Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Ég skrifa undir nál. um frv., nál. hv. iðnn., með fyrirvara og þess vegna þykir mér hlýða að segja nokkur orð við þessa umræðu um málið. Ég tek fram: Ég er aðili að nál. sem leggur til að frv. verði samþykkt.
    Það er eitt atriði í sambandi við þetta mál sem nokkuð hefur komið til umræðu og verið skiptar skoðanir um. Það er það hvernig á að fara með eignarhald á hlutabréfum verksmiðjunnar, þegar Sementsverksmiðjunni hefur verið breytt í hlutafélag. Það eru tvær skoðanir í því efni. Annars vegar er sú skoðun að sem minnstar hömlur eigi að vera á meðferð og sölu hlutabréfa í þessu fyrirtæki og ég er samþykkur því sjónarmiði. Hitt sjónarmiðið er það að ríkið eigi ekki að selja hlutabréf í Sementsverksmiðjunni, það eigi eitt að eiga hlutabréfin.
    Frv. eins og það liggur fyrir tekur tillit til beggja þessara sjónarmiða og að því leyti hafa sjónarmið verið samræmd. Ég hef talið rétt eftir atvikum að fylgja þeirri lausn á málinu. Í frv. segir að öll hlutabréf í hlutafélaginu séu eign ríkissjóðs, en það er bætt við: við stofnun félagsins. Þetta gefur til kynna að ekki eigi að vera útilokað að selja bréfin, enda eru bein ákvæði um það í 8. gr. frv. þar sem gert er ráð fyrir því með þessu orðalagi, með leyfi hæstv. forseta: ,,Ríkissjóður getur ekki boðið hlutabréf í Sementsverksmiðjunni til sölu nema hafa til þess samþykki Alþingis með breytingu á b-lið 1. gr.`` Það er ákvæðið sem ég vitnaði í áður.
    Eins og hv. frsm. og formaður iðnn., hv. 4. þm. Reykn., tók fram leitaði nefndin umsagna ýmissa aðila um frv. Varðandi það atriði sem ég hef hér sérstaklega vikið að, sölu hlutabréfa, þykir mér rétt að taka fram það sem tveir aðilar, sem leitað var umsagna hjá, segja. Það er í fyrsta lagi það sem segir í bréfi frá bæjarstjóranum á Akranesi, en þar segir, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Bæjarstjórn Akraness lýsir yfir stuðningi við efni frv. Sú stuðningsyfirlýsing er gefin í trausti þess að Sementsverksmiðjan skuli áfram vera eign ríkisins.``
    Hitt sem ég vildi vitna til er umsögn frá Vinnuveitendasambandi Íslands, en í bréfi frá Vinnuveitendasambandinu um þetta efni segir á þessa leið, með leyfi hæstv. forseta:
    ,,Með vísan til alls þessa mælir Vinnuveitendasambandið með samþykki frv. en hvetur jafnframt eindregið til þess að tálmar við sölu ríkissjóðs á hlutabréfum í Sementsverksmiðjunni hf. verði felldir úr frv.``
    Þannig eru tvö mismunandi sjónarmið um þetta efni en þau hafa verið samræmd í frv. eins og það liggur fyrir og ég er samþykkur því að mæla með samþykkt frv. eins og það er.
    En inn í þessar umræður um sölu hlutabréfa hefur annað mál komið sem mér þykir nauðsynlegt að víkja að. Það er spurningin um skattgreiðslu af hinu nýja hlutafélagi. Sementsverksmiðjan greiðir núna

landsútsvar samkvæmt lögum um tekjustofna sveitarfélaga. En bæjarstjórn Akraness leggur í umsögn sinni áherslu á að mikilvægt sé að verksmiðjan greiði gjöld eins og önnur hlutafélög. Með þessu er átt við að verksmiðjan hætti að greiða landsútsvar en greiði aðstöðugjald. Ég minnist á þetta vegna þess að það er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því hvað frv. þýðir með tilliti til skattgreiðslu af verksmiðjunni. Það er nauðsynlegt að við gerum okkur grein fyrir því hvað við erum að samþykkja í því efni og þá vil ég benda á að tekið er fram í 8. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga í upptalningu um það hvaða aðilar greiði landsútsvar að þar á meðal er Áburðarverksmiðja ríkisins.
    Meðan þetta ákvæði laganna er óbreytt ber að greiða skatt af Áburðarverksmiðjunni sem landsútsvar og mér þykir ... ( Gripið fram í: Var það ekki Sementsverksmiðjan?) Fyrirgefið, ég meina Sementsverksmiðjunni, mér urðu á mismæli af því að í upptalningunni var Áburðarverksmiðjan fyrst tilgreind. Þetta vildi ég aðeins að kæmi fram. Ég vil líka taka það fram sem mína skoðun að ég tel að þetta sé rétt. Ég er ekki að deila á þetta frv. fyrir það að ekki skuli vera gerð breyting á skattgreiðslu Sementsverksmiðjunnar, þvert á móti þykir mér það kostur við frv. að ekki er hreyft við ákvæði 9. gr. laga um tekjustofna sveitarfélaga þar sem kveðið er á um að Sementsverksmiðjan greiði landsútsvar.
    Ég ítreka það svo sem ég sagði í upphafi: Ég er einn þeirra sem mæla með því að frv. verði samþykkt.