Stjórnarfrumvarp um áburðarverð
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Friðrik Sophusson:
    Virðulegur forseti. Ég vil taka undir það sem hv. 2. þm. Reykn. sagði, en því til viðbótar finnst mér ástæða til að spyrja hæstv. forsrh. að því hvort ekki hefði verið hugsanlegt að fara aðra leið í þessu máli. Ég fæ ekki betur séð en að ástæðulaust sé að flytja það frv. sem hér hefur verið flutt. Hæstv. ríkisstjórn gat haft það í hendi sér að stýra áburðarverðinu, eða a.m.k. að láta ekki afleiðingarnar, sem eru mismunur á 12% og 18%, koma fram með því að flytja brtt. við fjáraukalög eða sjá til þess með öðrum hætti að niðurgreiðslur eða fjármögnun úr ríkissjóði kæmist til skila með öðrum hætti en að flytja þetta frv. Og mig langar í þessari þingskapaumræðu til að spyrja hæstv. ráðherra að því hvort hæstv. ríkisstjórn hafi kannað þann möguleika og hverju það sæti að þeirri aðferð skuli ekki vera beitt fremur en að breyta niðurstöðu stjórnar Áburðarverksmiðjunnar sem hefur samkvæmt lögum það vald að ákveða áburðarverð. Ríkisstjórnin hefur, eins og allir vita, ýmsar aðrar leiðir til að koma til móts við þær óskir sem hún telur vera eftirsóknarverðar.