Flokkun og mat á gærum og ull
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Landbúnaðarráðherra (Steingrímur J. Sigfússon):
    Herra forseti. Ég get haft mína framsöguræðu fyrir þessu litla máli mjög stutta þó það verðskuldi svo sem vel myndarlega framsöguræðu. Hér er hið þarfasta mál á ferðinni og reyndar nokkuð brýnt því það hefur lengi verið ætlunin að reyna að bæta meðferð á ull og gærum, mat og alla meðferð.
    Frv. er afrakstur starfshóps sem unnið hefur tillögur að því og byggir í raun og veru á tillögum tveggja starfshópa frekar en eins sem hafa gert tillögur um breytingar á þeim tvennum lögum sem hér koma til, þ.e. lögum um flokkun og mat á gærum, nr. 22 frá 10. maí 1976, og lögum um flokkun og mat ullar, nr. 21 21. apríl 1976.
    Frv. gerir ráð fyrir að þessi lög verði sameinuð, felld saman í ein lög og verður að telja það til stórkostlegs hagræðis í löggjöfinni að ákvæði um mat annars vegar á ull og hins vegar á gærum falli inn í eina og sömu löggjöfina.
    Þessi breyting er talin þýðingarmikil af starfshópi sem starfað hefur að því að bæta meðferð og nýtingu á ull, en í honum hafa verið fulltrúar bænda, ullariðnaðarins og fulltrúi frá stjórnvöldum. Helstu nýmæli frv. eru þau að mat á gærum er fært frá sláturleyfishöfum til sútunarverksmiðja og yfirstjórn gærumats er falin þriggja manna nefnd sem landbrh. skipar og felld eru niður ákvæði gildandi laga um gærumatsformann og yfirgærumatsmenn er starfa í hverjum landsfjórðungi. Og hvað ullina snertir eru það helstu breytingar að felld eru niður ákvæði laga nr. 21 frá 1976, um flokkun framleiðenda á ull, en það ákvæði mun aldrei hafa komist til framkvæmda í raun og veru eins og gert var ráð fyrir vegna þess að því fylgdi of mikill kostnaður. Þá er gert ráð fyrir einum eftirlitsmanni með ullarmati er hafi það hlutverk að sjá um eftirlit, leiðbeiningar og ráðgjöf varðandi mat og meðferð ullar um land allt undir yfirstjórn ullarmatsnefndar í stað fjögurra ullarmatsmanna.
    Það er sem sagt eindregin skoðun bænda og ullariðnaðarins að þetta fyrirkomulag, þessi breyting, væri til mikilla bóta og ætti að tryggja betri meðferð á ull og gærum og auðvelda mat á þeirri vöru. Væri það því mjög kærkomið ef hv. Alþingi treysti sér til að afgreiða þetta litla en snotra mál sem lög á þessu þingi.
    Að lokinni þessari umræðu, herra forseti, legg ég svo til að málinu verði vísað til 2. umr. og hv. landbn.