Vegtenging um utanverðan Hvalfjörð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Virðulegi forseti. Það er sjálfsagt að svara þessari spurningu sem hér er borin fram af hv. 6. þm. Vesturl. Því er til að svara varðandi fyrirtækin að ég hef ekki rætt við forsvarsmann þeirra nú nýlega, bendi þó á að þau áttu í raun aðild að starfshópnum í gegnum forstjóra Íslenska járnblendifélagsins sem í raun var sameiginlegur fulltrúi fyrirtækjanna sem höfðu sýnt þessu máli mikinn áhuga og unnið talsvert undirbúningsstarf á þessum grundvelli. Það var alveg ljóst að þau voru og eru, trúi ég, mjög áhugasöm um þetta mál. Ég sá reyndar út undan mér einhvers staðar í fjölmiðlum að það kynni að hafa dregið nokkuð úr áhuga annars hvors fyrirtækisins eða beggja að eitthvað lakari afkoma hafi orðið á síðasta ári, eða sé væntanlega á þessu, en menn höfðu kannski vonast til. Hvernig sem því víkur nú við öllu saman þá er mér ekki kunnugt um annað en enn sé fyrir hendi mjög ríkur áhugi allra helstu hagsmunaaðila í þessu máli. Ég vil auðvitað ekki undanskilja þar sveitarfélögin á svæðinu, Akraneskaupstað og önnur sveitarfélög og auðvitað hérna megin líka. Hins vegar má til sanns vegar færa að í raun og veru séu það svo miklu fleiri sveitarfélög um allt vestanvert og norðanvert landið sem þarna eiga hagsmuna að gæta að auðvitað gæti sá hópur orðið mjög stór ef öllum yrði smalað saman.
    Um þá aðila sem kæmu kannski helst til greina í slíka fyrirtækisstofnun mætti náttúrlega hafa nokkur orð. Það hefur verið horft nokkuð til þess að nokkur eða jafnvel mörg stærri fyrirtæki gætu gerst aðilar að þessu. Í öðru lagi nefni ég aftur sveitarfélögin eða samtök sveitarfélaganna. Ef maður horfir til nágrannalandanna, Noregs sem hér var nefndur, þá er það mjög gjarnan svo að það eru sveitarfélög í viðkomandi byggðarlagi eða fylki sem eru mjög stórir aðilar og jafnvel brautryðjendur og meirihlutaaðilar að þessum fyrirtækjum. Einnig er auðvitað hugsanlegt að hið opinbera komi þar eitthvað að. Á þetta hlýtur því að reyna þegar þetta frv. verður orðið að lögum og heimildin orðin fyrir hendi til þess að gera slíka félagsstofnun mögulega.