Frumvarp um stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Ég kom hér í ræðustól í dag og óskaði eftir því að fá að ræða þingsköp. Þar skýrði ég frá því að eins og hæstv. forseta væri kunnugt værum við að fjalla hér í þessari hv. deild og í sjútvn. þessarar hv. deildar um mikilsvert mál, stjórn fiskveiða. Það mál væri búið að vera hér til umfjöllunar nokkuð lengi og ég teldi ástæðu til að fá ræða við hæstv. sjútvrh. um þá sérstöku framkomu hans að á meðan við værum að ræða þetta mikilsverða mál kæmi hann í fréttatíma Ríkisútvarps og sjónvarps til að fjalla um þær brtt. sem til umfjöllunar væru í sjútvn. Þar væri hann að túlka skoðanir sínar. Þar af leiðandi væri verið að fara með umfjöllun um þetta mál inn á þann vettvang sem að dómi okkar þingmanna, eða a.m.k. að mínum dómi, væri mjög óeðlilegur. Og síst af öllu ætti hæstv. ráðherra að gera það við jafnviðkvæmar aðstæður og nú eru.
    Mér fannst þó keyra um þverbak þegar starfsmaður ráðuneytis hæstv. sjútvrh. kom til að ræða þessi sömu mál í Ríkisútvarpinu í morgun. Kom þangað, kynntur sem undirbúningsaðili að því frv. sem við erum hér að fjalla um og er greinilega vel kunnugur öllum málum. Virtist vera á þann veg að hann væri kominn í útvarpið til að túlka sérstök sjónarmið hæstv. sjútvrh. Það var ekki aðeins að tíundað væri ágæti þess frv. sem hér er verið að fjalla um heldur var mikill tími umfjöllunarinnar notaður til þess að gera lítið úr þeim brtt. eða þeim þáttum sem bent hefði verið á að betur mætti fara í frv. ( Forseti: Ég vil benda hv. alþm. á það að undir þingsköp geta varla fallið orð einhvers manns utan Alþingis.) Ég vil nefna það, virðulegur forseti, og ég vil ekki vera að halda hér uppi umræðu sem forseti telur ekki rétta, en það getur varla annað verið en að það liggi í augum uppi hvers manns og þar af leiðandi vitaskuld hæstv. forseta, að þegar mál eru lögð fram eins og hér hefur átt sér stað, fyrst af hæstv. sjútvrh. í fréttatímum útvarps og sjónvarps, þar sem farið er að fjalla um brtt. sem verið er að vinna að í nefnd deildarinnar, að það tengist umræðu hér í deildinni. Og í beinu framhaldi af því kemur starfsmaður ráðuneytisins og ræðir beint um þá hluti sem verið er að fjalla um í nefndinni. Það er ótrúlegt að upplýsingar hafi getað borist til þessa starfsmanns á annan hátt en þann að hæstv. ráðherra hafi látið það á þann veg ganga að æskilegt væri að um þær yrði fjallað.
    Ég verð kannski að velja annan tíma til að benda á þá þætti sem þessi starfsmaður ráðherrans fjallaði um í þessu morgunviðtali, en það var fyrst og fremst að gera lítið úr þeim tillögum sem við höfum flutt um byggðakvóta. Og á hinn veginn að gera mikið úr árangri þeirrar fiskveiðistefnu sem við höfum búið við á undanförnum árum og allir vita, eða þjóðin veit, að að meginhluta hefur mistekist.
    Ég mun ekki þreyta virðulegan forseta á því að halda lengri ræðu en ég vil mótmæla þeim vinnubrögðum sem hér hafa verið höfð í frammi af

ráðherra og hans starfsmanni.