Sementsverksmiðja ríkisins
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorv. Garðar Kristjánsson:
    Herra forseti. Hv. 3. þm. Vesturl. hafði orð á því að það væri misskilningur hjá mér eða ég hefði kannski ekki lesið rétt og hefði dregið ranga ályktun þegar ég sagði að það væri misræmi milli brtt. á þskj. 1009 og 8. gr. frv. Ég ætla ekki að eyða orðum að því að svara þessu. Þetta er svo augljóst, ég vísa til þess sem ég hef áður sagt um þetta efni.
    Hv. 3. þm. Vesturl. er gersamlega í vandræðum með að færa rök fyrir sínum málstað í þessum umræðum. Af hverju segi ég þetta? Af því að hann segir hér í ræðu sinni að slæm staða Sementsverksmiðjunnar fyrir 15 eða 16 árum hafi verið Gunnari Thoroddsen að kenna. Er þetta nú ekki nokkuð langsótt? Ætli það væri ekki rökréttara að segja að það gæti verið að það skipulag sem þá var á verksmiðjunni eigi frekar sök á því heldur en vera Gunnars Thoroddsens í embætti iðnrh.? Og það er næsta furðulegt að svona athugasemd skuli koma fram frá þingmanni í Vesturlandskjördæmi, úr kjördæmi sem á að þakka fyrst og fremst forustu Gunnars Thoroddsens fyrir mikilvægasta og stærsta fyrirtæki kjördæmisins, þar sem er Járnblendiverksmiðjan.
    Hv. þm. var eitthvað að tala um að kratar í Svíþjóð hefðu þann hátt á að þeir seldu ekki hlutabréf í hlutafélögum sem væru tilkomin úr ríkisfyrirtækjum. Það kann vel að vera að þeir geri það ekki. En við skulum ekki gleyma hvert er aðalatriði og tilgangurinn sem hlýtur í raun og veru að liggja á bak við það frv. sem hér er og alltaf þegar ríkisfyrirtækjum er breytt í hlutafélög. Það er að taka upp rekstrarform sem hæfir einkaframtakinu best. Það þýðir að eðlilegt er að einkaframtakið fái að njóta sín, m.a. með sem hömlulausustum viðskiptum með hlutabréf.