Frumvarp um stjórn fiskveiða
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Skúli Alexandersson:
    Herra forseti. Hæstv. sjútvrh. svaraði því þannig til um gagnrýni mína á því að hann skyldi hafa haft viðtal við sjónvarp og Ríkisútvarp að það væri oft gott og nauðsynlegt að fjalla um þessi mál þegar fréttamenn spyrðu. Ég veit ekki hve oft ég gæti verið búinn að vera í útvarpi og sjónvarpi hefði ég valið þann kostinn að koma mínum skoðunum á þessu frv. þá leiðina núna síðustu daga. Og ég heyri það að fleiri þingmenn hér taka undir það að þeir mundu hafa átt mjög auðvelda leið í fjölmiðla til þess að túlka skoðun sína á þessum málum. Þess vegna fannst mér óeðlilegt, og mér finnst enn óeðlilegt, að það skuli hafa gerst í gær að hæstv. sjútvrh. skyldi hafa farið í fjölmiðla með málið, ekki frv. sem heild, heldur sérstakar brtt. sem verið var að fjalla um í nefndinni. Mér finnst það mjög óviðurkvæmilegt og koma mjög illa niður á því starfi sem við vorum að reyna að ná árangri í.
    Um hinn þáttinn sem ég nefndi, að starfsmaður ráðuneytisins hefði komið til þess að fjalla um þetta mál, á óviðurkvæmilegan hátt líka, þá var sá starfsmaður kynntur á þennan veg, með leyfi forseta: ,,Hingað er kominn til okkar Stefán Þórarinsson sem er einn þeirra sem hafa lagt hönd á undirbúning þessa frumvarps.`` Stjórnarráðsmaðurinn mótmælti ekki þessari fullyrðingu útvarpsmannsins og þar af leiðandi hefur almenningur í landinu, við hinir sem hlustuðum, hlotið að líta svo á að þarna væri um mann að ræða sem hefði tekið þátt í öllu þessu starfi og það væri verið, eins og var verið að gera, að kynna skoðanir ráðuneytisins á þessu máli. Og eins og hæstv. ráðherra upplýsti er þetta maður sem er í starfi við það að undirbúa framkvæmd þess frv., ef að lögum verður, hjá ráðuneytinu.
    Er nú kannski svolítið sérstakt að vita til þess að búið er að ráða starfsmann í ráðuneytið til þess að vinna að málum sem byggjast á því frv. sem við erum að fjalla hér um. Það er búið að ráða starfsmann til þeirra hluta. Áður en hv. Alþingi er búið að samþykkja lögin er búið að ráða starfsmann til þess að sinna framkvæmd þeirra. Ofan á þetta sem ég var að ræða hér tel ég þetta mjög óeðlileg vinnubrögð. Mætti jafnvel segja að þau vinnubrögð séu fyrir neðan allar hellur.