Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Frsm. iðnn. (Karl Steinar Guðnason):
    Herra forseti. Hv. iðnn. hefur fjallað um málið, frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins. Nefndin fékk umsagnir frá Bandalagi starfsmanna ríkis og bæja, bæjarstjórn Akraness, Jöfnunarsjóði sveitarfélaga, Starfsmannafélagi Sementsverksmiðju ríkisins, stjórn Sementsverksmiðju ríkisins og Vinnuveitendasambandi Íslands. Þá komu á fund nefndarinnar Halldór J. Kristjánsson, skrifstofustjóri í iðnrn., Gísli Gíslason, bæjarstjóri á Akranesi, og Sigurgeir Sigurðsson, formaður Sambands ísl. sveitarfélaga.
    Almennt voru umsagnaraðilar samþykkir frv. og mælir nefndin með samþykkt þess. Nefndin flytur brtt. á sérstöku þingskjali að ósk bæjarstjórnar Akraness.
    Eyjólfur Konráð Jónsson var fjarverandi við afgreiðslu málsins.
    Brtt. er reyndar ekki stór í sniðum. Hún fjallar um það að þrjú orð falli niður úr frv., þ.e. b-lið 1. gr. Þar segir: ,,Öll hlutabréf í hlutafélaginu eru eign ríkissjóðs við stofnun félagsins.`` Það eru þessi þrjú orð, ,,við stofnun félagsins``, sem brtt. gerir ráð fyrir að verði felld niður.