímasetningu. Með þessu er leitast við að tryggja að félagslegar íbúðir þjóni markmiðum sínum og að sú aðstoð sem veitt er með niðurgreiddum vöxtum sé háð tekjum.
    Samkvæmt könnun sem gerð hefur verið á kjörum þeirra sem búa í verkamannabústöðum batna kjör margra er fram líða stundir og er allstór hluti íbúa verkamannabústaða yfir þeim tekjumörkum sem gengið er út frá við úthlutun íbúða. Því má álykta sem svo að þeir þurfi ekki jafnmikla félagslega húsnæðisaðstoð og þegar þeir sóttu um.
    Í frv. er því gert ráð fyrir að tekjur eigenda félagslegra íbúða verði kannaðar eftir átta ár, eins og nú gildir um félagslegar kaupleiguíbúðir og heimilt verði að endurskoða vaxtakjör til samræmis við þá vexti sem gilda um almennar kaupleiguíbúðir komi í ljós að kjör hafi batnað. Þar með verður dregið úr félagslegri aðstoð og lán greiðast hraðar niður. Í frv. var gert ráð fyrir að tekjur væru síðan athugaðar á fimm ára fresti en við meðferð frv. í Ed. var það stytt í þrjú ár.
    Virðulegi forseti. Í tengslum við kjarasamninga launafólks og vinnuveitendur í febrúar sl. lýsti ríkisstjórnin því yfir að í framhaldi af tillögum þeim sem hér liggja fyrir í þessu frv. verði skipuð nefnd með þátttöku samtaka launþega sem geri áætlun um hvernig auka megi framboð á félagslegu húsnæði. Nefndin verður skipuð þegar þetta frv. hefur hlotið afgreiðslu hér á Alþingi en stefnt
er að því að hún ljúki störfum fyrir 1. sept. 1990. Þetta undirstrikar nauðsyn þess að málið fái afgreiðslu á yfirstandandi þingi.
    Þörf fyrir félagslega aðstoð er enn langt umfram framboð félagslegra íbúða. Þessi staðreynd undirstrikar enn frekar nauðsyn þess að það fjármagn sem lagt er í félagslega húsnæðiskerfið nýtist sem best og komi þeim til góða sem mesta þörf hafa fyrir aðstoð. Í þessu frv. eru settar fram tillögur í því augnamiði að fjármagn nýtist betur og afkastageta lánakerfisins aukist. Tillögurnar ganga bæði í þá átt að auka tekjur Byggingarsjóðs verkamanna og auka útgjöld hans. Hækkun vaxta á framkvæmdalánum og öðrum lánum sjóðsins auka tekjur hans. Lenging lánstíma leiðir einnig til þess að endurgreiðslur lána til sjóðsins aukast þegar til lengri tíma er litið. Gert er ráð fyrir að það fé sem ætlað hefur verið til almennra kaupleiguíbúða færist yfir í Byggingarsjóð verkamanna, sjóðurinn fái auknar vaxtatekjur og þeir

sem búa nú við betri hag greiði meira af félagslegum íbúðarlánum sínum. Þá er gert ráð fyrir að tilkoma húsbréfakerfisins muni smám saman létta á Byggingarsjóði ríkisins og hluti þess fjár verði látinn renna til Byggingarsjóðs verkamanna, þangað sem þörfin er mest.
    Samkvæmt kostnaðarmati Fjárlaga- og hagsýslustofnunar fjmrn. leiða tillögur frv. ekki af sér aukin útgjöld fyrir ríkissjóð. Hér er fyrst og fremst um að ræða að nýta það fjármagn sem fyrir hendi er í Byggingarsjóði verkamanna með öðrum og hagkvæmari hætti en áður. Hækkun vaxta, lenging lánstíma, afnám 100% lánveitinga og heimild til að endurskoða vaxtakjör lántakenda hefur í för með sér að staða Byggingarsjóðs verkamanna styrkist.
    Ég vil, virðulegi forseti, undirstrika í lokin mikilvægi þess að frv. þetta nái fram að ganga á þessu þingi. Ég hef ástæðu til að ætla að nokkuð breið samstaða geti verið um þetta mál á hæstv. Alþingi.
    Ég vil að lokinni þessari umræðu leggja til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. félmn.