Fjarvera ráðherra
Miðvikudaginn 25. apríl 1990


     Þorsteinn Pálsson:
    Herra forseti. Í byrjun þessa fundar fóru fram nokkrar umræður af því tilefni að hæstv. ríkisstjórn þurfti að leita afbrigða fyrir máli sem hún hefði reyndar getað komið fram með öðrum hætti og án þess að leita afbrigða. Nú kemur það enn einu sinni fyrir að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn eru til þess að tefja framgang þingmála, hindra að þingstörf geti gengið með eðlilegum hætti. Að undanförnu hefur mjög borið á því að umræður hafa ekki getað farið fram með eðlilegum hætti vegna þess að ráðherrar í hæstv. ríkisstjórn hafa ýmist skotið sér undan því eða reynt að komast hjá því að taka þátt í þingstörfum, svo sem lög kveða þó á um að þeir séu skyldir til. Og nú gerist það enn einu sinni í þessum mánuði að hæstv. utanrrh. kemur í veg fyrir að þetta mál megi ræða hér í þinginu.
    Ég held því fram að af hálfu þingmanna hafi mjög svo verið reynt að liðka fyrir því að þingstörf gætu gengið fram með eðlilegum hætti. Alveg er ljóst að af hálfu stjórnarandstöðunnar hefur ekki verið um það að ræða að reynt hafi verið að tefja framgang þingmála. Einu skiptin þar sem alvarlegar snurður hafa hlaupið á þráðinn og erfiðleikar hafa verið í þingstörfum hafa verið þegar hæstv. ráðherrar hafa reynt að tefja þingstörfin með fjarvistum af ýmsu tagi og með því að neita að gegna þingskyldum. Þess minnast menn þegar umræður fóru fram hér um orkufrv. í hv. Ed. að verulega mikið þurfti að ganga á áður en hæstv. ráðherrar féllust á að greiða fyrir framgangi þess máls í deildinni með eðlilegri nærveru af sinni hálfu.
    Í þessu máli stendur svo á að þetta er ekki í fyrsta skipti og ekki í annað skipti og sennilega ekki í þriðja skipti sem fresta verður umræðu vegna
fjarveru hæstv. utanrrh., sem lengst hefur allra ráðherra gengið fram í því að tefja þingstörf með fjarveru. Þess vegna er það minnsta sem þingmenn geta gert í tilvikum sem þessum að gera enn á ný kröfur til hæstv. ríkisstjórnar að hún, sem á að hafa forustu um þingstörfin og heldur að greiða fyrir því að þau geti gengið eðlilega fram, láti af því ætlunarverki sínu að tefja hér þingmál, hvert málið á fætur öðru með því að neita að gegna þingskyldum. Hæstv. ríkisstjórn kemur fram með afar einkennilegum hætti því það er ekki einasta svo að hún hafi hér forustuhlutverki að gegna heldur á hún mest undir því að þingstörfin gangi eðlilega. En þá víkur málum svo við að það eru ráðherrar hæstv. ríkisstjórnar sem lengst ganga fram í því að hindra eðlilegan framgang þingmála og eðlilegar umræður.
    Þess vegna er mjög eðlilegt að hér séu gerðar um það skýrar kröfur að hæstv. ríkisstjórn láti af þessum truflunum á þingstörfum og gegni þingskyldum sínum. Það er lágmarkskrafa, ekki síst þegar komið er undir lok þinghaldsins. Auðvitað eru ekki allir undir sömu sök seldir í þessu efni, en fyrst og fremst eru það þó ráðherrar Alþfl., að ég hygg, og einkanlega þó formaður hans, hæstv. utanrrh., sem víkja sér undan þingskyldum og tefja þingstörf.

    Auðvitað væri við annað tækifæri, sem ekki er viðeigandi í þingskapaumræðu, hægt að fjalla um og skilgreina pólitískar ástæður þess að hæstv. ríkisstjórn kemur fram við þingið með þessum hætti. En það er eðlilegt að gera við aðrar aðstæður og í efnislegum umræðum hér í deildinni. En ég vil ítreka mótmæli mín enn á ný við því að ríkisstjórnin skuli koma fram með þessum hætti og hindra þingstörf hvað eftir annað á þennan veg.