Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Danfríður Skarphéðinsdóttir:
    Virðulegi forseti. Það eru ýmis stórvirki í frumvarpsformi á borðum okkar þessa dagana, ný raforkuver, jarðgöng á Vestfjörðum og síðan það frv. sem hér liggur fyrir um vegtengingu um utanverðan Hvalfjörð. Það er auðvitað enginn vafi á að slík vegtenging yrði mikil samgöngubót fyrir landsmenn alla og kannski dags daglega fyrst og fremst fyrir þá sem búa á Vesturlandi.
    Sú skýrsla sem fylgir með sem fskj. er ítarleg. Í henni er varpað fram ýmsum hugmyndum um það hvernig leggja mætti þessa leið um Hvalfjörðinn. Þar blasa við kostir sem hefðu kannski ekki verið tæknilega mögulegir fyrir nokkrum árum síðan en það breytist margt og hratt. Hér er verið að ræða um mikla og stórkostlega nýjung í því hvernig á að byggja slík stórvirki, þ.e. fyrirkomulagið varðandi framkvæmdina.
    Ég vil aðeins í nokkrum orðum segja það við 1. umr. að ég tel mjög mikilvægt og fyrir öllu, að allar áætlanir séu yfirvegaðar og nákvæmar áður en haldið er af stað. Ég tel að það hafi verið þess virði að bíða eftir þeirri skýrslu sem hér liggur fyrir en auðvitað þarf að vinna málið áfram. Eins og fram kemur í athugasemdum við frv. þá felast engar fjárhagslegar skuldbindingar af hálfu ríkissjóðs í frv. Í framhaldi af því er áætlað að gera samning, og það hlýtur að skipta öllu máli um endanlega afstöðu Alþingis til málsins hvernig sá samningur lítur út. Það var aðeins rætt hér um það af hv. síðasta ræðumanni, 3. þm. Vesturl., að fólk gæti búið á Akranesi og unnið í Reykjavík. Ég held að það verði ekki síður mikilvægt, ef af þessu verður, að ýmis fyrirtæki kjósi að flytja sig og/eða að ný fyrirtæki verði stofnuð á svæðinu.
    Ég vildi aðeins láta það koma fram hér við 1. umr. að auðvitað er mikilvægt að allar áætlanir séu mjög vel úr garði gerðar því að þetta er örugglega eitt af stærstu samgönguverkefnunum sem lagt verður í á næstu árum.
    Nú var það svo að í fyrra þegar málið var mjög til umræðu var einkum rætt um þessa framkvæmd vegna áhuga tveggja stórra fyrirtækja á Vesturlandi á að gerast aðalhluthafar í þessari framkvæmd. Mig langaði í þessari lotu að beina þeirri spurningu til hæstv. samgrh. hvort rætt hafi verið við þau fyrirtæki nú nýlega vegna þess að mér virðist nú um stundir að áhugi, a.m.k. annars þeirra, hafi eitthvað dofnað og ætlaði nú að hafa það svona mína einu spurningu í bili. En ég legg áherslu á að það skiptir öllu máli hvernig unnið verður að málinu áfram. Það þarf að vanda vel allan undirbúning og síðan mun það skipta máli hvernig sá samningur lítur út sem um þessa framkvæmd kann að verða gerður.