Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Það er auðvitað mjög ánægjulegt fyrir okkur sjálfstæðismenn að okkar stefna sé smátt og smátt að ryðja sér til rúms og verða allsráðandi hér á hinu háa Alþingi, að verksmiðjum í eigu ríkisins skuli breytt í hlutafélög. Ég minni á að þetta mál var fyrst flutt af Sverri Hermannssyni meðan hann var iðnrh. Þá voru enn hin þröngu vinstri sjónarmið svo ráðandi hér í þingdeildinni að málið náði ekki fram að ganga og var fellt. Nú er á hinn bóginn svo komið að jafnvel Alþfl., þó skrýtið sé, er orðinn sammála okkur sjálfstæðismönnum um nauðsyn þess að einkavæða fyrirtækin. Það er auðvitað svo að batnandi manni er best að lifa.
    Ekki geri ég mér að vísu ljóst hvort þessi frumvarpsflutningur sé einn liður í þeirri óljósu viðleitni Alþfl. að reyna að sannfæra menn um það, nú þegar kosningar eru að nálgast, sem aðstoðarmaður viðskrh., Birgir Árnason, sagði í viðtali í Morgunblaðinu fyrir skömmu, að óhjákvæmilegt væri fyrir Alþfl., ef hann ætti að halda andlegri heilsu, að komast í betri félagsskap og nýja stjórn sem eingöngu væri skipuð sjálfstæðismönnum og alþýðuflokksmönnum.
    Ég sem sagt læt í ljós ánægju mína yfir því að þetta frv. skuli vera flutt, að svo virðist sem frv. nái fram að ganga hér í þinginu. Um leið lýsi ég yfir ánægju minni yfir því að nú er í sjónmáli að ákvæði skattalaga um eðlilega skattmeðferð hlutabréfa virðist ætla að ná fram að ganga einnig á þessu þingi. Þetta er kjarni málsins í því sem ég vil sagt hafa.
    Ég vil líka vekja athygli á því, herra forseti, að Sementsverksmiðjan er að mörgu leyti dæmi um það hvernig fer fyrir einokunarfyrirtæki sem er í ríkiseigu þegar um óprúttna stjórnmálamenn er að ræða í ríkisstjórn sem ekki horfa til þess eðlis viðskipta sem sjálfsagt er, að þeir eigi að greiða fyrir vöruna sem kaupa hana. Við munum eftir því í tíð margra vinstri stjórna að verði á sementi hefur verið haldið niðri til þess að reyna að lækka vísitöluna sem hefur ævinlega endað með því auðvitað að þeir byggjendur íbúðarhúsnæðis eða atvinnuhúsnæðis sem koma í kjölfar misbeitingar hins pólitíska valds verða að greiða hluta af byggingarkostnaði þeirra húsa sem reist voru meðan um óeðlilegar verðákvarðanir var að ræða hjá Sementsverksmiðjunni. Ég hygg að ég muni það rétt að verðákvarðanir af þessu tagi hafi verið einkennandi fyrir allar vinstri stjórnir sem hér hafa setið.
    Sams konar viðleitni er nú uppi hjá stjórnarmeirihlutanum í sambandi við Áburðarverksmiðju ríkisins. Af einhverjum undarlegum ástæðum eru stjórnarflokkarnir þeirrar skoðunar að þeir sem kaupa áburð nú á þessu ári eigi ekki að greiða áburðarverðið að fullu heldur eigi það að hluta til að falla á þá sem kaupa áburð á næstu árum. Það er auðvitað mjög undarleg verðlagsstefna og hefur valdið því að fyrirtæki eins og Sementsverksmiðja ríkisins hefur stundum staðið frammi fyrir mjög

verulegum töpum og rekstur þess fyrirtækis af þeim sökum ekki gengið eins vel og skyldi og valdið því til lengri tíma litið að sement er nú hærra í verði hér á landi en ella mundi. Sementsverð er auðvitað hærra en það þyrfti að vera vegna þess einmitt að pólitík af því tagi sem lýsir sér í afstöðu ríkisstjórnarinnar til Áburðarverksmiðjunnar hefur verið allsráðandi.
    Þetta vil ég segja og bæta því við í lokin að frv. sem nú er til umræðu sýnir að ríkisstjórninni er ekki alls varnað. Eins og hv. 4. þm. Vestf. vakti sérstaka athygli á áðan er ætlast til þess í fyrstu að hlutabréfin séu öll í eigu ríkissjóðs. Síðan þarf atbeina Alþingis ekki til að koma til þess að fjmrh. sé heimilt að selja hlutabréfin þannig að það er auðvitað gefinn hlutur að um leið og sjálfstæðismenn komast til valda verða hlutabréf í Sementsverksmiðjunni boðin til sölu á almennum markaði.