Starfsmenntun í atvinnulífinu
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Karl Steinar Guðnason:
    Virðulegi forseti. Ég fagna þessu frv. sem ég tel mjög þýðingarmikið fyrir þá starfsemi sem hér er um að ræða. Starfsmenntun í atvinnulífinu er nokkuð sem hefur þróast mjög hratt í Evrópu og nú er þróunin að byrja hér. Það er vonum seinna að sett eru lög um þessa starfsemi og vænti ég þess að þau verði upphaf að enn meira starfi en átt hefur sér stað nú þegar.
    Mig hefði langað til að spyrja ráðherrann nokkurra atriða sem ég tel að þurfi að vera skýrari. ( Forseti: Forseti hefur gert ráðstafanir til að kalla ráðherra í salinn.)
    Það er nú þegar starfandi nefnd með samvinnu sjútvrn. sem heitir starfsfræðsla fiskvinnslunnar. Sú nefnd hefur unnið mjög þýðingarmikið starf og haft sína tekjustofna frá sjútvrn. Er það rétt skilið hjá mér að þessi lög muni á engan hátt hefta þá starfsemi heldur haldi það sem nú þegar er í gangi í starfsmenntun gildi sínu þrátt fyrir þessi lög? ( Félmrh.: Það er rétt skilið.) Ég bið ráðherrann að svara þessu hér.