Ferðamál
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég get ekki látið hjá líða að lýsa stuðningi mínum við þessa dagskrártillögu sem hér hefur verið borin fram af hv. 4. þm. Suðurl.
    Ég tek undir hvert orð sem hv. 4. þm. Suðurl. lét falla sem rökstuðning fyrir þessari dagskrártillögu, svo og það sem hv. 4. þm. Reykn. sagði um þetta sama efni. En sérstaklega vísa ég til þess sem ég sagði sjálfur um þetta efni við 2. umr. í ítarlegri ræðu sem mér fannst rétt að flytja vegna þess að mér finnst málið í sjálfu sér efnislega og formlega með ólíkindum. Og þá hef ég í huga að það hefur verið leitað umsagna sex eða sjö aðila sem varðar ferðamálin í landinu og hafa mest með þau að gera og enginn hefur mælt með samþykkt frv. sem við nú ræðum en yfirleitt hefur verið bent á það að vel færi á því að taka efnisatriði frv. til meðferðar við þá heildarendurskoðun á ferðamálunum sem á sér stað.
    Það að nefndin sem vinnur að endurskoðun ferðamálalaganna hefur lagt fram þáltill. breytir engu í þessu efni vegna þess að þar er um áfangaskýrslu að ræða og gert ráð fyrir að nefndin haldi áfram störfum af alefli fram á næsta haust og á hún mikið verk enn óunnið.
    Ég skal ekki fjölyrða um þetta frekar. Ég vildi aðeins segja þessi orð til áherslu á því að ég fylgi og fagna þeirri tillögu sem hv. 4. þm. Suðurl. hefur hér lagt fram og mælt fyrir.