Lánasýsla ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Frsm. fjh.- og viðskn. (Guðmundur Ágústsson):
    Virðulegi forseti. Vegna orða hv. þm. Halldórs Blöndals vil ég taka það fram að í nefndinni var einmitt rætt um það hvort fella ætti Framkvæmdasjóð undir Lánasýsluna en menn töldu ekki ástæðu til þess á þessu stigi að gera það þar sem fyrirhugað væri að setja nefnd á stofn um það að taka sjóðakerfi ríkisins til endurskoðunar nú í sumar. Þess vegna var frekar litið til þess að í þeirri umfjöllun kæmi það til að framtíð Framkvæmdasjóðs og kannski fleiri sjóða mundi ráðast.
    Það er mikil spurning um marga þá sjóði sem nú eru við lýði hvort þeir hafa ekki runnið sitt skeið á enda. Ég er þeirrar skoðunar að það mætti sameina marga fjárfestingarlánasjóði þar sem þeir skapa vissa hólfun á fjármagnsmarkaði. Og kannski er þörfin sem var á sínum tíma þegar þeir voru settir á stofn ekki lengur fyrir hendi.
    Ég vil því í þessari umræðu vísa til starfs þessarar nefndar í sumar og vonast eftir því að ríkisstjórnin komi til með að leggja fram frv. á næsta þingi þar sem sjóðakerfi ríkisins verði tekið til gagngerðrar endurskoðunar.