Frumvarp um stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Halldór Blöndal:
    Herra forseti. Ég verð að lýsa þeirri skoðun minni að ég er fullkomlega ósammála hæstv. sjútvrh. þegar hann segir að ekki eigi að setja takmörk við tjáningarfrelsi starfsmanna ráðuneyta þegar um er að ræða viðkvæm þingmál og meðan málin eru á því stigi að þau eru til umfjöllunar í þingnefndum ef viðkomandi starfsmenn hafa sérstakan kunnugleika á málunum vegna þess að þeir hafa aðgang að trúnaðarskjölum sem ganga á milli stjórnmálamanna. Þeir stjórnarráðsmenn sem hafa aðgang að slíkum skjölum verða auðvitað að gæta þagmælsku og hafa skilning á eðli síns starfs.
    Ég er á hinn bóginn sammála hæstv. ráðherra um það að almennt talað eiga starfsmenn ráðuneyta að hafa málfrelsi, þó svo mér finnist mjög óviðkunnanlegt þegar einstakir ráðherrar eru að senda undirmenn sína út á ritvöllinn eins og bæði hæstv. utanrrh. hefur gert og hæstv. fjmrh. a.m.k., og kannski fleiri ráðherrar, til þess að verja þrönga sérhagsmuni síns stjórnmálaflokks og slíkir leigupennar ráðherranna eru launaðir af ríkisfé. Það er auðvitað mjög óeðlilegt.
    En ég hlýt að taka undir með hv. 3. þm. Vesturl. Ef umræddur starfsmaður sjútvrn. hefur fylgst með framvindu frv. um stjórn fiskveiða hér í þinginu og hefur verið inni í þeim viðkvæmu viðræðum sem hafa átt sér stað um einstök efnisatriði þess á hann sannarlega ekki að koma í opinbera fjölmiðla til þess að láta sína skoðun í ljós rétt á meðan. Hann gæti a.m.k. beðið þangað til frv. hefur verið afgreitt hér í þinginu.