Málefni aldraðra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Geir H. Haarde (frh.) :
    Herra forseti. Ég gerði hlé á ræðu minni í gær í annað sinn vegna þess að ég hef óskað eftir því að hæstv. utanrrh. verði viðstaddur þessa umræðu og svari nokkrum fyrirspurnum sem til hans hefur ítrekað verið beint vegna þessa máls. Ég vil þess vegna byrja á því að beina því enn á ný til forseta að hann geri ráðstafanir til að fá hæstv. utanrrh. hingað í þingsalinn til að gegna sínum þingskyldum. Ráðherrann hefur ekki fjarvistarleyfi í dag, svo mér sé kunnugt um. Ég vildi þess vegna beina því til forseta að þessi ósk verði enn á ný ítrekuð svo hægt verði að taka þetta mál á dagskrá hér í deildinni þar sem það hefur verið óeðlilega lengi að mínum dómi.
    Það er engin ástæða til annars en að þetta mál fái afgreiðslu og þurfi ekki að vera á dagskrá í deildinni dögum og vikum saman vegna þess að sá ráðherra sem um er spurt, formaður Alþfl., sér ekki ástæðu til að vera viðstaddur og tjá sig um málið þótt hann sé ítrekað spurður spurninga um málið og afstöðu hans til þess fyrr og nú. ( Forseti: Forseti hefur spurst fyrir um hæstv. utanrrh. Hann er ekki í þinghúsi. Forseta er tjáð að hæstv. ráðherra hafi farið upp á Skaga og muni vera á leiðinni í bæinn þaðan og sé væntanlegur innan ekki mjög langs tíma til þingfundar.) Já, Akraborgin kemur nú víst kl. 3, er það ekki? ( Forseti: Forseti hefur ekki yfirlit yfir skipakomur.) Ég vænti þess, herra forseti, um leið og ég þakka fyrir þessar upplýsingar --- sem þó voru náttúrlega ekki algerlega tæmandi að því er varðaði skipakomur --- þá vænti ég þess að ráðherra komi hér til fundarins í dag og hægt verði að halda þessum umræðum áfram. Ég sé ekki ástæðu til þess að vera að margendurtaka á sama fundi það
sem ég vil sagt hafa við ráðherrann þannig að ég óska enn á ný eftir því að gera hlé á ræðu minni þangað til hann er viðstaddur svo að við getum komið þessu máli hér af dagskrá í góðu samkomulagi og greitt um það atkvæði eins og tillögur eru um af hálfu tveggja minni hluta í nefndinni. Minni hlutarnir báðir rökstyðja mál sitt með sama hætti, eins og ég benti á hér í gær. Annar minni hlutinn dregur rökrétta ályktun af rökstuðningnum, hinn ekki að mínum dómi og ætti ég að vita það gjörla því að ég er höfundur textans í báðum tilvikum.
    Ég, sem 1. varaforseti í deildinni, hef áhuga á því að koma málum áfram. Ég hef engan áhuga á því að mál liggi á dagskrá dögum og vikum saman. En sem þingmaður í deildinni hlýt ég auðvitað að gera þá kröfu að þeir ráðherrar sem um er beðið sýni sig og greiði fyrir því að mál geti gengið eðlilega fyrir sig.
    Ég vil ítreka þá ósk mína, herra forseti, að ég fái enn á ný að gera hlé á mínu máli í þessu dagskrármáli þar til þessi atriði skýrast.