Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Halldór Blöndal (um þingsköp) :
    Herra forseti. Ég vil vekja athygli á því að í upphafi þessa fundar kvaddi hv. 4. þm. Vesturl. Skúli Alexandersson sér hljóðs utan dagskrár til að koma við athugasemdum og fyrirspurnum til hæstv. sjútvrh. Nú er venjulegum fundartíma deildarinnar lokið en ekki hafa verið gerðar ráðstafanir til þess að hæstv. sjútvrh. komi hér í deildina til að svara þeim athugasemdum sem hv. þm. vildi bera fram. Það er auðvitað eðlilegt í lok þinghalds, og sérstaklega þegar stendur á eins og nú, að ráðstafanir séu gerðar til þess að ráðherrar svari fyrirspurnum þingmanna ef þingmenn telja að athugasemdir þeirra og fyrirspurnir séu mjög tímabundnar. Ég vil gera athugasemd við þetta.