Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Þegar frv. um stofnun hlutafélags um Sementsverksmiðju ríkisins var hér til umfjöllunar við 1. umr. fjallaði ég lítillega um það og lýsti yfir litlum áhuga mínum á þeim breytingum sem lagðar eru til í frv. Skoðun mín er óbreytt. Ég tel að hér sé aðeins verið að leika sér að óþarfa hlutum, algjörlega ástæðulaust sé að breyta ríkisfyrirtækinu Sementsverksmiðja ríkisins í hlutafélag. Í sjálfu sér breytir það engu öðru en því að stjórnarmenn verksmiðjunnar verða tilnefndir af einum ráðherra í staðinn fyrir að stjórnarmenn verksmiðjunnar hafa verið kjörnir af Alþingi. Þeir verða kjörnir árlega eftir frv. eins og á sér stað í hlutafélögum yfirleitt, ekki fjögurra ára stjórn eins og þegar þeir eru kjörnir af Alþingi, þannig að þessi þáttur gerir stjórnsýslu verksmiðjunnar greinilega erfiðari en áður var. Það verður að öllum líkindum eða gætu orðið meiri mannaskipti í stjórn fyrirtækisins en annars yrði.
    Það eru nú allar líkur fyrir því að þetta frv. hafi verið flutt og þau frv. sem hafa verið flutt hér á undanförnum árum hafa verið þess eðlis að til þess væri hugsað að fleiri aðilar en ríkið gerðust eigendur að verksmiðjunni. Í frv. er að vísu tilætlun um það að þó að ætlast sé til að öll hlutabréf í hlutafélaginu verði ríkiseign við stofnun þá er það sem sagt undirstrikað í frv. að það sé við stofnun félagsins. Nú hefur hv. iðnn. flutt brtt. um það að fella þennan þátt burtu, sem sagt þessa tilætlun að aðrir en ríkið eigi hlut í félaginu og fagna ég því og mun standa að þeirri brtt. En við það að þessi þáttur fellur burt úr frv. er raunverulega tilgangi þess lokið. Eftir það að ekki er lengur verið að áætla það að einhverjir aðrir en ríkið eigi hlut í félaginu þá sé ég ekki hvaða rök eru fyrir því að breyta ríkisfyrirtækinu Sementsverksmiðja ríkisins í hlutafélagið Sementsverksmiðja ríkisins hf.
    Ef við lítum aðeins til baka til þeirra ára þegar var verið að berjast fyrir því að stofnsett yrði sementsverksmiðja hér á landi held ég að það hafi aldrei komið í umræðuna að annar eigandi yrði að þessari verksmiðju en ríkið. Það var nú jafnmikill einstaklingshyggjumaður og Pétur Ottesen, sem við munum, sem stóð fremstur þar í flokki að byggja upp ríkisfyrirtækið Sementsverksmiðju ríkisins. Og það er nokkurn veginn víst, og það mun Pétur Ottesen hafa vitað, að sementsverksmiðja sú sem nú er og hefur verið á Akranesi hefði aldrei verið byggð ef hún hefði ekki verið ríkisfyrirtæki og undirbyggð á þann máta sem Pétur Ottesen og fleiri lögðu til.
    Það er nú einnig svo að ef þetta hefði ekki verið ríkisfyrirtæki, segjum að þeir möguleikar hefðu verið fyrir hendi að einhverjir einstaklingar hefðu viljað fara að byggja fyrirtæki eins og Sementsverksmiðjuna á þessum árum, þá eru náttúrlega engar líkur fyrir því að sú verksmiðja hefði verið byggð á Akranesi. Hún hefði að öllum líkindum verið byggð, eins og Áburðarverksmiðjan, í hjarta Reykjavíkur og við stæðum kannski frammi fyrir því í dag að vera að

berjast fyrir því að fá að halda henni þar áfram eða hugsa okkur einhvern annan stað fyrir verksmiðjuna eins og núna Áburðarverksmiðju ríkisins. Vegna þess að vitaskuld eru ýmsar hættur í kringum Sementsverksmiðju ríkisins eins og öll önnur stór fyrirtæki. En þetta hafa nú Skagamenn látið yfir sig ganga og munu væntanlega láta yfir sig ganga áfram á næstu árum.
    Verksmiðjan var byggð sem ríkisverksmiðja og menn töldu það sjálfsagt vegna þess að þetta var algjört einokunarfyrirtæki, fyrirtæki sem átti að sinna næstum öllum þörfum okkar fyrir sement og hefur gert það síðan það hóf rekstur og gert það með miklum sóma. ( HBl: Styður þingmaðurinn ekki frv.?) Þingmaðurinn kemur bráðlega að þessu. Það eru svo allar líkur fyrir því líka að fyrir það að þetta fyrirtæki var ríkisfyrirtæki þá hafi á stundum verið hægt að beita því við ýmsar uppákomur, ef þannig má orða það, í þjóðfélaginu. Þegar leitað hefur verið eftir því að halda verðlagi í skefjum, andæfa gegn því að verðlag hækkaði í landinu, hefur því verið beitt ansi oft við Sementsverksmiðju ríkisins að láta hana halda niðri verði á sementi og það kom fyrir á stundum, ákveðin tímabil, að þessi tilhneiging ríkisvaldsins varð til þess að stundum var verksmiðjan rekin með nokkrum halla og var í nokkrum erfiðleikum með rekstur sinn. Þrátt fyrir að þetta hafi gerst oftar en skyldi stendur Sementsverksmiðja ríkisins mjög vel nú og hefur á undanförnum árum, að undanteknu nýliðnu ári, verið rekin með góðum tekjuafgangi, styrkt eiginfjárstöðu sína eða höfuðstól ár frá ári. Á sama tíma hefur þessi verksmiðja verið að endurbyggja sig og í dag má segja að Sementsverksmiðja ríkisins sé að meginhluta til nýtt fyrirtæki að flestum tækjum og búnaði. Það eru því engar sérstakar ástæður sem knýja á um það að breyta þessu fyrirtæki í hlutafélag. Það er engin þörf á að leita að nýju fjármagni til þessa fyrirtækis frá einhverjum einkaaðilum. Allir hlutir í kringum þetta fyrirtæki núna eru á þann veg að þar er flest, ég vil segja næstum því allt, í góðu gengi. Hugmyndir um að fara að breyta þar stjórnarfyrirkomulagi eða einhverju rekstrarfyrirkomulagi eru því algjörlega ástæðulausar.
    Ég held því svo sem ekki fram að þó að þessi breyting eigi sér stað, að verksmiðjunni verði breytt í hlutafélag, þegar sleppt er þessum orðum ,,við stofnun félagsins`` eins og lagt er til, breyti það í sjálfu sér miklu öðru en því sem ég nefndi í upphafi með stjórnarkjör verksmiðjunnar. En ég vil sem sagt undirstrika það að ég tel þó þessa aðgerð algjörlega óþarfa.
    Í tengslum við þessa umræðu og þessa breytingu á eignarformi þessarar verksmiðju ríkisins hafa verið uppi umræður um það og út frá því er gengið að verksmiðjan hætti að greiða landsútsvar. Í staðinn fyrir að verksmiðjan greiði landsútsvar og gjöld út frá lögum um tekjustofna sveitarfélaga er nú talið að með þessari breytingu fari verksmiðjan að greiða aðstöðugjald til Akraneskaupstaðar. Ég tel að hér sé um mjög vafasama aðgerð að ræða. Á undanförnum

árum hefur sú umræða verið alláleitin og ég held ég geti svo gott sem fullyrt það að flestir landsbyggðarmenn hafi talið nauðsynlegt að sem flest stórfyrirtæki í landinu, að sem flest fyrirtæki sem þjóna öllu landinu greiddu landsútsvar til Jöfnunarsjóðs sveitarfélaga. Við höfum reyndar heyrt þá umræðu að ýmis ríkisfyrirtæki sem eru undanþegin aðstöðugjaldsskyldu, t.d. til Reykjavíkur, þar vil ég nefna Ríkisútvarpið, sjónvarpið, að borgarsjóður Reykjavíkur hafi mikinn áhuga fyrir að fá aðstöðugjöld af þessum fyrirtækjum. Þessi fyrirtæki hafa reyndar ekki greitt landsútsvar enn þá en það eru önnur fyrirtæki, eins og hér var nefnt áðan, Áburðarverksmiðja ríkisins, olíufélög og fleiri stórfyrirtæki sem ég fer ekki að telja upp, sem greiða landsútsvar.
Ef við förum að hverfa frá þessari braut varðandi einokunarfyrirtæki og fyrirtæki sem sinna að meginhluta til, eða að öllu leyti, þjónustu við landið allt, þá skerðast tekjumöguleikar Jöfnunarsjóðs sveitarfélaganna og þá er verið að hverfa frá einu grundvallaratriði tekjustofnalaganna sem við samþykktum hér á síðasta ári.
    Þennan þátt tel ég mjög alvarlegan og hygg að menn geri sér ekki alveg grein fyrir því hvað þeir eru að gera þegar hér er lagt til og fullyrt að með samþykkt þessara laga verði þessi breyting á.
    Bæjarstjórn Akraness hefur fallist á þessa breytingu og í umræðunni á Akranesi hefur mjög verið haldið á lofti þeirri tekjuaukningu sem Akranesbær fær með því að fá aðstöðugjöld af verksmiðjunni. Eftir því sem ég kemst næst er þetta upphæð sem fer varla mikið yfir 4 millj. kr., þ.e. mismunur þess sem bærinn fær nú þegar beint af landsútsvarinu og í gegnum Jöfnunarsjóð og þess aðstöðugjalds sem verksmiðjan kemur til með að greiða ef þessi breyting yrði á.
    Nú er það staðreynd að flestöll bæjarfélög óska eftir og þykir mjög varið í að fá fyrirtæki eins og Sementsverksmiðju ríkisins til þess að starfa innan sinna marka. Vitaskuld var það það sem Pétur Ottesen barðist fyrir þegar hann kom því til leiðar, ásamt fleiri góðum mönnum, að Sementsverksmiðja ríkisins var byggð á Akranesi, að hún yrði styrk stoð undir byggð á Akranesi og hún hefur verið það og er það. (Gripið fram í.) Önnur verksmiðja var reist í Skilmannahreppi, en þá var Pétur Ottesen fallinn frá og hefði kannski verið öðruvísi gengið frá hlutunum þar ef hans hefði notið við þegar ákvörðun var tekin um þá verksmiðju. En við stofnun Sementsverksmiðjunnar voru strax gerðir sérstakir samningar við Akranesbæ. Þeir voru bæði í sambandi við vatnsveitu bæjarins, þar sem verksmiðjan tók að sér ákveðinn hlut af rekstri vatnsveitunnar vegna þess að þegar verksmiðjan var byggð þá þurfti að styrkja vatnsveituna til að afla þess vatnsmagns sem verksmiðjan þurfti að fá. Í öðru lagi er verksmiðjan nokkurs konar toppstöð fyrir Rafveitu Akraness á þann veg að í hvert skipti sem rafmagnstoppurinn hjá Rafveitu Akraness nálgast það hámark sem samið hefur verið um við Landsvirkjun og að því stefnir að farið verði yfir þann topp þá slær

Sementsverksmiðja ríkisins út vissum þáttum eða tækjum, þannig að komist verði hjá því að kaupa á sérstökum álagstímum einhvern háan topp fyrir Rafveitu Akraness. Þarna er um ómældar fjárhæðir að ræða sem Rafveita Akraness hefur sparað vegna þessara viðskipta við Sementsverksmiðju ríkisins. Og einnig haldast enn hin góðu kjör Akranesbæjar út af rekstri vatnsveitunnar. (Gripið fram í.) Það segir enginn, hv. þm., að þessir hlutir verði áfram. Við verðum vitaskuld að vona það og ég veit það að á meðan fyrirtækið verður allt í höndum ríkisins óttast ég ekki að það verði á nokkrar breytingar. En því miður, bak við þessa breytingu liggur sú tilætlun að aðrir aðilar en ríkið eitt komi til með að verða eigendur að þessu fyrirtæki, jafnvel þótt fulltrúi Alþfl. hér í hv. deild, hv. 3. þm. Vesturl. Eiður Guðnason, hafi lýst því yfir að það sé stefna Alþfl., eða stefna hans, að hlutabréf í Sementsverksmiðju ríkisins verði aldrei seld til einkaaðila. Ég vil undirstrika það að það er góð yfirlýsing og styrkir vitaskuld þá stefnu að halda verksmiðjunni sem lengst í eigu ríkisins. En með því að vera búinn að breyta í þetta form þá er verið að gefa undir fótinn með þessa hluti. Það er ekki nokkur vafi á því að ef það mundi gerast að fyrirtæki, segjum hér fyrir sunnan á höfuðborgarsvæðinu --- ( Gripið fram í: Víglundur Þorsteinsson.) Já, það má nefna Víglund Þorsteinsson, Steypustöðina hf., BM Vallá, já og Hagvirki jafnvel, þetta eru ágætis fyrirtæki --- eignuðust hlut í Sementsverksmiðju ríkisins, kannski Sementsverksmiðjunni hf., jafnvel meiri hluta. Er þá við
öðru að búast en að það gerðist að fljótlega mundi yfirstjórn verksmiðjunnar, ég vona það verði ekki í tíð þeirra ágætu forstjóra sem nú eru hjá verksmiðjunni, Gylfa Þórðarsonar og Guðmundar Guðmundssonar, verða flutt yfir Hvalfjörðinn til Reykjavíkur? Það er mjög auðvelt að gera það og gefur auga leið að um leið og einhverjir hagsmunaaðilar, eins og þessir sem við vorum að nefna hér áðan, gerast eigendur að verksmiðjunni þá munu þeir seilast til meiri áhrifa. Það er einfaldasti og augljósasti þátturinn sem mundi gerast og í beinu framhaldi af því gætu vissir hlutir blasað við. Það hefur t.d. komið upp ár eftir ár að það hefur ekki verið hagkvæmt að brenna gjall í verksmiðjunni á Akranesi. Það hefur verið ódýrara að flytja það inn, t.d. á tímum olíukreppunnar og þegar verksmiðjan stóð höllum fæti í rekstri. ( HBl: Af hverju var það?) Vegna þess að það var of dýrt, stóru verksmiðjurnar skiluðu þessu ódýrara frá sér. ( HBl: Og röng verðákvörðun að semja ekki ...) Nei, það byggðist ekki á því. Það hefur komið fyrir röng verðákvörðun á sementi, þá kom hallarekstur á verksmiðjuna. Ég var að tala um það áðan, hv. þm., að þeir tímar komu að verksmiðjan var rekin með halla vegna rangrar verðlagsstefnu þegar var verið að verjast ákveðnum þrýstingi frá íhaldinu þegar verkalýðssamtökin óskuðu eftir því að verðlag hækkaði ekki í landinu. ( SalÞ: Er svona langt síðan þegar íhaldsflokkurinn var ...) Já, já, ég held hann sé

búinn að vera dálítið lengi, sumt gott og sumt vont sem þeir hafa gert. En við skulum nú ekki beinlínis vera að hafa þessa hluti í flimtingum. Þetta er meira alvörumál en svo. En það gefur auga leið að um leið og eignarhlutföllin breytast á þann veg, sem ég nefndi áðan, er hætt við því að rekstri Sementsverksmiðju ríkisins verði breytt og hann muni verða að minna leyti á Akranesi en hann er nú. Og ansi er ég hræddur um það þegar að því kemur, og jafnvel nú þegar þetta verður samþykkt hér, að höfðingja eins og Pétri Ottesen hefði ekki fundist þetta góð lausn í sambandi við Sementsverksmiðju ríkisins.